Leita í fréttum mbl.is

„Hvernig maður hugsar en ekki hvað maður hugsar“

Í sjónvarpsfréttum RÚV í kvöld var viðtal við Dr. Don Beck, sem þróað hefur áhugaverða aðferð við lausn ágreiningsmála. Þessi aðferð byggir á því að læra að skilja menningararf mótaðilans og skapa þannig virðingu fyrir aðstæðum hans. Ég viðurkenni að ég veit ekkert meira um aðferðina, en heyrist hún taka mið af þeim möguleika „að ég hefði kannski einmitt gert það sama í hans sporum“, þ.e.a.s. ef ég hefði fengið sömu skilaboð með móðurmjólkinni, alist upp við sömu skilyrði og öðlast sömu reynslu. Þetta er ekki spurning um að samþykkja, heldur um að skilja. Ef báðir aðilar fást til að beita þessari aðferðafræði er e.t.v. hægt að leysa erfið mál, sem annars myndu alltaf sækja í sama farið í hefðbundinni skotgrafarökræðu. Þetta virðist m.a. hafa reynst vel í Suður-Afríku, m.a. vegna þess að Nelson Mandela var fljótur að átta sig á kostum aðferðarinnar.

Aðferð Dons Beck nefnist á ensku Spiral Dynamics Integral, eða SDi. Líklega var þessi aðferðafræði rædd eitthvað á ráðstefnu sem IMG Gallup (nú Capacent) stóð fyrir á Hótel Loftleiðum 2005, en annars efast ég um að hún hafi verið í umræðunni hérlendis. Þeir sem vilja kynna sér málið nánar geta t.d. byrjað á að skoða heimasíðuna http://www.spiraldynamics.net/. Svo er líka fróðlegt að skoða http://www.integratedsociopsychology.net/. Og eitthvað er hægt að fræðast um Dr. Don Beck á Wikipediu, nánar tiltekið á http://en.wikipedia.org/wiki/Don_Beck.

Hugmyndafræðin á bak við þetta allt saman byggir m.a. á þeirri skoðun eða grundvallarreglu, að það skipti ekki máli hvað maður hugsar, heldur hvernig maður hugsar það! Eins og bent er á einhvers staðar á fyrrnefndum vefsíðum er nefnilega ekki hægt að byggja hús á hugsunum, en hins vegar er hægt að byggja betra hús með því að hugsa.

Ég vil undirstrika að með þessu bloggi er ég ekki að auglýsa þekkingu mína á „Spiral Dynamics“, enda er hún engin. Hins vegar væri gaman að setja sig aðeins inn í málið - og eins að heyra frá öðrum sem hafa kynnt sér það nánar. Mér finnst tímasetningin á sjónvarpsfréttinni líka skemmtileg fyrir þær sakir, að í einkar athyglisverðri ræðu sinni í Philadelfíu í fyrradag, eiginlega varnarræðu, byggði Barack Obama að mér virðist á sömu hugmyndafræði, meðvitað eða ómeðvitað, nefnilega því að maður geti ekki bara einblínt á það sem sagt er eða gert, heldur þurfi maður líka að skilja hvers vegna það var sagt eða gert. Hægt er að nálgast ræðuna m.a. á http://www.youtube.com/watch?v=pWe7wTVbLUU. (Sem áhugamanni um framsögn finnst mér nú líka frekar flott að geta flutt næstum 40 mínútna ræðu sem þessa blaðalaust án þess að segja svo mikið sem eitt „sko“, en það átti nú ekki að vera neitt aðalatriði í þessari bloggfærslu).

Hvað finnst ykkur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta með að setja sig í spor annarra er nokkuð sem til dæmis er talað um sem ávinning af því að halda alheimsskátamót.  Ef við tölum um að stefna að friðsömum heimi, þá held ég að það sé alveg ómetanlegt að gefa börnunum tækifæri til að kynnast jafnöldrum frá öðrum menningarsvæðum.  Þau læra að það er ekki sjálfgefið að allir hugsi eins og maður sjálfur og að allir séu jafn réttháir.  En það er náttúrulega ekkert með svoleiðis pælingar að gera ef maður vill halda áfram vopnaframleiðslu til að klekkja á hættulega og geðbilaða fólkinu þarna úti í heimi sem er öðruvísi og verri en maður sjálfur.  Nú, og skiptinemasamtök eru líka með svona pælingar, og þessi þarna samtök sem stefna saman 11 ára krökkum frá ýmsum löndum.  Þetta er bara gífurlega mikilvægt. ... ég gæti víst skrifað heila bók held ég :)

Fríða (IP-tala skráð) 21.3.2008 kl. 12:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband