Leita í fréttum mbl.is

„Fairtrade“ bananar

Oktnóv08 012web

Þessi fallega mynd af mér var tekin í dag þegar ég kom heim úr Samkaupum í Borgarnesi með matvörur fyrir helgina. Í Samkaupum fæst jafnan töluvert af lífrænt vottuðum vörum. Þar á meðal hafa oft fengist lífrænt vottaðir bananar frá Dóminíkanska lýðveldinu. En í dag var búið að bæta um betur. Nú fengust nefnilega lífrænt vottaðir bananar frá Ekvador, sem voru réttlætismerktir í þokkabót. Réttlætismerking er það sem kallast „Fairtrade certification“ á ensku. Ég hef stundum kallað þetta siðgæðisvottun, en tala núorðið oftar um réttlætismerkingu í þessu sambandi.

Algengasta réttlætismerkið („Fairtrade“ merkið) sem notað er í heiminum í dag er svonefnt Max Havelaar merki. Það er einmitt merkið sem sést á ekvadorsku banönunum á myndinni. Þetta er óháð og áreiðanlegt merki sem vottar siðræn viðskipti með matvörur og fleiri vörur frá þróunarlöndunum. Merkið tryggir m.a. að þeir sem unnu við framleiðslu vörunnar hafi notið lágmarksréttinda hvað varðar laun og aðbúnað og að barnaþrælkun hafi ekki verið stunduð við framleiðsluna. Þar að auki felur merkið í sér staðfestingu á því að inni í verði vörunnar sé dálítið aukagjald, sem framleiðandanum er skylt að verja í félagsleg verkefni í viðkomandi landi, t.d. til skólabyggingar. Samt er verð þessarar vöru ekkert endilega miklu hærra en verð annarrar vöru til sömu nota, þar sem ekkert hefur verið skeytt um fólk og félagsleg réttindi. Ástæðan er sú, að réttlætismerktu vörurnar fara að jafnaði í gegnum mun færri milliliði en hinar vörurnar. Samtökin Fairtrade Labelling Organisations International (FLO), sem halda utan um þetta kerfi á heimsvísu, hafa nefnilega milligöngu um beina samninga við framleiðendur. Um leið fá þau yfirsýn yfir alla vörukeðjuna og geta fylgst með að hvergi sé svindlað á skilmálunum sem fylgja þessari vottun. 

Til skamms tíma hafa réttlætismerktar vörur verið fremur sjaldséðar á Íslandi, en smátt og smátt virðist úrvalið vera að aukast. Þannig er orðið tiltölulega auðvelt að finna þessar vörur í heilsubúðum, þá einkum kaffi, te og súkkulaði. Eitthvað er líka til af réttlætismerktum fatnaði. Alla vega hef ég rekist á réttlætismerkta boli í fataskápum dætra minna. Til skamms tíma var líka starfrækt sérstök verslun með réttlætismerkt klæði í miðborg Reykjavíkur, en því miður hefur mér skilist að hún sé nú hætt starfsemi.

Með því að kaupa réttlætismerktar vörur leggur maður sitt af mörkum til þróunaraðstoðar. Maður getur líka treyst því að sú aðstoð komist til skila og nýtist þar sem hún á að nýtast. Með því að kaupa þessa tilteknu banana lagði ég sem sagt örlítið af mörkum til að bæta kjör bænda og búaliðs einhvers staðar í Ekvador. Og líklega kostaði það mig lítið sem ekkert. Ég ætlaði jú að kaupa banana hvort sem var!

Kaup á réttlætismerktum vörum í stað annars varnings með alls óþekkta sögu í siðgæðislegu tilliti, er ekki bara eitthvað sem einstaklingar geta gert, heldur felst í þessu kjörið tækifæri fyrir fyrirtæki og stofnanir til að styðja við þróunarstarfið og bæta eigin ímynd um leið. Þannig finnst mér alveg sjálfsagt að hér eftir verði eingönu veitt réttlætismerkt te og réttlætismerkt kaffi á kaffistofum Alþingis. Ekki veitir víst af að bæta ímyndina og leggja eitthvað til þróunarmála. Sama ætti náttúrulega að gilda um öll ráðuneyti. Næst mætti svo taka málið upp í opinberum stofnunum, bæði á vettvangi ríkis og sveitarfélaga.

333122258Fairtrade%20by%20KBHTalandi um sveitarfélög: Um síðustu mánaðarmót afhenti fulltrúi Max Havelaar í Danmörku aðalborgarstjóra Kaupmannahafnar, Ritt Bjerregaard, formlega staðfestingu á að borgin hefði uppfyllt þau skilyrði sem þurfti til að verða fyrsti réttlætisbærinn í Danmörku. Þetta felur m.a. í sér að í ráðhúsi borgarinnar verður eingöngu boðið upp á réttlætismerkt („Fairtrade vottað“) te og kaffi. Nú þegar eru um 10% af öllu kaffi sem borgin kaupir réttlætismerkt, en þessi 10% samsvara um 8 tonnum á ári. Hægt er að lesa meira um þetta allt saman í „Orðum dagsins“ á heimasíðu Staðardagskrár 21 á Íslandi 18. nóvember sl.

Ónefnt sveitarfélag á Íslandi hefur lýst yfir ákveðnum vilja til að feta sömu leið og Kaupmannahafnarborg, og verða þar með fyrsti vottaði réttlætisbærinn á Íslandi. En eins og staðan er í dag er þetta því miður ekki framkvæmanlegt, því að til þess þarf að vera búið að setja á fót stofnun eða samtök sem sinnir þessu kerfi á Íslandi. Málið hefur verið rætt við Max Havelaar skrifstofurnar í Bretlandi og í Noregi. Þær gætu í sjálfu sér sinnt Íslandi hvað þetta varðar, en það yrði augljóslega mun dýrara og óhentugra á allan hátt en ef íslenskur aðili gæti sinnt verkinu. Þetta þarf að fela í sér eftirlit og vottun á vörum og bæjum, auk skýrsluhalds og samskipta við höfuðstöðvar FLO. Auðvitað kostar peninga að koma þessu á fót, en um leið myndi opnast mun greiðari leið en nú til að koma þessum vörum til Íslands, kynna þær og gera aðgengilegar fyrir íslenska neytendur, fyrirtæki og stofnanir, þannig að þessir aðilar geti nýtt þessa einföldu og öflugu aðferð í þróunarstarfi af fullum krafti.

Til að skýra þetta íslenska vandamál aðeins nánar, þá eru ýmsar réttlætismerktar vörur fluttar til landsins í stórum sekkjum og síðan pakkað í smærri neytendaumbúðir hérlendis. Max Havelaar merkið er þá á sekkjunum sem varan kemur í, en þar sem enginn aðili hérlendis sér um framhaldið, þá geta söluaðilarnir hér ekki fengið merkið á nýju umbúðirnar, jafnvel þó að öllum skilyrðum réttlætismerkingarinnar hafi í raun verið fullnægt. Reyndar hef ég heyrt að Te&kaffi hafi fengið erlenda stofu til að votta einhverja kaffitegund hjá sér, en allar aðrar réttlætismerktar vörur sem fást hér hafa fengið merkið áður en þær voru fluttar inn.

Eins og sést á fallegu myndinni efst í þessari færslu vildi svo skemmtilega til að ég var einmitt með Max Havelaar merki í jakkaboðungnum þegar ég keypti umrædda banana. Þetta merki var mér gefið í september þegar ég hitti fólk frá norska smábænum Sauda, sem varð einmitt fyrst norskra sveitarfélaga til að fá vottun sem réttlætisbær. Það gerðist í ágúst 2006, en síðan þá hefur orðið mikil vakning á þessu sviði í Noregi og nokkur sveitarfélög bæst í þennan hóp.

Þeir sem hafa náð að lesa alla leið hingað og þótt sem þeir yrðu einhvers vísari, mega gjarnan skrifa hugleiðingar sínar í athugasemdir hér fyrir neðan. Sömuleiðis er mér afar ljúft að svara hvers kyns spurningum um réttlætismerkingar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Góð grein og mikilvægara málefni en margan grunar.  Hér blandast líka inn hin miskunnlausa alþjóðavæðing og kvrkatak IMF og WB á þróunarríkjum.  Kíktu á myndina Life and Debt, sem lýsir ástandinu á Jamaica, en þar koma bananar mikið við sögu. Hrollvekjandi veruleiki hér á ferð.

Jón Steinar Ragnarsson, 22.11.2008 kl. 00:12

2 Smámynd: Fríða

Nú þekki ég nokkuð vel til í Danmörku og mér fannst alveg ótrúlega mikill munur á Íslandi og Danmörku hvað viðhorf gagnvart svona var mikill þegar ég flutti hingað heim 2001.  En vonaði að það væri bara vegna þess að Ísland væri svolítið á eftir og þetta myndi allt koma.  En það hefur bara ekkert breyst.  Ekki á Íslandi.  Ég held að bilið sé að breikka ef eitthvað er, því eins og þú segir, þá er þetta um allt í Danmörku, bæði lífrænt ræktaðar vörur og Fairtrade.  Hér þarf maður að leita að þessu með logandi ljósi.  Mig grunar reyndar að fólk álíti allt svo hreint hér að maður þurfi ekkert að spá í þetta með þetta lífrænt eitthvað, það sé bara fyrir hippa og grænmetisætur.  Ég held að fólk þurfi fræðslu.  Ja, eða áróður.  Þetta er ekki meðfædd vitneskja.  Í mörgum af þeim skólum sem ég kem í, og kem ég í þónokkra er ruslið ekki flokkað.  Það er bara öllu grautað saman, pappír og öðru.  Við hverju er þá að búast ef börnin læra ekki einu sinni að það sé gott að flokka rusl?  Nú, og svo eru umhverfissjónarmið kannski eitthvað sem íslenskir bændur ættu að fara að skoða betur þegar umræðan um ESB er komin á þetta stig.  Því þar geta þeir sko staðið sig betur.  Og jafnvel haldið markaðnum hér með því að hvetja fólk til að kaupa landbúnaðarvörur sem er ekki búið að flytja yfir hafið með því umhverfissvínaríi sem því fylgir. Það vilja flestir vernda umhverfið og fara vel með náttúruna, en ef fólk heldur að það skipti engu máli hvernig það hagar sér, þá gerist lítið.  Hmmm... ég ætlaði nú ekki að skrifa heila ritgerð hér

Fríða, 22.11.2008 kl. 08:36

3 Smámynd: Birgir Þorsteinn Jóakimsson

Fairtrade er að tikka inn hér á landi. Hjálparstarf kirkjunnar hefur verið duglegt við að kynna þetta. Ég gerði bækling og plaköt fyrir þau. Þú getur fengið bæklinga hjá þeim. Auðvitað eigum við Íslendingar að ganga lengra og koma þessu almennilega á koppinn. Ég er til í að beita mér fyrir þessu. Við getum komið þessu á koppinn saman.

Birgir Þorsteinn Jóakimsson, 24.11.2008 kl. 10:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband