Leita í fréttum mbl.is

Kjarnorkan er ekki sérlega loftslagsvæn heldur

Í apríl í fyrra birti þýska umhverfisráðuneytið skýrslu sem unnin var fyrir ráðuneytið hjá Öko-Institut í Þýskalandi. Samkvæmt henni losa ný jarðgasorkuver minna af gróðurhúsalofttegundum en kjarnorkuver sem veita sömu þjónustu! Í skýrslunni er borin saman losun frá mismunandi orkuverum í öllu orkuvinnsluferlinu og litið á venjuleg heimili sem grunneiningu. Heimili sem fá raforku frá kjarnorkuverum nota alla jafna olíu eða gas til upphitunar, þar eð kjarnorkuver tengjast ekki fjarvarmaveitum. Ný gasorkuver framleiða hins vegar gufu til rafmagnsframleiðslu og selja vatnið síðan til hitunar. Þegar á allt er litið, þ.m.t. einnig losun vegna vinnslu hráefnis í úraníumnámum og olíulindum, er koltvísýringslosunin í reynd 772 g/kWst vegna kjarnorku, en 747 g/kWst vegna orku frá gasorkuverum. Sé aðeins litið á losun frá kjarnorkuverinu sjálfu er hún 31-61 g/kWst, mismunandi eftir uppruna úransins. Sambærileg losun frá vindorkuverum er 23 g/kWst, 39 g/kWst frá vatnsorkuverum og 89 g/kWst frá sólarorkuverum.

Hægt er að fræðast meira um þessar niðurstöður í fréttatilkynningu þýska umhverfisráðuneytisins 24. apríl 2007, sem auðvitað var sagt frá í „Orðum dagsins“ á heimasíðu Staðardagskrár 21 á Íslandi daginn eftir, sem sagt 25. apríl sama ár. Wink


mbl.is Kjarnorkuiðnaðurinn leysir ekki orkuvandamál framtíðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Heimili sem fá raforku frá kjarnorkuverum nota alla jafna olíu eða gas til upphitunar, þar eð kjarnorkuver tengjast ekki fjarvarmaveitum. Ný gasorkuver framleiða hins vegar gufu til rafmagnsframleiðslu og selja vatnið síðan til hitunar."

þannig að ný og skilvirk gasorkuver eru betri en illa hönnuð kjarnorkuver.

en hvað ef kjarnorkuverin væru tengd varmaveitum? myndi það ekki breyta samanburðinum töluvert? hvernig standa þau sig gegn kolabrennslu orkuverum (sem mikið er talað um í bna?)

--

óskar

óskar holm (IP-tala skráð) 1.7.2008 kl. 17:34

2 Smámynd: Anton Þór Harðarson

hvernig kemur dæmið út þar sem raforka er notuð til upphitunar, annars er varla flóknara mál að tengja fjarvarmaveitu kjarnorkuveri en gasorkuveri.

Anton Þór Harðarson, 1.7.2008 kl. 17:43

3 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Hann Ketill Sigurjónsson er nú ekki alveg sammála þér http://askja.blog.is/blog/askja/entry/579752/

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 1.7.2008 kl. 18:11

4 Smámynd: Viðar Freyr Guðmundsson

Ertu nú ekki að bera saman epli og appelsínur ?

Augljósa spurningin er: Er það kjarnorkuverum að kenna að fólk hitar húsin með olíu ?

Viðar Freyr Guðmundsson, 1.7.2008 kl. 19:01

5 Smámynd: Stefán Gíslason

Tilgangurinn með þessari bloggfærslu minni er fyrst og fremst að benda á að kjarnorkan sé líklega ekki sú lausn á loftslagsvandanum sem menn freistast til að halda að hún sé. Færslan felur í rauninni ekki í sér neina afstöðu. Þetta er heldur ekki spurning um svart og hvítt, heldur líklega misgrátt.

En svo ég reyni nú að svara einhverju, þá er þar fyrst til að taka að eflaust myndi það breyta samanburðinum á milli kjarnorkuvera og gasorkuvera töluvert, ef þau fyrrefndu væru tengd varmaveitum. Eðlisfræðilega ætti ekki neitt að vera því til fyrirstöðu. Ég þekki ekki málið, en Öko-Institut staðhæfir að svona sé þetta. Kannski gildir það fyrst og fremst um Þýskaland en ekki heiminn allan. Og þó að tenging við varmaveitur sé kannski fræðilega möguleg, þá getur hún verið óhagkvæm af öðrum ástæðum, t.d. vegna fjarlægða flestra kjarnorkuvera frá byggðum. Ég vil ekki fullyrða neitt um þetta nema kynna mér málið betur fyrst.

Hvað kolaorkuverin varðar, þá losa þau mun meira af gróðurhúsalofttegundum en gasorkuver, einfaldlega vegna þess að kolefnishlutfall kolanna er hærra en gassins. Hins vegar er mikil vinna í gangi til að bæta forvinnslu og brennslu kolanna. Í kolageiranum er þannig mikið unnið með hin og þessi "Clean Coal verkefni", sem m.a. miða að því að auðvelda hugsanlega endurheimt koltvísýrings úr útblæstri.

Ef hægt er að nota raforku til hitunar, þá breytist náttúrulega dæmið. En þá koma upp spurningar um orkunýtingu o.s.frv., sem ég ætla að láta öðrum eftir að svara.

Hvað Íran varðar, þá er erfitt að fullyrða hvort kjarnorkan sé besta lausnin á orkuvanda þeirra. Dæmið er alls ekki einfalt. Eins og m.a. má ráða af skýrslu Öko-Institut, þá á mjög stór hluti koltvísýringslosunar vegna kjarnorkunnar sér stað áður en kemur að sjálfri raforkuvinnslunni, svo sem við vinnslu hráefnanna og byggingu orkuveranna. Hlutföllin eru gjörólík þegar um er ræða kol, olíu eða gas. Það hvort Íranir hafi einhvern áhuga á að koma sér upp kjarnorkuvopnum er svo allt annað mál!

Maður þarf eiginlega alltaf að vera að bera saman epli og appelsínur, því að maður er sjaldnast svo heppinn að bæði - eða öll - fyrirbærin sem bera á saman lúti sömu lögmálum.

Það er ekki kjarnorkuverum að kenna að fólk hitar húsin með olíu (eða gasi eða kolum). Ef kjarnorkuverin geta hins vegar af einhverjum ástæðum ekki selt varmaorku, þá þurfa viðkomandi heimili að fá hana einhvers staðar annars staðar - og þá vill svo vel til að öll nýleg kola-, olíu- og gaskynt orkuver eru (vonandi) sambrennsluver (e: co-generation) og selja því bæði rafmagn og hita.

Rétt er að undirstrika að hér er einblínt á loftslagsmálin. Aðrir umhverfisþættir kjarnorkuvera eru sem sagt ekki til umræðu. Þar þarf að kljást við miklu stærri spurningar, sem eru reyndar afar áhugaverðar út frá sjónarhóli sjálfbærrar þróunar. Hér er heldur ekki verið að tala um kostnaðarhagkvæmni, ríkisstyrki, né framleiðslugetu þeirra fyrirtækja sem framleiða búnað fyrir kjarnorkuver. Öllum þessum þáttum - og fleiri til - þarf að bæta inn í umræðuna áður en hægt er að taka einhverja afstöðu til kjarnorku sem lausnar í orkumálum einstakra landa eða heimssvæða......

Meginniðurstaðan er eftir sem áður bara sú, að það sé ekki sjálfgefið að kjarnorkuver séu loftslagsvænni en ný gasorkuver.

Stefán Gíslason, 1.7.2008 kl. 21:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband