Leita í fréttum mbl.is

Enn um sjálfbærni hvalveiða

Í framhaldi af athugasemd sem ég fékk við síðustu færslu um „sjálfbærar hvalveiðar“, datt mér í hug að setja hérna inn nokkra punkta um það hvernig og hvers vegna hugtökin „sjálfbær þróun“ og „sjálfbærni“ urðu til. Mér finnst þörf á að rifja þetta upp, vegna þess að mér finnast þessi hugtök iðulega misnotuð á þann hátt að tengja þau aðeins við einn af þeim þremur grunnþáttum sem þau byggjast á.

Hin almenna skilgreining á hugtakinu „sjálfbær þróun“ var sett fram í skýrslu Brundtlandnefndarinnar („Our Common Future“) 1987. Samkvæmt henni er sjálfbær þróun „þróun sem gerir okkur kleift að mæta þörfum okkar, án þess að skerða möguleika komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum“. Reyndar hefur þetta verið þýtt á örlítið mismunandi vegu yfir á íslensku, en þessi þýðing nær alla vega megininntakinu. Þessi skilgreining var lögð til grundvallar á Heimsráðstefnunni í Ríó 1992. Nýjungin í niðurstöðum Brundtlandnefndarinnar og Ríóráðstefnunnar fólst í því, að þegar rætt var um leiðina inn í framtíðina var ekki aðeins einblínt á umhverfisþáttinn eins og gert hafði verið framundir þann tíma, heldur voru menn sammála um að sjálfbær þróun væri eina leiðin inn í þessa framtíð, og að sjálfbær þróun yrði að byggjast á samþættingu þriggja grunnþátta, nefnilega vistfræðilegra, efnahagslegra og félagslegra þátta.

Hugtökin „sjálfbær þróun“ og „sjálfbærni“ þróuðust á 8. og 9. áratug 20. aldar. Forsöguna má rekja til Stokkhólmsráðstefnunnar 1972, þar sem mönnum varð ljóst að iðnríkin og þróunarlöndin gætu aldrei náð samstöðu um leiðina inn í framtíðina með því að horfa eingöngu á umhverfismál. Það sjónarmið var áberandi um þetta leyti meðal leiðtoga þróunarlandanna, að umhverfismál væru „lúxusvandamál“ ríkra þjóða. Indira Gandhi, forsætisráðherra Indlands, var reyndar eini þjóðhöfðinginn frá þróunarlöndunum sem sá ástæðu til að mæta á Stokkhólmsráðstefnuna. Þar sagði hún meðal annars eftirfarandi, sem varð mörgum minnisstætt: “Poverty is the worst pollution”, eða „Fátækt er versta mengunin“.

Eftir Stokkhólmsráðstefnuna var sem sagt ljóst að til að ná samstöðu um aðgerðir á heimsvísu til að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir, yrði að flétta saman vistfræðilegar, efnahagslegar og félagslegar áherslur. Í framhaldi af þessu þróaðist hugtakið „sjálfbærni“, en það var fyrst notað af Alkirkjuráðinu 1974. Þar var reyndar félagslega áherslan í aðalhlutverki. Alþjóðanáttúruverndarsamtökin IUCN kynntu síðan hugtakið „sjálfbær þróun“ árið 1980. Þar var talað um að auka lífsgæði fólks samhliða því sem fjölbreytileika og heilbrigði náttúrunnar væri viðhaldið. Þarna var félagslegi þátturinn ekki mjög fyrirferðarmikill og ekkert rætt um nauðsynlegar breytingar í stjórnmálum og hagkerfum. Sem fyrr segir, var það svo Brundtlandnefndin sem setti fram þá skilgreiningu sem almennt er notuð í dag.

Það er að mínu mati út í hött og algjörlega á skjön við þá hugsun sem hugtökin „sjálfbær þróun“ og „sjálfbærni“ byggjast á, að nota þessi hugtök þegar aðeins er rætt um einn þeirra þriggja grunnþátta sem þar koma við sögu. Þess vegna eru hvorki hvalveiðar né neinar aðrar athafnir manna sjálfbærar, nema menn séu þokkalega sammála um að svo sé bæði í vistfræðilegu, efnahagslegu og félagslegu tilliti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur

Á þessu, og það sem ég las á wiki um sjálfbæra þróun, skil ég helst að þarna hafi verið fátækum löndum gert kleift að kalla þróun sína sjálfbærari en þróun sem væri aðeins sjálfbær á umhverfislegum forsendum.

Þannig gætu þær gengið á auðlindir sínar ef það gerði þjóðina efnahagslega og félagslega sjálfbæra.

Þú getur svo sem snúið þessu við og notað á okkur og sagt að sjálfbærar hvalveiðar hafi neikvæð áhrif á sjálfbæra þróun þjóðarinnar.

En þegar maður talar um sjálfbærar veiðar að þá er maður ekki að tala um sjálfbæra þróun þjóðar heldur bara veiðarnar sjálfar.

Annars er heldur ekkert sem bendir til þess að veiðarnar hafi slæm áhrif á ferðamannaiðnaðinn. 

Ingólfur, 23.5.2008 kl. 15:05

2 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Ég hef skoðaða mikið þennan málaflokk um sjálfbæra þróun og umhverfismál þar mín BA ritgerð fjallaði um þetta efni.  Í þeirri könnun sem ég gerði sá ég að fólk hefur ekki mikla þekkingu á sjálfbærni og notar þessar þrjár stoðir eins og þeim hentar og slítur stoðirnar í sundur.  Til að hægt sé að tala um sjálfbæra þróun þurfa allar þessar þrjár stoðir að vinna saman. 

Þórður Ingi Bjarnason, 25.5.2008 kl. 11:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband