Leita í fréttum mbl.is

Hamingjuhlaup til Hólmavíkur

Hamingjuhlaupið frá Drangsnesi til Hólmavíkur í gær (laugardag) var skemmtileg upplifun sem gekk eins og best verður á kosið. Ég var mjög hamingjusamur áður en hlaupið hófst, en enn hamingjusamari að því loknu. Þar með var tilganginum náð. Í þessari bloggfærslu verður sagt frá þessu hlaupi í löngu máli - og ekkert dregið undan.

Með góðri aðstoð bílstjóranna Bjarkar og Smára vorum við hlaupararnir komin á Drangsnes um 10-leytið á laugardagsmorgninum. Hittum þar fyrir heiðurshjónin Óskar Torfason, hreppsnefndarmann og framkvæmdastjóra Fiskvinnslunnar Drangs, og Guðbjörgu Hauksdóttur, bekkjarsystur mína frá Reykjaskóla. Óskar afhenti mér skilaboð Drangsnesinga til Hólmavíkinga, og eftir myndatöku við fiskvinnsluhús Drangs var okkur ekkert að vanbúnaði að leggja af stað.

Hamingja09 002web
Hamingjuhlauparar við fiskvinnsluhús Drangs á Drangsnesi. F.v.: Arnfríður,
Birkir, Guðmann, Ingimundur, Stefán, Þorkell og Eysteinn. (Ljósm. Björk
)

Hamingja09 005web
Áður en lagt var í hann afhenti Óskar Torfason mér skilaboð
Drangsnesinga til Hólmvíkinga. (Ljósm. Björk)

Klukkan 10:11 lögðum við af stað hlaupandi frá bryggjunni á Drangsnesi 7 saman. Það hafði sem sagt ræst verulega úr þátttökunni síðan hlaupið kom fyrst til tals fyrir nokkrum vikum síðan. Með mér í för voru þau Arnfríður Kjartansdóttir (Fríða) sálfræðingur á Akureyri, Birkir Stefánsson bóndi í Tröllatungu, Eysteinn Einarsson verkfræðingur frá Broddanesi, Guðmann Elísson stórhlaupari í Reykjavík, Ingimundur Grétarsson hlaupafélagi í Borgarnesi og Þorkell Stefánsson frumburðurinn minn. Þetta var ekki einasta góður félagsskapur, heldur líka hópur af reyndum hlaupurum. Þannig telst mér til að þetta fólk hafi samtals lokið 27 maraþonhlaupum. Birkir, Fríða, Guðmann og Ingimundur hafa líka öll fylgt mér í tveimur eða fleiri fjallvegahlaupum.

Fyrir hlaupið hafði ég sett fram allnákvæma áætlun sem miðaðist við það að vegalengdin öll væri 34,5 km og að við myndum halda meðalhraðanum 10 km/klst. alla leiðina. Reyndar vorum við strax orðin 3 mínútum á eftir áætlun þegar lagt var af stað, en það mátti nú teljast innan skekkjumarka. Hlaupið fór vel af stað, enda allir vel stemmdir og veðrið eins og best verður á kosið; hægur norðvestlægur vindur, skýjað og svo sem 13 stiga hiti. Ég gat ekki betur séð en við værum bara býsna sporlétt. Ekki var margt um manninn á Drangsnesi, en þó var alla vega ein kona úti á svölum sem veifaði til okkar og hvatti okkur áfram.

Hamingja09 011web
Við gömlu sundlaugina í fjörunni í Hveravík. Allir léttir í spori.

Fyrsta áfanga hlaupsins lauk fyrir neðan bæinn í Hveravík. Þar voru 6,5 km að baki og tíminn 37:13 mín, sem var vel á undan áætlun. Fram að þessu höfðum við öll haldið hópinn, en eftir þetta tók Þorkell að síga framúr, hvattur áfram af fjölmörgum kríum sem fylgdust áhyggjufullar með ferðum okkar. Hann hélt svo forskotinu alla leið, þó að hann hefði aldrei áður hlaupið meira en 21 km (hálft maraþon) í einu lagi.

Hamingja09 014web
Á leið inn Selströnd. Hella framundan. Hér hafði Þorkell náð góðu forskoti, en
sést þó enn sem rauður punktur á veginum.

Hamingja09 018web
Strandamennirnir Birkir og Eysteinn á fleygiferð innan við Sandnes.

Ferðin inn Selströnd var tíðindalítil, en að sama skapi skemmtileg, því að um nóg var að spjalla. Ég reyndi m.a. að miðla einhverjum molum um jarðlagahallann á svæðinu, uppvöxt tengdapabba á Kleifum og þar fram eftir götunum. Eins var farið yfir ýmislegt sem hlaupafélagarnir voru að fást við, bæði á hlaupum og í öðrum hlutum lífsins. Og veðrið hélt áfram að leika við okkur. Fyrr en varði vorum við komin inn að vegamótunum við Hálsgötugil, þar sem vegurinn liggur upp Bjarnarfjarðarháls. Sú brekka fær að bíða betri tíma, en þarna hitti ég fyrir Hörpu frænku í Borgarnesi og Ragnheiði móður hennar. Það er alltaf gott að rekast á fólk sem maður þekkir á svona ferðalögum.

Við Hálsgötugil áttu samkvæmt áætlun að vera 15,5 km að baki, en reyndust bara 15,26 skv. GPS-mælingu. Þarna var sem sagt komin upp smávægileg skekkja, sem átti eftir að haldast alla leið, án þess að það hafi nú skipt meginmáli. Alla vega var klukkan orðin 11:39 þegar þarna var komið sögu, en ég hafði reiknað með að vera þarna kl. 11:41. Verra gat það nú verið.

Um þetta leyti var Birkir skíðagöngukappi farinn að síga svolítið framúr og Þorkell sást hvergi. Við hin héldum okkur í 2-3 manna hópum og nutum þess að vera til. Reyndar blés vindurinn svolítið á móti okkur á ströndinni fyrir innan Bassastaði, en það var nú bara þægilegt. Þegar við nálguðumst fjarðarbotninn sáum við að einhver beið okkar við brúna yfir Selá. Þar var komin Jóhanna Eggertsdóttir, maraþonhlaupari úr Grafarvoginum, en hún var á ferð um Strandirnar, hafði frétt af hlaupinu fyrir tilviljun og sá að vegalengdin frá Selá passaði einmitt inn í æfingaáætlunina fyrir maraþonið á landsmótinu á Akureyri viku síðar. Þar með vorum við orðin 8 í hópnum.

Við Selána vorum við enn 2 mín. á undan áætlun og við Staðará var forskotið komið upp í 4 mín., klukkan sem sagt bara orðin 12:20, en átti að vera 12:24 samkvæmt áætluninni. Kílómetramælirinn sýndi 22,38 km og því ekki nema um 12 km eftir. Rétt áður en við komum að Staðaránni hittum við Jón Halldórsson frá Hrófbergi, sem hafði gert sér ferð þarna inneftir til að taka myndir af hlaupinu. Afrakstur þeirrar myndatöku má sjá á myndasíðu Jóns.

Um þetta leyti höfðum við tekið eftir dökkklæddum hlaupara sem var á sömu leið og við, en talsvert á undan. Komumst að því seinna, að þarna var á ferð Hjördís Kjartansdóttir, Hólmvíkingur með meiru. Við Staðarána urðu líka fleiri breytingar á högum hlauparanna, því að þarna brá Birkir undir sig betri hjólaskíðunum til að fá svolitla tilbreytingu í hreyfingarnar. Og konan hans, hún Sigga, fylgdi honum eftir það á hjóli. Þau fóru reyndar ívið hraðar yfir en við hin.

Hamingja09 021web
Birkir Vasa Stefánsson kominn á hjólaskíðin.

Hamingja09 024web
Skammt frá Vegamótum í Staðardal. Ingimundur og Eysteinn eru fremstir,
en Guðmann skammt á eftir.

Hamingja09 029web
Fríða var mætt á svæðið skömmu síðar. Þetta var síðasta myndin sem ég tók í
hlaupinu. Veit ekki hvort það ber að túlka sem þreytumerki.

Við Grjótá bættist enn í hlauparahópinn. Þar beið Vignir Pálsson, bóndasonur frá Grund, eftir okkur og fylgdi okkur það sem eftir var leiðarinnar. Þarna bættust líka tveir synir Jóhönnu í hópinn, þannig að allt í allt voru þetta orðnir 12 hlauparar. Tímaáætlunin hafði ekki raskast mikið, forskotið að vísu orðið 3 mínútur, en framundan voru Fellabökin, erfiðasti hjalli leiðarinnar.

Fellabökin reyndust reyndar lítill farartálmi. Alla vega hljóp ég alla leiðina upp og líka þeir sem fylgdu mér þá stundina. Þegar upp var komið þóttumst við greina Þorkel í fjarska á leiðinni upp úr svonefndum Tröllkonudal. Til að stytta langa sögu örlítið, reyndum við að halda hraðanum í skefjum það sem eftir var leiðarinnar, og tókum meira að segja svolítið tímajöfnunarhlé við Hólmavíkurvegamótin. Skokkuðum þaðan sem leið lá öll í hóp inn á staðinn og vorum mætt á hátíðarsvæði Hamingjudaganna á Hólmavík stundvíslega klukkan 13:35 eins og að var stefnt. Þar var vel tekið á móti okkur, Hólmvíkingar fengu skilaboðin frá Drangsnesingum, og þar með lýkur að segja frá þessu hamingjuhlaupi frá Drangsnesi til Hólmavíkur. Kannski var þetta í fyrsta sinn sem þessi leið er hlaupin, en um það skal þó ekkert fullyrt. Alla vega veit ég fyrir víst að hún hefur verið gengin.  Allur reyndist spottinn 34,19 km að lengd samkvæmt GPS-úrinu mínu og klukkan sýndi 3:25:02 klst. Meðalhraðinn var nákvæmlega 10 km/klst. Það má því segja að fátt hafi farið úrskeiðis, áætlanir stóðust og allir skiluðu sér heilir í mark, sumir þó kannski örlítið stirðari en aðrir.

Það má kannski bæta því við, svona rétt í lokin, að eftir að hafa hlaupið í blíðuveðri alla leið, lentum við í hellidembu rétt í þann mund sem við vorum komin til Hólmavíkur. En þetta var hlý rigning, þannig að hún skipti engu máli. En það var samt gott að koma til byggða og fá hangikjöt.

Bestu þakkir til ykkar allra sem stóðuð að þessu og í þessu með mér með einum eða öðrum hætti. Sérstakar þakkir fá hlaupararnir, skipuleggjendur Hamingjudaganna og fjölskyldan mín. Þetta var gaman.
Smile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband