Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Koltvísýringslosun og "miljöbílar"

Munurinn á umhverfisvænleika (eða umhverfisómöguleika) venjulegra bensínbíla, venjulegra díselbíla og tvinnbíla hefur verið dálítið til umræðu síðustu daga, m.a. í athugasemdadálki á blogginu mínu, en líka annars staðar í tengslum við verðmun á bensíni og díselolíu. Margir virðast t.d. þeirrar skoðunar að díselolían eigi að vera ódýrari en bensínið, af því að hún sé loftslagsvænni. Þannig er það reyndar ekki, því að fyrir hvern dísellítra sem brennt er myndast um 2,7 kg af koltvísýringi, en aðeins 2,3 kg fyrir hvern bensínlítra.* Samkvæmt þessu er díselolían 17% meiri loftslagsskaðvaldur en bensínið og ætti því að vera 17% dýrari ef verðlagningin réðist alfarið af þessu. Hitt er svo annað að díselolían er orkuríkari en bensín, og díselvélar komast af með færri lítra en bensínvélar. Þannig er gjarnan miðað við að díselbíll eyði 30% minna eldsneyti en sambærilegur bensínbíll í sams konar akstri. E.t.v. er það örlítið ofáætlað, en ég ætla samt að styðjast við þessa tölu hér að neðan.

Til að bíll sé skilgreindur sem visthæfur, er yfirleitt miðað við að koltvísýringslosun (frá jarðefnaeldsneyti) sé að hámarki 120 g/km. Þetta þýðir að bensínbíll má ekki eyða meiru en 5,2 l/100km og díselbíll 4,4 l/100km, sé miðað við losunarstuðlana hér að framan. Á heimasíðu Bílgreinasambandsins er að finna lista yfir þá bíla á markaði hérlendis sem uppfylla þessi skilyrði - og geta þá m.a. lagt ókeypis í stæði í Reykjavík. Þar er reyndar miðað við eyðslutölurnar 5,0 l/100km fyrir bensínbíla og 4,5 l/100 km fyrir díselbíla, enda losunarstuðlarnir líka örlítið mismunandi (sjá neðst í þessari færslu). Sömu viðmið eru notuð fyrir skilgreiningu á "miljöbílum" í Svíþjóð. Reyndar koma fleiri atriði við sögu í þessum skilgreiningum, en þetta eru aðalatriðin.

Séu yfirburðir díselbílanna skoðaðir nánar, og miðað við framangreinda losunarstuðla og 30% eldsneytissparnað í díselbílunum, kemur í ljós að ef bensínbíll eyðir 5,0 l/100km, þá ætti sambærilegur díselbíll að eyða 5,0x70% = 3,5 l/100km. Þess vegna þolir díselbíleigandinn vel þann 17% verðmun sem hugsanlega væri á þessum tveimur gerðum eldsneytis. Þessi díselbíll myndi ekki losa nema 94,5 g/km, þ.e. um 21% minna en bensínbíllinn.

Það hvort bíll sé með hefðbundinn vélbúnað eða tvinntækni undir húddinu skiptir í raun engu máli í þessu samhengi. Það er ekki rétt að tvinnbílarnir séu umtalsvert orkufrekari í framleiðslu en aðrir bílar, og þar að auki ráðast 80-90% af heildarorkunotkuninni á öllum líftíma bílsins af notkun bílsins. Þáttur framleiðslunnar er hlutfallslega mjög lítill og þáttur flutninga hverfandi.

Hvarfakútar og síubúnaður skipta nánast engu máli hvað losun koltvísýrings varðar. Koltvísýringurinn kemst sína leið hvað sem þessum búnaði líður - og ef eitthvað er eykst losunin með bættum búnaði, þar sem eyðslan kann að aukast óverulega. Auk þess myndast reyndar örlítill koltvísýringur til viðbótar í hvarfakútum við oxun á kolmónoxíði, metani og óbrunnum kolvetnum. Örlítið minni losun annarra gróðurhúsalofttegunda kemur eitthvað á móti, en ég treysti mér ekki til að fara út í smáatriði í því sambandi. Alla vega skipta þessir þættir afar litlu máli í loftslagsdæminu. Hins vegar skipta þeir miklu máli hvað staðbundna loftmengun varðar. Hvarfakútar og síur draga jú mjög úr losun ýmissra heilsuspillandi efna í útblæstrinum.

* Rétt er að taka fram að tölurnar hér að framan um koltvísýringslosun frá brennslu mismunandi eldsneytis eru einhvers konar meðaltalstölur. Það er sem sagt svolítið misjafnt hvaða tölur eru notaðar í útreikningum. Ég hef lengst af stuðst við 2,3 fyrir bensín og 2,7 fyrir dísel og held mig við það. Skekkjan ætti í hvorugu tilviki að vera meiri en 0,1.


Sorg og salami

Marina SilvaSuma daga gerist ég dálítið leiður og svartsýnn. Þannig er það til dæmis í dag. Ástæðan að þessu sinni virðist fjarlæg, því að hún er sú ein að Marina Silva, umhverfisráðherra Brasilíu, sagði af sér í gær, enda hafði hún fengið lítinn hljómgrunn í ríkisstjórninni upp á síðkastið fyrir hugðarefni sín. Hún beitti sér nefnilega gegn því að sífellt væru höggvin stærri og stærri skörð í frumskóga Amazonsvæðisins, til þess að rýma fyrir athöfnum stórfyrirtækja sem vilja „framfarir og hagnað“, eins og þau skilgreina þessi hugtök. Marina vildi sem sagt ekki að skógurinn væri látinn víkja fyrir stíflugerð, vegagerð og verksmiðjubúskap. Hún tók líka málstað heimafólks á Amazonsvæðinu og vakti athygli á alþjóðlegum vettvangi fyrir málflutning sinn, eldmóð og jafnvel klæðaburð í stíl frumbyggja.

Það sem er að gerast á Amazonsvæðinu er gott dæmi um svokallað Salamiviðhorf. Frumskógurinn í Amazon er nefnilega rosalega stór. Árlega eru sneiddir af honum nokkrir litlir bitar, rétt eins og þunnar sneiðar af salamipylsu. Sneiðin sem var skorin síðustu 5 mánuði síðasta árs var t.d. 7.000 ferkílómetrar, sem er líklega álíka stórt svæði og fjögur Snæfellsnes. Þetta finnst mörgum bara allt í lagi, því að nóg er til. Þetta er Salamiviðhorfið. En það þarf svo sem engan sérfræðing til að skilja að jafnvel stór salamipylsa er ekkert annað en nokkrar þunnar sneiðar - og þegar nokkrir eru búnir að fá sér þunna sneið nokkrum sinnum, er ekkert eftir.

En hvað er svona merkilegt við Amazon? Mér dettur ekki í hug að reyna að svara því með fullnægjandi hætti. Langar bara að nefna þrjú atriði:

  1. Þar eru 20% af ferskvatnsbirgðum jarðar.
  2. Þar er að finna 15% af öllum plöntu- og dýrategundum jarðar.
  3. Fjölbreytni og frjósemi svæðisins felst í lífinu ofan jarðar. Þegar því hefur verið eytt, stendur eftir ófrjór jarðvegur, sem að öllum líkindum verður orðinn að eyðimörk eftir nokkurra ára landbúnaðarnot.

Að lokum legg ég til að allir lesi „Orð dagsins“ á heimasíðu Staðardagskrár 21 á Íslandi hvern einasta dag, enda Staðardagskrá 21 svo sem upprunnin í Brasilíu ef grannt er skoðað.

PS: Við þurfum svo sem ekkert að fara til Brasilíu til að kynnast Salamiviðhorfinu
Salami er víða!


Eru til umhverfisvænir bílar?

Svarið við spurningunni er því miður nei. En hins vegar eru bílar auðvitað misumhverfisvænir. Lexus limósína með tvinnvél er t.d miklu umhverfisvænni en Lexus limósína með ekki-tvinnvél. Boðskapur sögunnar er sem sagt þessi:

  1. Bíllinn sem Lexus gaf Páli er ekki umhverfisvænn, þó að hann sé umhverfisvænni en aðrir bílar í sama flokki.
  2. Umhverfisvænleikinn lækkaði enn við það að bíllinn skyldi fluttur með flugi.
  3. Hræsnin er víða.

Þeir sem vilja lesa meira um umhverfisvænleika fínna Lexusbíla geta kíkt á blogg sem ég skrifaði á gömlu bloggsíðuna mína 6. júlí 2007.


mbl.is Umhverfisvænn bíll fluttur með þotu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að breyta bæjarnöfnum

Hafið þið velt fyrir ykkur þeim krafti sem felst í prentvillum og öðrum rangfærslum? Kannski sleppur eitthvert orð eða einhver fullyrðing fram hjá vökulum augum prófarkalesara, og fyrr en varir eru aðrir farnir að vísa í vitleysuna í ræðu og riti sem góða og gilda heimild, með þeim afleiðingum að orðið eða fullyrðingin berst út eins og farsótt, en hið upphaflegra og réttara verður undir og gleymist. Bæjarnöfn og önnur örnefni geta sem best hlotið þessi örlög ef aðgát er ekki höfð.

Í Bitrufirði á Ströndum er líklega að finna fleiri einkennileg bæjarnöfn en í nokkurri annarri sveit. Nægir þar að nefna Þambárvelli, Snartartungu, Einfætingsgil, Hvítarhlíð, Bræðrabrekku og Skriðinsenni. Bæjarnöfnin bera í sér sögur, sem gera tilveruna örlítið ríkari en hún annars væri, jafnvel þó að sögurnar séu teknar að fyrnast. Þess vegna felast menningarleg verðmæti í bæjarnöfnunum.

Afi minn og amma bjuggu í Hvítarhlíð síðustu æviárin. Þar hófu líka pabbi og mamma búskap sinn, og þar fæddust systkini mín. Í túninu í Hvítarhlíð er aflöng þúfa, sem heitir Hvítarleiði. Ekki veit ég hver hún var þessi Hvít - og held að ekki séu til skriflegar sagnir af henni. Heyrði sagt þegar ég var lítill (minni) að hún hefði verið tröllkona. Alla vega er leiðið hennar stórt og bærinn við hana kenndur. Leiðið er tvískipt og er lægð á milli höfuðsins og búksins. Hallgrímur bróðir minn hefur sagt frá því, að þegar hann átti heima í Hvítarhlíð hefðu þau krakkarnir mátt leika sér á leiðinu ef þau pössuðu að hafa ekki hátt. Honum þótti gaman að sitja í lægðinni eða á hálsinum, en hefur reyndar líka stungið upp á því að lægðin hafi kannski ekki verið milli búks og höfuðs, heldur á milli Hvítar sjálfrar og peningakistilsins sem þar átti að vera til fóta. En hvers vegna máttu þau ekki hafa hátt? Jú, Hvítarleiði er nefnilega álagablettur. Leiðinu þurfti að sýna tilhlýðilega virðingu og það mátti aldrei slá, því að þá gat illa farið.

Fyrir rúmum tveimur árum tók hreppsnefnd Broddaneshrepps sig til og endurnýjaði skilti við heimreiðir í sveitinni. Þá var gamla skiltinu við heimreiðina að Hvítarhlíð hrundið um koll og sett upp annað sem á stendur Hvítahlíð. Sjálfsagt hefur einhverjum þótt það betra eða rökréttara heiti, en um leið lagt sitt af mörkum, með ókunnugleika og skammsýni, til að afmá söguna sem fylgir bæjarnafninu. Víst er hlíðin oft hvít á vetrum, en hvaða hlíð er það ekki í þessum landshluta.

Hvað á maður svo að gera í málinu? Á að leyfa sögunni um Hvít að týnast með skiltinu, eða á að láta leiðrétta mistökin og setja upp nýtt skilti þar sem Hvítar er getið á ný? Hver á þá að hafa frumkvæði að því? Hvar liggur sönnunarbyrðin? Kannski er líka nafnið Hvítahlíð komið inn í öll opinber gögn, t.d. í þjóðskrána, fasteignamatið og kort Vegagerðarinnar - og þar með orðið næstum því opinbert og rétt. Er einhver leið til baka?

Myndirnar hér að neðan, sem ég tók í Bitrunni í dag, segja sína sögu um það hvernig hið gamla hverfur undurfljótt í sinuflóka gleymskunnar - og um leið um það hvernig við rækjum skyldur okkar gagnvart þeim kynslóðum sem á eftir koma. Við eigum nefnilega ekki bara að skila þeim náttúrulegum auðlindum í nothæfu standi, heldur líka menningarlegum auðlindum.

Hvítarhlíð 001web 
 
Hvítarhlíð 009web 
 
Hvítarhlíð 006web 

Bendi að lokum á áhugaverða umræðu á Strandir.is um þetta sama mál. Þar kemur líka bæjarnafnið Skriðinsenni við sögu af sömu ástæðu. Þar datt sem sagt einhverjum (les: Þáverandi hreppsnefnd) í hug að skella upp skilti sem stendur á Skriðnesenni.


Andakílshringurinn í 16. sinn - og þögnin rofin

Í kvöld hljóp ég Andakílshringinn. Hef ekki hlaupið sérlega mikið síðustu vikur, er svona rétt að reyna að viðhalda þolinu. Annars var þetta í 16. sinn sem ég hleyp Andakílshringinn frá því að ég uppgötvaði þessa ágætu 14,22 km löngu hlaupaleið í apríl 2005. Tíminn í kvöld var 1:12:11 klst., sem er 8. besti tíminn af þessum sextán, svona í meðallagi sem sagt. Besti tíminn er 1:07:56 frá 27. ágúst 2005 og sá lakasti 1:20:46 frá 10. nóvember 2007. Ég geri fastlega ráð fyrir að þjóðin hafi beðið í ofvæni eftir þessum tölum! Wink

Ég hef ekki heldur bloggað sérlega mikið síðustu vikur. Ástæðan er þó hvorki ritstífla, varanlegt bloggþunglyndi, of bjartar nætur, rauðvínsleysi né skortur á umræðuefnum. Þvert á móti ríkir frekar mikið bloggléttlyndi, ég sef hvort sem er á næturnar, drekk aldrei rauðvín - og umræðuefnin bíða í löngum röðum. Þar má nefna brýn mál á borð við:

  • Frákastsáhrif
  • Eymsli í hnjám 
  • Skilagjald á bíla
  • Samdrátt og samleitni
  • Sorpkvarnir í eldhúsvaska
  • Minnimáttarkennd 19. aldar
  • Umhverfisáhrif gæludýrahalds
  • Umhverfisáhrif nanótækninnar
  • Vistferilsgreiningu á bílaeldsneyti
  • Einnota drykkjarmál og margnota
  • Íslensku krónuna og sjálfbæra þróun
  • Plast til yfirbreiðslu í matjurtagörðum
  • Og síðast en ekki síst kosningabaráttuna í Noregi 2009 

Sum þessara brýnu mála hafa meira að segja beðið síðan 1. desember sl.! Kannski skrifa ég einhvern tímann um einhver þeirra. Þangað til er það dokið sem gildir.


« Fyrri síða

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband