Leita í fréttum mbl.is

Hlaupaleiðir við Borgarnes

Hér fara á eftir langþráðar og ómissandi upplýsingar um nokkrar hringleiðir í nágrenni Borgarness, sem eru næstum eins og sniðnar fyrir hlaupara.

1. Andakílshringurinn 14,2 km
Lagt er af stað við vegamót Borgarfjarðarbrautar (50) og Mófellsstaðavegar (507) skammt innan við bæinn Innri-Skeljabrekku og hlaupið áleiðis upp í Skorradal, framhjá Hreppslaug og að vegamótum við vesturenda Skorradalsvatns skammt frá Indriðastöðum, beygt til vinstri yfir efri brúna á Andakílsá og skömmu síðar aftur til vinstri neðan við bæinn Grund og hlaupið niður Skorradalsveg (508), framhjá Miðfossum og að vegamótum við Borgarfjarðarbraut skammt frá bænum Ausu. Þar er enn beygt til vinstri eftir Borgarfjarðarbraut, hlaupið yfir neðri brúna á Andakílsá og sem leið liggur á upphafsstaðinn. Mestur hluti leiðarinnar liggur í sæmilega sléttu landi, en þó er brekkan upp hjá Hreppslaug býsna togandi. Malarvegur er fyrstu kílómetrana, þ.e.a.s. upp að Skorradalsvatni, en bundið slitlag eftir það. Umferð er sjaldnast til ama á þessari leið.

2. Hesthálshringurinn minni 20,9 km
Lagt er af stað við vegamót Borgarfjarðarbrautar (50) og Mófellsstaðavegar (507) skammt innan við bæinn Innri-Skeljabrekku og hlaupin sama leið og á Andakílshringnum, allt að vegamótunum neðan við bæinn Grund. Þar er síðan þjóðvegi 520 fylgt yfir Hestháls og niður í mynni Lundarreykjadals. Þar er beygt til vinstri og Uxahryggjavegi (52) fylgt stuttan spöl, niður að vegamótunum við Borgarfjarðarbraut skammt frá bænum Hesti. Þar er enn beygt til vinstri og hlaupið eftir Borgarfjarðarbraut sem leið liggur á upphafsstaðinn. Nokkur hæðarmunur er á leiðinni, einkum á Hesthálsi, sem þó er lægsti fjallvegur Íslands, a.m.k. af þeim sem komast á þar til gerðan lista í Vegahandbókinni, aðeins 120 m yfir sjó þar sem hæst er. Við þetta bætist svo brekkan upp hjá Hreppslaug, sem er býsna togandi. Malarvegur er fyrstu kílómetrana, þ.e.a.s. upp að Skorradalsvatni, og sömuleiðis yfir Hestháls, en bundið slitlag að öðru leyti. Umferð er sjaldnast til ama á þessari leið.

3. Hesthálshringurinn stærri 25,1 km
Lagt er af stað við vegamót Borgarfjarðarbrautar (50) og Mófellsstaðavegar (507) skammt innan við bæinn Innri-Skeljabrekku og hlaupin sama leið og á minni Hesthálshringnum, þar til komið er inn á Borgarfjarðarbraut fyrir neðan bæinn að Hesti. Skömmu síðar er beygt til hægri niður Hvítárvallaveg (510) og hlaupið niður undir Hvítárvelli. Þar er beygt til vinstri og Hvanneyrarvegi (511) fylgt fram hjá Hvanneyri, að vegamótum við Borgarfjarðarbraut skammt frá bænum Ausu. Þar er beygt til hægri og hlaupið eftir Borgarfjarðarbraut á upphafsstaðinn. Nokkur hæðarmunur er á leiðinni, einkum á Hesthálsi, sem þó er lægsti fjallvegur Íslands, a.m.k. af þeim sem komast á þar til gerðan lista í Vegahandbókinni, aðeins 120 m yfir sjó þar sem hæst er. Við þetta bætist svo brekkan upp hjá Hreppslaug, sem er býsna togandi. Malarvegur er fyrstu kílómetrana, þ.e.a.s. upp að Skorradalsvatni, og sömuleiðis yfir Hestháls. Sömuleiðis er möl á Hvítárvallavegi og á Hvanneyrarvegi frá Hvítárvöllum að Hvanneyri. Umferð er sjaldnast til ama á þessari leið.

4. Hvanneyrarhringurinn minni 33,0 km
Lagt er af stað frá vegamótum við Hyrnuna í Borgarnesi og hlaupið norður Vesturlandsveg að bænum Beigalda. Þar er beygt til hægri inn á Ferjubakkaveg (530) og hann hlaupinn á enda. Síðan er aftur beygt til hægri og hlaupið eftir Hvítárvallavegi (510), yfir gömlu Hvítárbrúna, framhjá Hvítárvöllum og áfram eftir Hvanneyrarvegi (511), framhjá Hvanneyri og að vegamótum við Borgarfjarðarbraut skammt frá bænum Ausu. Þar er beygt til hægri og hlaupið eftir Borgarfjarðarbraut allt að vegamótum við Vesturlandsveg við suðurenda Borgarfjarðarbrúarinnar, og þaðan yfir brúna á upphafsstaðinn við Hyrnuna. Engar umtalsverðar brekkur eru á þessari leið, nema þá helst upp af Grjóteyri, skömmu áður en komið er að Borgarfjarðarbrúnni. Mestur hluti leiðarinnar er á bundnu slitlagi, að frátöldum hluta af Ferjubakkaveginum og þaðan að Hvanneyri. Vegna umferðar er best að hlaupa þessa leið snemma morguns, því að umferð á Vesturlandsvegi getur verið bæði býsna mikil og hröð þegar kemur fram á daginn.

5. Háfslækjarhringurinn 17,9 km
Lagt er af stað frá vegamótum Snæfellsnesvegar (54) og Sólbakka, skammt frá hringtorginu neðan við Húsasmiðjuna í Borgarnesi, hlaupið norður Sólbakka og síðan beygt örlítið til vinstri inn á malarveg sem liggur meðfram nýjum iðnaðarlóðum í norðurjaðri byggðarinnar í Borgarnesi. Við bensínstöð Atlantsolíu kemur dálítill hlykkur á leiðina, sem síðan fylgir Vallarási allt að hesthúsahverfi Borgnesinga. Þar er beygt til vinstri og hlaupið upp brekku og síðan til hægri ofan við hesthúsahverfið og sem leið liggur upp í fólkvanginn í Einkunnum. Skömmu áður en komið er upp í skóginn er beygt til hægri inn á lausan malarveg sem hlykkjast vestur yfir Háfslæk, allt vestur á Jarðlangsstaðaveg við Langá. Honum er svo fylgt niður að vegamótunum austan við Langárbrúna, þar sem beygt er til vinstri inn á Snæfellsnesveg. Loks er hlaupið eftir Snæfellsnesvegi að upphafsstaðnum. Engar umtalsverðar brekkur eru á þessari leið, nema helst við bæinn Laufás skammt austan við Langárbrúna. Vegurinn upp að Einkunnum er malarvegur, oftar en ekki fremur laus í sér. Vegurinn frá Einkunnum og vestur að Langá er mjög laus og fremur grófur. Jarðlangsstaðavegur er líka malarborinn og þar getur ryk verið til leiðinda, en umferð er þó oftast lítil. Umferð um Snæfellsnesveg getur verið allþung á annatímum. Þar eru kantar naumir og leiðin ekki örugg til hlaupa þegar umferðin er mest.

6. Grenjamúlahringurinn 37,6 km
Lagt er af stað frá vegamótum Ólafsvíkurvegar (54) og Grímsstaðavegar (535) vestan við brúna á Urriðaá, og hlaupið eftir Ólafsvíkurvegi til norðvesturs, vestur fyrir Álftá og að vegamótum við Hítardalsveg (539). Þar er beygt til hægri og hlaupið eftir Hítardalsvegi inn fyrir bæinn að Mel. Þar er aftur beygt til hægri inn á vegarslóða sem liggur upp undir múlana og áfram til austurs meðfram Grenjamúla, fram hjá Ytri- og Syðri Hraundal og loks niður Grímsstaðaveg að upphafspunkti. Leiðin meðfram múlunum er falleg, en mishæðótt og gróf. Þar eru einnig nokkrir fremur smáir óbrúaðir lækir. Ekkert bundið slitlag er á leiðinni, nema á Snæfellsnesvegi. Þar getur umferð verið til óþæginda fyrir hlaupara á annatímum, en að öðru leyti er leiðin fáfarin.

Læt þessar sex leiðir nægja að sinni. Þrjár til viðbótar eru til skoðunar og verður e.t.v. lýst síðar þegar ég er sjálfur búinn að hlaupa þær og mæla. Ein þeirra er fullvaxinn Hvanneyrarhringur, þar sem Ferjubakkavegurinn er ekki notaður til að stytta sér leið. Önnur er umhverfis Skorradalsvatn, sem er væntanlega frekar krefjandi hlaupaleið. Sú þriðja er frá Borgarnesi, upp að Laxholti, vestur með Álftavatni að Stangarholti og þaðan niður Jarðlangsstaðaveg.

Ég efast ekki um að eftir lestur þessara upplýsinga þyrpist fólk út til að hlaupa þessar skemmtilegu leiðir. Það gera menn þó á eigin ábyrgð. Þá er gott að hafa í huga, að allar þessar leiðir er jafnlangar hvort sem þær eru hlaupnar réttsælis eða rangsælis - og óháð því hvar á hringnum hlaupin hefjast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband