Leita í fréttum mbl.is

Ísland - hvað nú?

Dagar ríkisstjórnarinnar eru senn taldir. Þar situr vænsta fólk, sem eflaust hefur allt gert sitt besta í þeim flóknu aðstæðum sem nú eru uppi. Samt verður stjórnin að víkja, einfaldlega til þess að hægt sé að hefja uppbyggingarstarfið, bæði innanlands og í samskiptum við aðrar þjóðir. „Það er ekki hægt að leysa vandamál með sama hugarfari og var notað þegar vandamálið var búið til“, svo ég vitni nú enn og aftur í Einstein. Það skiptir engu máli hversu færir einstaklingar eru nú við stjórnvölinn í ríkisstjórn og opinberum stofnunum. Þeim verður einfaldlega aldrei treyst til að vísa veginn fram á við.

Ég geri ráð fyrir að ríkisstjórnin biðjist lausnar, ef ekki í dag, þá innan fárra daga. Þá er um tvo kosti að velja: Annað hvort verður mynduð ný ríkisstjórn, eða þing rofið og efnt til kosninga.

Ég tel þingrofskostinn ekki góðan kost. Sé þing rofið þurfa kosningar að fara fram „áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið“, sbr. 24. grein Stjórnarskrárinnar. Þangað til myndi núverandi stjórn væntanlega vera falið að sitja áfram. Stjórnin þarf að fara frá strax - og 45 dagar eru allt of stuttur tími til að undirbúa kosningar við núverandi aðstæður. Það þarf nefnilega að gefast ráðrúm til nýsköpunar, bæði í mannavali og í skipan stjórnmálafylkinga. Væri tilkynnt um þingrof í dag þyrftu kosningar að fara fram fyrir 7. mars nk.!

Hinn kosturinn er að mynda nýja ríkisstjórn. Ég tel reyndar ógerlegt að setja saman starfhæfa stjórn einhverra flokka sem nú sitja á Alþingi. Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn tengjast öll bankahruninu með einum eða öðrum hætti, og án þeirra allra verður ekki mynduð starfhæf stjórn. Af sömu ástæðum kemur þjóðstjórn allra flokka ekki til greina.

Með hliðsjón af þessu öllu verð ég sífellt sannfærðari um að utanþingsstjórn sé skásti kosturinn eins og málum er nú háttað. Hún myndi þá fara með stjórn landsins fram að næstu alþingiskosningum, sem menn hefðu þá bæði lengri tíma og meiri frið til að undirbúa en ella. Nákvæm tímasetning kosninga yrði þá ákveðin fljótlega. Ef þessi leið verður valin geta stjórnmálamenn og almenningur farið að beina sjónum sínum að því sem skiptir máli: Framtíðinni!

Ég hef áður skrifað nokkra punkta um utanþingsstjórnir og ætla ekki að endurtaka þá hér nema að litlu leyti. Utanþingsstjórn er auðvitað neyðarúrræði. En núna ríkir einmitt þess konar neyð. Í stjórninni myndu sitja sérfræðingar með þokkalega hreint borð, sem sagt fólk sem almenningur og erlendir samstarfsaðilar gætu treyst. Um leið fengist friður; friður til að stjórna, friður til að huga að innra starfi stjórnmálaflokkanna og undirbúa kosningar og friður fyrir fólk flest til að sinna þeim málum sem því standa næst. Þegar friðurinn hefur ríkt nógu lengi yrði svo kosið til Alþingis - og eftir það tæki trúlega við töluvert breytt landslag, bæði hvað varðar stjórnmálaflokka og einstaklinga í forystuhlutverkum. Inn í þetta þarf svo að fléttast undirbúningur stjórnarskrárbreytinga. Nú dugar nefnilega ekkert hálfkák. Það þarf að stokka spilin upp á nýtt. Við þurfum nýja stjórnarskrá, nýtt lýðveldi, nýtt Ísland.

Það er ekki eftir neinu að bíða.


mbl.is Mótmæli fram á nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eitt smáatriði.... Ríkisstjórnin er lýðræðislega kosin, þó að þú eða vinstri grænir viljið halda öðru fram.

Einfalt mál.

Joseph (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 11:08

2 Smámynd: Stefán Gíslason

Það er reyndar Alþingi sem er lýðræðislega kosið - og ég hef aldrei haldið öðru fram!!! Einfalt mál!

Stefán Gíslason, 21.1.2009 kl. 11:51

3 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Alþingi er lýðræðislega kosinn en frá því að hún náði kosningu hefur mikið gegnið á og traustið sem hún hafði er horfið.  Ríkisstjórinn hefur klúðrað málum og sér ekki fyrir endann á því klúðri.  Því er best að skipta um stjórn kjósa aftur og endurnýja umboð til að gera tilraun að rétta þjóðina við aftur

Þórður Ingi Bjarnason, 21.1.2009 kl. 15:13

4 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Utanþingsstjórn er besti kostur. Þannig, og aðeins þannig, er einhver möguleiki á að þrífa upp þann skít sem núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnir hafa skilið eftir sig. Reyndar mætti telja upp marga þingmenn líka sem hafa verið á kafi í sukkinu, svo ekki sé talað um bankastjórana, ráðuneytisstjórann, fjármálaeftirlitsliðið og fleiri og fleiri. Ég myndi mæla með þér í starfið en ég er bara svo hrædd um að þú myndir vilja endurnýta allt gamla draslið!

Ingibjörg Hinriksdóttir, 21.1.2009 kl. 18:11

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það sem mér finnst að ætti að vera einföld málefnaleg krafa er að krefjast dagsetningar á þingslitum og kosningum, hvort sem það verður í vor, haust eða 2011. Fram að því á fyrsta krafa að vera að aðskilja lögjafar og framkvæmdavald strax. Þ.e. að létta ægivaldi ráðherra yfir þinginu og gera það lýðræðislega starfhæft. Við það yrðu ráðherrar ekki þingmenn og fengju ekki að sitja þingfundi. Þingmönnum fækkaði í ca 51 og þingið ræddi og réði gjörðum ráðherra og lögjöfinni. Fyrr verður ekki lýðræði hér.

Að því gerðu, þá getur þingið fyrst orðið að kröfum fólksins, sem er ómögulegt nú. Hér er því ekki lýðræði í nokkrum skilningi enn. Það mun breytast um leið og þessi grundvallarbreyting verður gerð. Þá mun allt hitt sem krafist er koma. Kosningar líka.

Jón Steinar Ragnarsson, 21.1.2009 kl. 21:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband