Leita í fréttum mbl.is

Góðir grannar - og mikilvægi fjölbreytninnar

Hverjum sem allt er að kenna, er gott að finna fyrir vinarþeli nágrannanna. Mér finnst líka, að ef það er rétt sem margir segja, að dagar íslensku krónunnar séu senn taldir, þá eigi að skoða myntsamstarf við Norðmenn með mjög opnum huga áður en rýnt er í aðra möguleika. Ýmsir hafa bent á hversu mikla samleið þessi tvö ríki eigi vegna atvinnuvega sinna og stöðu gagnvart Evrópu, en hér kemur enn fleira til. Samstarf milli ríkja, myntsamstarf sem annað, snýst nefnilega ekki bara um hagstærðir í samtímanum, heldur um margt fleira. Þetta „margt fleira“ er gjarnan afgreitt í umræðunni sem „mjúkir pakkar“ sem engu máli skipta á ögurstundu. Viðskiptaleg sjónarmið og hagstærðir verði jú að hafa algjöran forgang. En tilfellið er að þessir „mjúku pakkar“ skipta sköpum varðandi hagstærðir framtíðarinnar.

Öll erum við skammsýnt fólk, enda skammsýnin mannleg. Við erum afar upptekin af líðandi stundu og finnst oft að það sem á okkur dynur sé það mesta, besta eða versta á ævinni, eða í sögu þjóðarinnar. En þegar við stöndum frammi fyrir stórum ákvörðunum, t.d. ákvörðunum um náið samband við önnur ríki eða ríkjasambönd, þá hreinlega verðum við að rýna aðeins lengra fram í tímann. Þegar við tölum um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu, þá megum við t.d. ekki bara tala um Evrópusambandið eins og það er í dag. Ákvörðunin um inngöngu eða ekki inngöngu snýst nefnilega algjörlega um Evrópusambandið eins og það verður eftir 10 ár, eða jafnvel enn lengri tíma. Þá verður sambandið allt annað samband en það er í dag. Hvorki ég né neinn annar getur sagt til um hvernig það samband lítur út, en þó er auðvelt að geta sér þess til að þungamiðja sambandsins verði suðaustar í Evrópu en hún er nú. Það verða ekki lengur „vinir okkar“ Bretar, Frakkar og Þjóðverjar sem verða leiðandi öfl í þessari stóru heild. Kannski er það bara í góðu lagi, en það er ekki í góðu lagi að trúa því að valdahlutföll og áherslur breytist ekki verulega á næstu árum og áratugum!

Pakkar sem virðast „mjúkir“ í dag verða „harðir“ í framtíðinni. Ég er þannig ekki í nokkrum vafa um að samstarf með þjóðum sem byggja á svipaðri arfleifð og við, sé líklegra til að skila okkur inn í farsæla framtíð en samstarf með öðrum þjóðum, hversu ágætt sem það annars getur verið. Þættir eins og tungumál, menning, gildi og saga geta virst mjúkir pakkar, sem menn telja sig ekki hafa efni á að taka tillit til. En það gætu einmitt verið þessir pakkar sem skipta sköpum í þeirri framtíð sem við þurfum að fikra okkur inn í.

Ég tel afar mikilvægt að viðhalda sem best þeirri sérstöðu sem við höfum sem þjóð, jafnvel þó að sú sérstaða hafi kannski komið okkur í koll. Vandamálin sem við er að etja eru engan veginn afleiðing sérstöðunnar, heldur afleiðing þess að við kunnum ekki að höndla sérstöðuna.

Sérstaðan er frábrugðin meðalmennskunni að því leyti, að í henni felast tækifæri, ekki aðeins fyrir þá sérstæðu, heldur alla hina líka. Breytileikinn er nefnilega forsenda nýsköpunar og framfara! Þess vegna snúast ákvarðanir um framtíð okkar ekki bara um framtíð okkar, heldur líka um framtíð annarra þjóða og möguleika heimsbyggðarinnar til sjálfbærrar þróunar. Það er ekki bara nauðsynlegt fyrir okkur að viðhalda sérstöðunni. Það er líka nauðsynlegt fyrir alla hina að við gerum það!


mbl.is Gagnrýnir hin Norðurlöndin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Stefán

Ertu endilega viss um að þessi "umhyggja" byggist á vinarþeli og frændsemi eingöngu? Hafa hinir "stóru" frændur okkar ekki einhvern annan og e.t.v. dulinn tilgang með þessu.

Umtalað er eða a.m.k. var yfirlæti Svía gagnvart nágrönnum sínum. Ísland var lítið annað en dönsk "nýlenda" lengst af. Umhyggja dana gagnvart Færeyingum og Grænlendingum er ekki alveg óumdeild heldur.

Jonas Egilsson (IP-tala skráð) 1.11.2008 kl. 11:45

2 Smámynd: Stefán Gíslason

Nei, auðvitað er ekkert einhlítt í þessu. Ekkert mál er svo einfalt að það hafi bara eina hlið. Sama gildir hér.

Stefán Gíslason, 1.11.2008 kl. 21:35

3 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Mjög athyglisverður pistill hjá þér.

Sérstaklega lesinn í framhaldi af því að hafa hlustað á David Icke, hvaða trúnað sem maður svo sem leggur á kenningar hans. Mér virðist hann hafa rétt fyrir sér í mörgu sem hann segir þó svo maður kaupi kannski ekki allan pakkann sem hann leggur fram.

Greta Björg Úlfsdóttir, 1.11.2008 kl. 22:47

4 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Í framhaldi af því sem Jónas segir þá er það nú bara svo í henni verslu að þar fæst sjaldan, eða aldrei, neitt fyrir ekkert. Svo einfalt er það.

Þó svo að allir hugsi kannski ekki alveg eins og Jórvíkingurinn sem lagði syni sínum þessar lífsreglur: A Yorkshireman´s Advice to His Son:

"Sjáðu allt, heyrðu allt, segðu ekkert.

Éttu allt, drekktu allt, borgaðu ekkert.

Og ef þú gerir einhvern tíma eitthvað fyrir ekkert, gerðu það þá fyrir sjálfan þig"

Greta Björg Úlfsdóttir, 1.11.2008 kl. 22:53

5 Smámynd: Stefán Gíslason

Takk fyrir þetta Gréta. Ég kíkti aðeins á fyrirlesturinn hjá David Icke, en gaf mér ekki tíma til að komast alvega að kjarna málsins. En "Big Brother" er víða, með öllum sínum kostum og göllum. Ekkert einhlítt þar heldur. En varðandi umhyggju þjóða í okkar garð, þá er hún eflaust alltaf samsett úr a.m.k. tvennu, þ.e. vinarþeli annars vegar og öðrum hagsmunum hins vegar. Og ég er ekki í vafa um að hlutfall vinarþelsins í umhyggjunni sé hærra hjá Norðurlandaþjóðunum en öðrum þjóðum. Kannski komast Eystrasaltsþjóðirnar næst hvað þetta varðar, sérstaklega Litháen. Ég hef tengst norrænu samstarfi töluvert. Auðvitað hef ég orðið var við einhvern hroka í þeim samskiptum, en hann er í miklum minnihluta. Þeir sem ég hef rætt við um þetta eru sammála um að hvergi annars staðar í heiminum finnist dæmi um sjálfstæðar þjóðir sem starfa saman af jafnmiklum heilindum og Norðurlandaþjóðirnar og í jafn afslöppuðu andrúmslofti.

Stefán Gíslason, 2.11.2008 kl. 11:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband