Leita í fréttum mbl.is

Hvaðan kemur maturinn?

pesticidspray_tekstÞað er gaman að lesa skemmtilegar bækur. Þess vegna tók ég mér smástund áðan til að fletta einni slíkri, nánar tiltekið bókinni Bekæmpelsesmiddelstatistik 2008, sem Umhverfisstofnun Danmerkur (d: Miljøstyrelsen) gaf út á dögunum. Þar kemur fram að Danir voru duglegir að úða akrana sína með eitri í fyrra. Heildarnotkun varnarefna í dönskum landbúnaði var sem sagt rétt tæplega 4.000 tonn á árinu 2008. Svoleiðis tala segir náttúrulega ekkert ein og sér, en þarna var um að ræða 20% aukingu frá fyrra ári, en árin þar á undan hafði efnanotkunin bara verið á hægri uppleið. Til að setja þetta í annað samhengi, þá samsvaraði notkunin 2008 rúmum 0,7 kílóum á hvert danskt mannsbarn.

Ég ætla ekkert að fara að endursegja alla bókina hér, enda vil ég ekki eyðileggja ánægju annara af því að lesa hana. Ég ætla samt að upplýsa, að Danirnir nota þó nokkuð margar gerðir af varnarefnum í herferðum sínum gegn illgresi og óværu. Alla vega komust 190 mismunandi efni (talið í virkum innihaldsefnum) við sögu hvað þetta varðar á árinu 2008. Ég nenni ekki að telja þau öllu upp, en ætla að smella hérna inn töflu sem sýnir þau 10 vinsælustu í heilum tonnum talið - með dönskum rithætti. Læt hin 180 liggja milli hluta:

EFNITonn
glyphosat1.562
prosulfocarb580
mancozeb521
chlormequat-chlorid296
pendimethalin167
MCPA129
cupricarbonat basisk101
boscalid85
metamitron58
epoxiconazol50


Þessi efni eru til margra hluta nytsamleg. Þannig eru glyphosat, prosulfocarb, pendimethalin og MCPA öll notuð til að eyða illgresi. Chlormequat er hins vegar notað til að stjórna vexti plantna, og mancozep og epoxiconazol eru sveppaeitur. Skordýraeitur kemst hins vegar ekki á topp-10 listann. Í þeim flokki voru Tau-fluvalinat og cypermethrin vinsælust, en á árinu 2008 seldust rétt rúm 9 tonn af hvoru efni í Danmörku.

En hví er ég að skrifa um þetta? Jú, mér finnst umhugsunarefni hversu gríðarlega mikið af eiturefnum er notað í landbúnaði víða um heim. Danir eru reyndar eftir því sem ég best veit algjörir smákarlar í þessum efnum. Bændur í sunnanverðri Evrópu hafa a.m.k. verið taldir mun stórtækari. Í Danmörku var hver blettur ræktunarlands úðaður með varnarefnum að meðaltali rúmlega þrisvar árið 2008 (26% aukning frá árinu áður), en það þykir víst næsta lítið víða annars staðar.

Varnarefnin skila sér aðeins í litlum mæli á diskinn minn þegar ég borða afurðir af þessum velúðuðu ökrum. En það þarf þokkalega mikla orku til að framleiða allt þetta efnasull, flytja það á milli staða og koma því á akurinn. Svo hefur þetta náttúrulega sín áhrif á lífríkið, bæði það lífríki sem því er ætlað að hafa áhrif á og annað. Mikið af þessu brotnar fljótt niður, en annað safnast kannski einhvers staðar upp, svo sem í lífverum eða grunnvatni.

veljum_islensktÁlyktun þessa pistils er: Veljum íslenskt! Hérlendis eru notkun varnarefna í landbúnaði algjörlega hverfandi!

Þeir sem vilja lesa þessa umræddu bók geta nálgast hana á http://www.mst.dk/NR/rdonlyres/537262CB-C471-4596-A498-8EB2F9530AA6/0/Bekæmpelsesmiddelstatistik2008.pdf. Svo er líka ágæt samantekt á heimasíðu dönsku upplýsingamiðstöðvarinnar um umhverfi og heilsu, nánar tiltekið á http://www.miljoeogsundhed.dk/default.aspx?node=6610. Þar fékk ég „lánaða“ myndina sem fylgir þessari færslu.

„Bon appetit“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fríða

Er nú ekki pínu óréttlátt að tala eins og allar landbúnaðarvörur dana séu framleiddar með hjálp eiturefna?  Lífrænt ræktaðar vörur eru líka til.

Fríða, 16.9.2009 kl. 13:06

2 Smámynd: Stefán Gíslason

Mikið rétt! Danir eru meira að segja líklega í fararbroddi á heimsvísu hvað varðar markað fyrir lífrænar vörur! Hér er auðvitað bara verið að tala um meðatöl - og jafnvel þau eru örugglega miklu lægri í Danmörku en víða annars staðar. Hins vegar eru Danirnir nákvæmir og heiðarlegir í skýrsluhaldi um þetta og tölurnar þeirra aðgengilegar.

Stefán Gíslason, 16.9.2009 kl. 13:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband