Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Uppselt á Laugaveginn

Sá í Mogganum í morgun að það er uppselt á Laugaveginn í sumar. Ég hafði verið að gæla við að skreppa til að endurlifa og bæta við reynsluna frá því í fyrra. En fyrst ég var ekki búinn að skrá mig, þá læt ég líklega duga að hlaupa yfir nokkra fjallvegi á listanum mínum. Meira um það síðar......


Þrjú góð ráð til bílstjóra

Ég hef ákveðið að gefa atvinnubílstjórum þrjú góð ráð, áður en þeir sjálfir og allir aðrir verða búnir að gleyma hvers vegna þeir byrjuðu á þessum aðgerðum sínum. Upphaflega voru þeir jú að mótmæla hækkuðu eldsneytisverði. Eins og ég útskýrði í bloggfærslu 28. mars sl., finnst mér fráleitt að ríkisstjórnin grípi til skammtímabreytinga á skattlagningu eldsneytis, hvað sem öllum mótmælum líður, enda stendur uppstokkun skattkerfisins væntanlega fyrir dyrum. Þangað til liggur beinast við að bílstjórar geri sjálfir allt sem í þeirra valdi stendur til að draga úr áhrifum hækkandi olíuverðs. Um það snúast góðu ráðin þrjú:

  1. Læra vistakstur, hafi það ekki þegar verið gert. Þetta getur leitt til allt að 15% eldsneytissparnaðar.
  2. Velja bíl með hóflega vélarstærð næst þegar skipt verður um bíl.
  3. Nota fjölskyldubíla eða sparneytna bílaleigubíla í mótmælaaðgerðir í stað flutningabíla. Þannig sparast mikið af dýru eldsneyti.

mbl.is Sturla: „Ekki á okkar ábyrgð"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðilegt sumar

Mikið var það nú snjallt hjá Íslendingum að merkja sumarkomuna á fyrirfram ákveðinn stað á dagatalinu og gera svo þann dag að almennum frídegi. Mér hefur alltaf fundist þetta vera gleðidagur, hvernig sem viðrar. Og frídagar í miðri viku angra mig ekki neitt, þó að sumir kvarti og vilji leggja allt slíkt af til að auka afköst þjóðarinnar.

Síðustu dagar hafa verið annasamir og þess vegna blogglausir. Hlaup hafa jafnvel líka orðið að víkja fyrir vinnu. Þetta er út af fyrir sig leiðinlegt, en þar fyrir utan bara eðlileg aukaverkun þess að reka eigið fyrirtæki, þar sem fáir eru til að vinna verkin, og þar sem verkin raðast eins og snjór á vegi eftir góðan skafrenning.

Gleðilegt sumar! Smile


Ofverndað lítið land?

Heyrðu, fer þetta ekki að nálgast ofverndun? Ef mig misminnir ekki eru Geir og Ingibjörg að verða búin að semja við alla þjóðarleiðtoga sem þau þekkja um að passa okkur. Er pláss fyrir alla þessa heri á svona litlu landi þegar þá langar að prófa dótið sitt? Sér einhver um að merkja heimsóknir á dagatal fram í tímann til að tryggja að við séum ekki með mörgum í einu, eða þannig?

Heyrðu, hvað þýðir annars tvíhliða samkomulag? Eigum við kannski líka að passa Kanada?


mbl.is Undirbúa gerð tvíhliða samkomulags
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tími nagladekkjanna er - alveg - liðinn

Í frétt mbl er ökumenn minntir á að tími nagladekkjanna sé liðinn, þar sem þau eru jú ólögleg eftir 15. apríl. Ég held reyndar að tími þeirra sé alveg liðinn, fyrir fullt og allt, hvað sem öllum lagaákvæðum líður. Nú er jú orðið auðvelt að verða sér úti um naglalaus dekk, sem duga álíka vel og nagladekk í hálku og eru auk þess mun hljóðlátari og slíta yfirborði vegarins mun minna. Hér á ég m.a. við loftbóludekk, sem ég hef afar góða reynslu af sjálfur eftir ákaflega margar ferðir milli Borgarness og Reykjavíkur síðustu fjóra vetur, að ógleymdum ferðum til Akureyrar, Hólmavíkur og fleiri staða, sem eru enn lengra úti á landi en Kópavogur, Wink (sbr. viðtal við félagsmálaráðherra í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi).

Fjölskyldan öll og fleiri ökumenn sem ég þekki vel, hafa ekið á loftbóludekkjum síðustu vetur víða um land og verið sammála um ágæti þeirra. Reyndar eru allar viðkomandi bifreiðir með ABS-bremsum ef ég man rétt, og ein eða tvær með spólvörn af einhverju tagi. Líklega koma loftbóludekkin albest út þar sem þetta allt fer saman. Mæli sem sagt eindregið með þeim. Fann meira að segja hálfpartinn til með jeppaökumönnunum sem keyrðu fram hjá mér á nagladekkjum með tilheyranda hávaða þegar ég rölti eftir Borgarbrautinni á leið í vinnuna í morgun.

Síðasta haust þegar ég keypti mér núverandi loftbóludekk undir UMÍS-bílinn spurði ég eiganda dekkjaverkstæðisins hvernig þróunin væri í sölu á loftbóludekkjum. Hann svaraði því til að salan færi greinilega vaxandi. Minnir að hann hafi talað um 40% aukningu milli ára. Hann sagðist bara einu sinni hafa lent í því að loftbóludekkjum væri skilað og keypt nagladekk í staðinn. Þar átti í hlut kona úr nágrenni Reykjavíkur. Hjá henni hagaði svo til að það var dálítil brekka upp að bænum. Dekkjamaðurinn spurði hvort hún hefði lent í vandræðum vegna hálku í brekkunni. Konan svaraði því til að hún hefði ekki átt í neinum vandræðum við að komast upp brekkuna í hálku. Henni finndist bara svo óöruggt að heyra ekki hljóðið í nöglunum.

Tími nagladekkjanna er alveg liðinn.


mbl.is Búist við miklu svifryki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ein metsölubókin!

Afköst mín sem rithöfundar eru með ólíkindum. Það eru ekki liðnir nema rúmir 5 mánuðir síðan spennubókin Vägen hit och vidare kom út hjá forlaginu. Og nú var ég að rekast á það á netinu að metsölubókin sem allir hafa beðið eftir er komin líka. Þetta er auðvitað bókin Evaluering av Småsamfundsgruppens arbete. Nú ætti engum að þurfa að leiðast lengur. Smellið bara á bókartitilinn - og þá er eftirleikurinn auðveldur!


Einkennileg loftslagsumræða

Mér finnst einkennilegt að fylgjast með loftslagsumræðunni þessa dagana. Einkennilegast finnst mér þó hversu mikið rými þeir fá í fjölmiðlum, svo sem á RÚV, sem enn halda því fram að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu bara einhver hræðsluáróður og bull í Al Gore og hans líkum. Auðvitað er nauðsynlegt að ólík sjónarmið komi fram, en í þessu máli liggur við að jafnræðið sé farið að fela í sér ákveðna skekkju, eins og Guðni Elísson lýsir svo ágætlega í grein sinni um tóbaksvísindi í Lesbók Morgunblaðsins sl. laugardag.

Mér finnst með öðrum orðum einkennilegt að loftslagsumræðan á Íslandi skuli enn þann dag í dag snúast að einhverju leyti um það hvort maðurinn eigi einhvern þátt í hækkandi styrk koltvísýrings í andrúmsloftinu og hvort hækkandi styrkur koltvísýrings í andrúmsloftinu stuðli að hækkandi meðalhitastigi á jörðinni. Í rauninni eru þessi atriði löngu útrædd, bæði á vettvangi vísinda og stjórnmála. Á því leikur nákvæmlega enginn vafi að maðurinn á stóran þátt í því að styrkur koltvísýrings hefur hækkað úr u.þ.b. 270 ppm í u.þ.b. 390 ppm frá upphafi iðnbyltingar, þ.e.a.s. á síðustu 200 árum. Á því leikur heldur enginn vafi að koltvísýringur og fleiri lofttegundir gleypa geisla af tiltekinni bylgjulengd, og þar með hluta af varmageislum frá yfirborði jarðar. Þetta hafa menn vitað lengi og ættu ekki að þurfa að ræða frekar. Hins vegar er skiljanlegt að menn greini á um hver áhrif loftslagsbreytinga muni verða á mismunandi svæðum heimsins, eða um það hversu hagkvæmt sé að grípa til varnaraðgerða, samanborið við kostnaðinn við að takast á við afleiðingarnar. Grunnurinn að þessu er sem sagt sáraeinfaldur og nánast óumdeilanlegur, en úrvinnslan er flókin. Hin raunverulegu áhrif á hverjum stað ráðast nefnilega af afar flóknu samspili fjölmargra þátta, samspili sem enginn þekkir til hlítar. Þar við bætast síðan hagfræðilegar vangaveltur, þar sem núvirðisreikningar og margt fleira kemur við sögu.

Vitneskjan um að loftslagsbreytingar gætu orðið af mannavöldum hefur verið til staðar í rúmlega 180 ár! Þetta er sem sagt enginn nýuppfundinn hræðsluáróður og umhverfisöfgar! Franski stærðfræðingurinn Jean Babtiste Fourier uppgötvaði gróðurhúsaáhrifin árið 1824, og árið 1896 lýsti sænski efnafræðingurinn Svante Arrhenius því fyrstur manna hvernig bruni jarðefnaeldsneytis gæti aukið á þessi áhrif og leitt þannig til hlýnunar loftslags á Jörðinni. Skv. reiknilíkani Svantes átti tvöföldun á styrk koltvísýrings í andrúmsloftinu að leiða til hækkunar hitastigs um 5,7°C. Þetta er ótrúlega nálægt þeim tölum sem koma út úr tölvulíkönum nútímans.

Er ekki kominn tími til að hætta í afneituninni, hætta einskis nýtri rökræðu um löngu kunn áhrif mannsins á loftslagið og snúa sér frekar að því sem máli skiptir, þ.e.a.s. að ræða hvort, hvernig og hvenær sé best að bregðast við vandanum!?


Í 19. sæti

Þessi færsla er skrifuð í miklum flýti! Ég tók nefnilega eftir því að ég er inni á „Topp-20“ listanum yfir bestu maraþonhlaupara ársins, nánar tiltekið í 19. sæti. Hætt er við að þessi gríðarlega frægð muni ekki vara lengi, og því fannst mér brýnt að geta um þetta hér og . Reyndar er ég í 22. sæti ef konurnar eru taldar með. Tvær þeirra náðu aldeilis frábærum árangri í Lundúnamaraþoninu á dögunum, sérstaklega Sigurbjörg Eðvarðsdóttir, sem varð í 2. sæti í flokki fimmtugra og eldri á 3:12:03 klst. Ég efast um að fólk geri sér grein fyrir hvílíkt afrek þetta er. Lundúnamaraþonið er sko ekkert innanfélagsmót!

Í andránni er ég í 285. sæti á maraþonafrekaskrá Íslendinga frá upphafi og hef lækkað um eitt sæti á síðustu dögum. Það er sem sagt ekki alveg hægt að segja að maður sé í fremstu röð. Því er best að grípa til þeirrar ágætu lífsreglu, að það sé ekkert aðalatriði að vinna, heldur bara að vera með. Reyndar hvet ég alla til að lesa þessa skrá, því að hún er sérdeilis fróðleg og skemmtileg fyrir þá sem hafa gaman af fólki og tölum. Svo er hægt að raða henni að vild með því að smella á fyrirsagnir dálka.  Stefán Thordarson hefur unnið sérlega gott starf við að halda þessu öllu saman saman! Samtals hefur hvorki meira né minna en 1.051 Íslendingur lagt heilt maraþonhlaup að baki. Reyndar kunna þeir að vera aðeins fleiri, því ekki er víst að allar upplýsingar um afrek Íslendinga erlendis hafi ratað inn á skrána. Og sífellt fjölgar á listanum!

Í lokin þarf ég nauðsynlega að koma því að, að hinn hlaupahópurinn í Borgarnesi, Ingimundur Grétarsson, er í 286. sæti á maraþonafrekaskránni, 5 sek. á eftir mér. Þetta er verulegur munur, líklega einir 17 metrar af þessum 42.195! Getur hann brúað þetta bil? Spurning um að setja upp veðbanka?


Maraþon er skemmtilegt!

Í dag áskotnuðust mér nokkrar myndir úr Rómarmaraþoninu um daginn, þ.á.m. þessi hér, sem var tekin á síðasta kílómetranum, rétt hjá Colosseum:

f00005510_3412536web

Hélduð þið að þetta hefði verið eitthvað leiðinlegt?

Enn vantar mig eina góða mynd af upphafi hlaupsins. Skelli henni kannski hérna inn ef mér tekst að ná í hana. Wink


Hærra skilagjald á bíla?

Skattlagning ökutækja og eldsneytis er til umræðu í Morgunblaðinu í dag, enda málið ofarlega á baugi í framhaldi af mótmælum atvinnubílstjóra og jeppaeigenda gegn háu eldsneytisverði. Eins og fram kemur í Mogganum - (og ég hef líka minnst á á blogginu, sbr. bloggfærslu 28. mars sl.) - þá er þess að vænta að starfshópur á vegum fjármálaráðuneytisins skili tillögum sínum um breytta skattlagningu ökutækja og eldsneytis á allra næstu dögum. Starfshópur þessi var settur á laggirnar í framhaldi af vinnu „Vettvangs um vistvænt eldsneyti“, sem tók til starfa í ársbyrjun 2004.

Tillögur „Vettvangs um vistvænt eldsneyti“ voru kynntar snemma árs 2007. Þar var m.a. lagt til að gjöld fyrir þjónustu við umferðina (veggjöld) yrðu skilgreind sérstaklega, en að öll önnur gjöld, bæði af stofnkostnaði ökutækja (vörugjöld) og af árlegri notkun og eldsneytisnotkun (þ.m.t. bensín- og olíugjöld), yrðu tengd losun á koltvísýringi. Þannig mætti draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og hvetja til notkunar á vistvænu eldsneyti. Hér verða vörugjöldin gerð að umræðuefni, en ekki fjallað sérstaklega um hina gjaldflokkana.

Hugmyndir „Vettvangs um vistvænt eldsneyti“ um innheimtu vörugjalda af bifreiðum gengu út á að gjöldin myndu ráðast af skráðri losun koltvísýrings á hvern ekinn kílómetra, t.d. þannig að bifreið sem losar 1 kg á hvern km myndi bera 180% vörugjald ofan á tollverð. Bifreið sem losar 100 g á hvern km myndi þá bera 18% vörugjald, en bifreið sem losar 0 kg (t.d. rafmagnsbíll) væri undanþegin vörugjaldi. (Langflestir bílar losa á bilinu 100-400 g/km). Samkvæmt núverandi vörugjaldakerfi bera flestir fólksbílar 30% vörugjald en flestir jeppar 45%, (þó með tilteknum undanþágum).

Breyting í þá veru sem lýst er hér að framan myndi fela í sér verulega verðlækkun á vistvænstu bílunum, en nokkra verðhækkun á þeim sem eru frekastir á bensínið eða olíuna. Um leið myndi þetta væntanlega hafa áhrif á verð á notuðum bílum. Hægt er að hanna kerfið að vild í upphafi, þ.e. að ákveða heppilegasta samhengið milli CO2-losunar og álagningarprósentu. Fyrrnefnd 180% og 1 kg/km eru bara eitt dæmi um slíkt. Alla vega er ljóst að breyting í þessa veru gæti haft veruleg áhrif á val fólks á bifreiðum!

Bílgreinasambandið (BGS) með Egil Jóhannsson í broddi fylkingar hefur lagt til að vörugjöld af öllum bifreiðum verði lækkuð í 15%, en neyslustýringin fari fram með þeim mun meiri skattlagningu á eldsneyti. Rökin fyrir þessari tillögu eru m.a. þau að bílar mengi ekki fyrr en þeir eru notaðir og þess vegna eigi að skattleggja notkunina en ekki bílinn sjálfan. Einnig hefur verið bent á að með þessu móti megi flýta fyrir endurnýjun bílaflotans, sem í sjálfu sér er til þess fallin að draga úr losun, því að vafalaust hugsa kaupendur sinn gang vandlega þegar búið er að hækka skatta á jarðefnaeldsneyti umfram það sem nú er.

Ég var ekki sérlega hrifinn af tillögu BGS í upphafi, og hef miklu heldur aðhyllst þá leið sem „Vettvangurinn“ lagði til. Allar hugmyndir ber þó að skoða með opnum huga og reyna að sjá fyrir áhrif þeirra hverrar um sig á neysluhegðun bílkaupenda og bíleigenda. Mér finnst ábending BGS um hraðari endurnýjun bílaflotans mikilvæg, því að hluti vandans liggur jú í varanleikanum. Það er með öðrum orðum brýnt að losna sem fyrst við sem flesta eyðsluháka úr umferðinni og fá vistvænni bíla í þeirra stað. Önnur leið til að flýta fyrir endurnýjun er að hækka skilagjald á bílum verulega. Gjaldið er núna 15.000 krónur - og er tekna aflað með álagi á bifreiðagjöld. Norsk umhverfisverndarsamtök hafa lagt til að þarlendis verði gjaldið hækkað úr 1.500 í 5.000 norskar krónur (um 73.000 ísl. kr.). Þannig mætti flýta mjög fyrir úreldingu elstu og oft um leið eyðslufrekustu bílanna. Ég hef ekki orðið var við að hækkun skilagjalda hafi verið í umræðunni hér, og þess vegna datt mér í hug að nefna þetta.

Vonandi skilar starfshópur fjármálaráðuneytisins tillögum sínum um breytta skattlagningu ökutækja og eldsneytis sem allra fyrst. Okkur bráðliggur á að breyta skattlagningunni og hefja þar með markvissa vegferð í átt að minnkandi notkun jarðefnaeldsneytis og minnkandi losun koltvísýrings frá bílaflota landsmanna!


Næsta síða »

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband