Leita í fréttum mbl.is

Erfðabreytt á diskinn minn? Er það í lagi?

Í dag sat ég, ásamt svo sem 100 öðrum, áhugaverðan fyrirlestur Jeffreys Smith um heilsufarsáhrif erfðabreyttra matvæla. Jeffrey þessi er einn kunnasti fyrirlesari heims um áhrif erfðatækninnar á umhverfi og heilsufar, auk þess að hafa skrifað tvær afar vinsælar bækur um þessi mál. Sú fyrri, Seeds of Deception, mun vera söluhæsta bók fyrr og síðar um erfðabreytt matvæli. Þannig er Jeffrey vafalaust í hópi þeirra sem hafa haft mest áhrif á opinbera umræðu um notkun erfðatækni. Hann er hins vegar ekki vísindamaður, heldur fyrst og fremst blaðamaður, sem hefur sett sig gríðarlega vel inn í mál, sem eru hreint ekki auðveld í meðförum fyrir leikmenn.

Í fyrirlestri Jeffreys kom m.a. fram að á markaði væru afurðir úr fjórum tegundum plantna sem breytt hefði verið með genatækni, þ.e.a.s. soja, maís, bómull og canóla (kanadísk repja). Oftast væru gen flutt úr bakteríum í plönturnar. Í Bandaríkjunum er um 91% af öllu soja erfðabreytt, um 73% af maísnum og um 87 af bómullinni. Tilgangurinn með erfðabreytingunum er sem hér segir:

  • Að auka þol plantnanna gegn illgresiseyðum 73%
  • Að láta plönturnar framleiða eigin varnarefni 18%
  • Hvort tveggja                                          8%
  • Annar tilgangur                               Óverulegt

Með þessu móti var ætlunin að auka útflutning matvöru frá Bandaríkjunum, styrkja stöðu Bandaríkjanna á alþjóðlegum matvælamarkaði, auka uppskeru og bæta afkomu bænda. Ekkert af þessu hefur gengið eftir.

Megininntakið í fyrirlestri Jeffreys var að fimm atriði gætu farið úrskeiðis við flutning gena úr einni lífveru til annarrar, og að þrátt fyrir takmarkaðar rannsóknir hefði verið sýnt fram á að allt þetta hefði farið úrskeiðis í tilteknum tilvikum. Þessi 5 atriði eru:

  1. Óvæntar stökkbreytingar geta orðið í erfðaefninu sem nýja genið er flutt í. Slíkar stökkbreytingar verða í 2-4% tilvika.
  2. Próteinið sem innflutta genið framleiðir í nýja erfðaefninu getur verið skaðlegt.
  3. Próteinið sem innflutta genið framleiðir í nýja erfðaefninu getur verið annað en það sem ætlast var til. Þetta getur m.a. stafað af því að genið sé túlkað öðruvísi en í upphaflega erfðaefninu.
  4. Erfðabreytt matvæli geta hugsanlega innihaldið meiri leifar af illgresiseyði, vegna þess að hægt er auka notkunina eftir að sjálf nytjaplantan er orðin ónæm fyrir eitrinu.
  5. Genaflutningur getur átt sér stað úr hinni erfðabreyttu fæðu yfir í þarmabakteríur, sem geta þá hugsanlega farið að framleiða eigin varnarefni.

Margt fleira væri hægt að tína til úr fyrirlestrinum. Þar kom m.a. fram að 53% Bandaríkjamanna myndu ekki leggja sér erfðabreytt matvæli til munns ef þau væru merkt sem slík. Þar í landi eru hins vegar ekki viðhafðar neinar slíkar merkingar, ekki frekar en á Íslandi.

Jeffrey kvað góðu fréttirnar vera þær, að neytendur hefðu síðasta orðið. Það eina sem þyrfti til, væri að neytendur fengju upplýsingar og hefðu val um það hvort þeir innbyrtu erfðabreytta fæðu eður ei. Í Bretlandi urðu þáttaskil hvað þetta varðar 1999 eftir að Dr. Arpad Pusztai var rekinn fyrir að segja frá rannsóknaniðurstöðum sem sýndu mikil skaðleg áhrif erfðabreyttra kartaflna á tilraunarottur. Eftir það snerust neytendur í vaxandi mæli gegn erfðabreyttum matvælum. Jeffrey spáir því að svipuð þáttaskil verði í Bandaríkjunum fyrir árslok 2009.

Það er auðvelt að afgreiða allt það sem Jeffrey Smith hefur að segja, með því að hann sé ekki erfðafræðingur og skorti því vísindalegan bakgrunn. En allar þær áhættur sem hann bendir á eiga sér stoð í rannsóknum. Í þessu sambandi er líka vert að rifja upp varúðarregluna, sem leiðtogar þjóða heims komu sér saman um árið 1992 með samþykkt Ríóyfirlýsingarinnar um umhverfi og þróun. Samkvæmt henni hvílir sönnunarbyrðin á þeim sem vill taka áhættuna, en ekki þeim sem vill forðast hana. Í erfðatækninni hvílir sönnunarbyrðin því á framleiðendum. Það er sem sagt hlutverk framleiðendanna að sýna fram á að vörurnar séu skaðlausar. Efasemdarmennirnir þurfa ekki að sýna fram á að þær séu skaðlegar. Samt er enn skákað í því skjólinu, að skaðsemin hafi ekki verið sönnuð!!!

Málið er einfalt: Fram hafa komið fjölmargar vísbendingar um skaðsemi erfðabreyttra matvæla. Skaðleysi þeirra hefur aldrei verið sannað. Þess vegna ætti ekki undir nokkrum kringumstæðum að leyfa markaðssetningu og sölu slíkra matvæla, ekki frekar en óprófaðra lyfja. Það er í raun alveg gjörsamlega galið að setja á markað nýja gerð matvæla, án þess að fyrir liggi niðurstöður einnar einustu klínískrar rannsóknar á hugsanlegum heilsufarsáhrifum. Hvað eru menn eiginlega að pæla? Og hvað eru íslensk stjórnvöld eiginlega að pæla með því að fylgja ekki fordæmi nágrannalandanna varðandi reglur um merkingu matvæla???????????????????????????????

Það væri auðveldlega hægt að skrifa margfalt meira um þessi mál. Til dæmis væri fróðlegt að rekja niðurstöður þeirra dýratilrauna sem gerðar hafa verið á skaðsemi erfðabreytts fóðurs. Eins mætti minnast á afföll af húsdýrum sem beitt hefur verið á erfðabreytta akra. Loks hefði verið fróðlegt að rekja hvernig verslun með erfðabreytt fræ hefur skapað fyrirtækjarisum á borð við Monstanto einokunaraðstöðu, en leitt fátæka bændur út í enn meiri fátækt og í nokkrum tilvikum dauða. En einhvers staðar verður maður að setja punktinn. Það er jú alltaf hægt að taka upp þráðinn síðar. Þangað til langar mig að benda á dálitla samantekt sem ég skrifaði á bloggsíðuna mína 2. mars 2007 eftir fyrirlestur hjá Dr. Terje Traavik, prófessor í genavistfræði við háskólann í Tromsø.

Mér finnst við hæfi að enda þennan slitrótta pistil á eftirminnilegum orðum Roberts Mann, lífefnafræðings við háskólann í Auckland: "Biology is much more complex than technology". Bendi annars á http://www.responsibletechnology.org.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Gíslason

Mjög líklega er flest af því sem við borðum erfðabreytt, þ.e.a.s. sá hluti fæðunnar sem er innfluttur frá Bandaríkjunum, já og kannski aðeins meira en það. Hins vegar eru stóru ávextirnir ekki erfðabreyttir. Það er gríðarlegur munur á kynbótum annars vegar og genatækni hins vegar! Við kynbætur er aðeins notað erfðaefni úr sömu tegund, hvað sem um kynbótaaðferðirnar má segja. Genatæknin (erfðabreytingar) gera það hins vegar mögulegt að flytja erfðaefni milli alls óskyldra tegunda. Reyndar hafa menn líka fiktað í erfðaefni einstakra tegunda með því að framkalla stökkbreytingar með geislun. Ég ætla ekki að mæla slíku bót, en flutningur erfðaefnis milli tegunda er samt "hrein viðbót" við þetta fikt, ef svo má að orði komast.

Stefán Gíslason, 27.5.2008 kl. 23:51

2 Smámynd: Loopman

Þetta er eitt mesta rugl sem ég hef lesið. Ef þetta væri satt þá væri þetta skelfilegt, en þessi rök og þessi atriði sem þú telur upp eftir þessum blaðamanni eru bara bull.

"Genaflutningur getur átt sér stað úr hinni erfðabreyttu fæðu yfir í þarmabakteríur, sem geta þá hugsanlega farið að framleiða eigin varnarefni"....

Þetta er bara kjaftæði og GETUR EKKI GERST. Prufaðu að kynna þér vísindi frá vísindamönnum en ekki blaðamönnum.

Umræðan erfðabreytt matvæli snýst ekki um staðreyndir og vísindi. Heldur er þetta byggt á bulli og psuedo sceince kjaftæði og á endanum á trú. Það er sama prinsipp bakvið þessa umræðu eins og þá að guð hafi skapað heimin á 7 dögum. Menn hafna staðreyndum eins og þróunarkenningunni rétt eins og staðreyndum í þessum málum. TRÚA rugli sem vellur uppúr wannabe vísindamönnum.

Þegar málið snýst um staðhæfinguna: "Ég trúi að erfðabreytt matvæli séu hættuleg" er það ekki lengur svaravert. Ekki frekar en að að reyna rökræða staðhæfinguna: "Ég trú að guð hafi skapað heiminn á 7 dögum fyrir sirka 5000 árum."

By the way.. menn framkvæma ekki stökk breytingar, þær gerast.

Loopman, 28.5.2008 kl. 16:01

3 Smámynd: Stefán Gíslason

Hmmm, eitthvað var ég nú búinn að heyra frá vísindamönnum áður en ég heyrði í þessum ágæta blaðamanni. Láréttur genaflutningur er t.d. ekki uppfinning blaðamanna eða trúarleiðtoga. Eflaust má greina trúarbrögð á bak eitthvað af því sem hörðustu andstæðingar genatækninnar segja, en það sama gildir auðvitað um hörðustu fylgismenn. Er ekki bara ráð að ræða málið frá ýmsum hliðum? Þeir sem eru búnir að éta nægju sína af skilningstré góðs og ills - og eru þar með búnir að læra að þekkja muninn á réttu og röngu í eitt skipti fyrir öll, geta þá bara sleppt því að vera með í þeirri umræðu.

Stefán Gíslason, 28.5.2008 kl. 20:00

4 Smámynd: Loopman

Láréttur genaflutningur. Ég skoðaði þetta hér hjá þér;

"„Láréttur genaflutningur“ (ferli þar sem erfðaefni flyst frá lífveru til frumu sem ekki er afkvæmi lífverunnar) hefur alltaf átt sér stað, og er af sumum talinn hafa haft meiri áhrif á þróun tegundanna en „lóðréttur genaflutningur“ (frá foreldri til afkvæmis). Hins vegar eru augljóslega einhverjar hindranir í veginum, því að annars væru allar lífverur á jörðinni komnar með nokkurn veginn sams konar genamengi. Hugsanlega eiga erfðabreytt gen greiðari leið í gegnum þessar hindranir. "

Þetta ferli sem þú ert að lýsa heitir KLÓNUN. Það á sér ekki stað í nátturunni. Sem segir mér aðeins eitt. Það sem þú ert að lesa og halda fram er BULL. Þetta er dæmi um psuedo science sem eru að skemma út frá sér með rugli, misvísunum og hreinum tilbúningi.

Loopman, 28.5.2008 kl. 21:07

5 Smámynd: Loopman

Dr. Patrick Moore, vistfræðingur og einn af stofnendum Greenpeace og fyrrum yfirmaður Greenpeace (Director of Greenpeace International) í sjö ár:
"Hræðsluáróðurinn sem nú er rekinn gegn plöntuerfðatækninni byggir fyrst og fremst á ímyndun og algeru virðingarleysi við vísindi og rökhyggju" 

Loopman, 28.5.2008 kl. 21:18

6 Smámynd: Stefán Gíslason

Það er einhver SMÁ-misskilningur í gangi hérna í athugasemdadálkinum.  Þeir sem þurfa að fræðast eitthvað um láréttan genaflutning (genaflakk) geta byrjað á að lesa það sem Wikipedia hefur um málið að segja. Nú, ef Wikipedia þykir ekki nógu traust heimild, þá er hægt að bæta við þekkinguna með því að lesa eitthvað af greinunum sem Wikipedia vísar í um þetta sama fyrirbæri, m.a. greinar í Science, sem mörgum þykir bara ágætis tímarit. Nú og ef það svalar ekki þekkingarþörfinni, þá er náttúrulega hægt að renna í gegnum þessar 193.000 síður sem Google þykist luma á um málið. Og til frekara öryggis er kannski hægt að spyrja einhvern líffræðing sem maður þekkir, hvort svona genaflakk sé ekki bara bull, psuedo (eða jafnvel pseudo) science, rugl, misvísun og hreinn tilbúningur. Í leiðinni væri hægt að athuga hvort láréttur genaflutningur og klónun sé ekki örugglega það sama. Hugsanlega kemur í ljós að svo sé ekki, jafnvel þótt erfðafræði nútímans fjalli um hvort tveggja.

Stefán Gíslason, 28.5.2008 kl. 23:25

7 Smámynd: Loopman

Ég játa mig leiðréttann, sá þetta á Wikipedia. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd sem Dr Patrick Moore segir hér fyrir ofan og hvernig þessi umræða um erfðabreytt matvæli er, á villigötum og einkennist af trúarkreddum og hræðsluáróðri. Al Gore notar svipaða taktík, segir að heimurinn séð að farast og hitastig hækki jafnt og þétt. Staðreyndin er sú að hitastig á jörðinni hefur ekki hækkað síðan 1990 og eitthvað.

Loopman, 29.5.2008 kl. 09:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband