Leita í fréttum mbl.is

VIÐ ráðum !!!

Ég held að VIÐ, þ.e.a.s. ég og mínir líkir, fólk flest, Jón og Gunna, hinn almenni borgari, almenningur, eða hvað það nú annars heitir þetta ágætis fólk, vanmetum stórlega vald okkar og áhrif. Þegar grannt er skoðað erum það nefnilega VIÐ sem ráðum. Það erum VIÐ sem berum mesta ábyrgð á bankakreppunni, og það erum líka VIÐ sem höfum mesta burði til að leysa hana.

En hvers vegna VIÐ? Jú, VIÐ ráðum vegna þess að VIÐ kjósum. Og VIÐ kjósum ekki bara á fjögurra ára fresti, hreppsnefndir, þingmenn og forseta, heldur kjósum VIÐ á hverjum einasta degi, ekki þó í kjörklefum, heldur í eldhúsum og kaupfélögum þessa lands, svo tveir kjörstaðir séu nefndir. Í hvert sinn sem VIÐ ákveðum að kaupa eða kaupa ekki einhverja vöru eða þjónustu, þá erum VIÐ að kjósa. Kosningin snýst ekki bara um að VIÐ fáum tiltekna vöru og greiðum tiltekna upphæð fyrir, heldur hefur hver einasta kosning, eða hvert einasta val, (e: "Every move you make"), áhrif á marga aðra. Hver einasta kosning stuðlar að því að eitthvert fyrirtæki, eitthvert fólk, eða einhver hugmynd fái að lifa og þróast, á sama tíma og eitthvert annað fyrirtæki, eitthvert annað fólk eða einhver önnur hugmynd verður af stuðningi okkar til hins sama.

Í viðtali í Speglinum á RÚV í dag, nefndi Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs, gott dæmi um það vald og þau áhrif sem VIÐ höfum. Kaffitár rekur eina af fjórum kaffibrennslum á Íslandi, en meirihlutinn af því kaffi sem við Íslendingar drekkum er brenndur erlendis. Aðalheiður sagði frá því að ónefnd verslunarkeðja hefði ákveðið að hætta að selja þetta íslensktmalaða kaffi. Við þá einu ákvörðun lögðust af 4 störf á Íslandi, sumpart við að brenna kaffi, sumpart við að hanna umbúðir, sumpart við að gera við raflagnir, o.s.frv. Með því að velja frekar kaffi sem brennt er á Íslandi höfum VIÐ því áhrif á atvinnustigið í landinu.

Aðalheiður útskýrði líka hvernig VIÐ getum stuðlað að uppbyggingu í þróunarlöndunum með því að kaupa eina gerð af kaffi fremur en aðra, þ.e.a.s. með því að kaupa kaffi, þar sem tryggt er að framleiðandinni fái sómasamlegt verð og geti tekið þátt í nauðsynlegri uppbyggingu eigin fjölskyldu og eigin samfélags.

Kannski greiðum VIÐ jafnmikið hvorn kostinn sem VIÐ kjósum, þ.e.a.s. kostinn sem viðheldur 4 störfum á Íslandi í stað hins sem kippir undan þeim fótunum, já eða kostinn sem tryggir kaffibóndanum sómasamleg kjör í stað hins sem stuðlar að barnaþrælkun og áframhaldandi eymd!

VIÐ ráðum af því að VIÐ kjósum, ekki bara á fjögurra ára fresti, heldur á hverjum einasta degi, oft á dag. Við berum líka ábyrgð á þeim sem stjórna landinu okkar, því að VIÐ kusum þau til þeirra verka. Pólitísk ábyrgð okkar á því sviði á ekki endilega að vera komin í fjögurra ára frí um leið og tjaldið fellur fyrir kjörklefann. VIÐ eigum að láta í okkur heyra ef okkur finnst þau sem stjórna landinu ekki gera það með þeim hætti sem VIÐ kusum þau til. VIÐ ráðum!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Heyr!!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 3.11.2008 kl. 21:42

2 Smámynd: Theódór Norðkvist

Heyr, heyr! Í knattspyrnunni er þjálfarinn rekinn ef liðið tapar og tapar, tala ekki um ef það fellur um deild. Hann ákveður leikskipulagið og velur menn inn á.

Ef leikskipulagið er ónýtt og leikmennirnir standa sig illa á hann að breyta skipulaginu eða setja nýja menn inn á, jafnvel hvort tveggja.

Geri hann það ekki þarf hann að víkja sjálfur. Ríkisstjórnin á að vera löngu búin að segja af sér, geri hún það ekki þurfum við að koma henni frá völdum. Það er hægt með nógu kraftmiklum mótmælum.

Jón Gerald Sullenberger segir á blogginu hjá Silfur-Agli að Jón Ásgeir noti lausafé úr Bónus til að kaupa sín eigin félög og sleppa undan skuldum sem hann hefur stofnað til. Við getum stöðvað hann með því að hætta að versla í Bónus (það er ekki ódýrt að versla í Bónus ef við sitjum uppi með milljarða skuldir af völdum þess.)

Theódór Norðkvist, 3.11.2008 kl. 23:49

3 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Rétt hjá þér félagi Stefán. VIÐ berum ábyrgð á þessu og VIÐ getum valið það að stöðva þetta bull. VIÐ verðum líka að koma okkur upp minni sem nær lengra en til næsta sunnudags og haga okkur sómasamlega þegar kemur að því að VIÐ fáum að kjósa yfir okkur stjórnendur. Málið er hins vegar þannig að í dag sitjum VIÐ uppi með þessa stjórnmálamenn sem VIÐ kusum yfir okkur síðast og VIÐ fáum ekki tækifæri aftur fyrr en árið 2010 þegar VIÐ kjósum okkur sveitarstjórn og sannast sagna hef ég enga trú á að VIÐ fáum að kjósa aftur til Alþingis fyrr en árið 2011. Því miður!

Dæmið hennar Aðalheiðar er hins vegar athyglisvert, VIÐ þurfum að muna eftir þessu.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 4.11.2008 kl. 00:24

4 identicon

Sammála um að ábyrgðin er okkar. Við kusum. Við völdum. Við veljum. Og þegar við erum óánægð með það sem við kusum og völdum, þá getum við samt haft áhrif. Var einmitt að rifja upp mátt fólksins við að horfa á myndbönd á youtube.com með  John Lennon; Give peace a chance og Power to the people. Þar kemur sterkt í ljós máttur fólksins, þúsundum saman gegn brynvarinni lögreglu, eitthvað hefur þetta að segja og sérlega áhrifaríkt að sjá einn einstakling standa frammi fyrir skriðdreka sem reyndi að sveigja framhjá honum en maðurinn stillti sér alltaf upp beint fyrir framan skriðdrekann sem lét að lokum undan. Þvílíkt hugrekki. Og sjá þúsundir manna streyma um göturnar í mótmælaskyni. Það hefur áhrif. Já, það er satt hjá þér, Stéfán. Við getum haft áhrif ef við stöndum saman.

Nína S (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 02:36

5 Smámynd: Birgir Þorsteinn Jóakimsson

Frábært innlegg hjá þér Stefán og orð í tíma töluð. Vald okkar er algert ef við förum líka sjálf að koma okkur áfram í pólitíkinni. Ég held að gamla 4 flokkakerfið sé komið yfir síðasta söludag og tími til kominn að taka upp aðra stjórnarhætti.

Mæli með greininni hans Friðriks Erlings inn á Silfri Egils á Eyjunni.is

Birgir Þorsteinn Jóakimsson, 4.11.2008 kl. 14:19

6 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Frábær pistill. Vonandi sjáum við okkur fært um að fara eftir því sem þú segir í honum sem flesta daga.

Einföld regla: Lesum utan á pakkana sem við kaupum í búðunum.

Framleiðsluland, efnisinnihald svo og gæðamerkingar frá samtökum um bætta viðskiptahætti í heiminum.

Greta Björg Úlfsdóttir, 4.11.2008 kl. 19:52

7 Smámynd: Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir

Frábært Stefán!

Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 5.11.2008 kl. 09:10

8 identicon

Takk fyrir að benda okkur á þetta. Þegar ég las þennan pistil og einnig þegar ég hlustaði á Aðalheiði varð mér hugsað til átaks sem ég held að UMFÍ verið í forsvari fyrir og hét  "Eflum íslenskt". Verkefni í þessa veru fá fólk til að hugsa. Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Hafdís Sturlaugsdóttir (IP-tala skráð) 5.11.2008 kl. 15:37

9 Smámynd: Stefán Gíslason

Takk fyrir öll þessi góðu orð gott fólk. Það er gaman að finna fyrir svona miklum áhuga og hugsun. Okkur eru náttúrulega allir vegir færir.

Stefán Gíslason, 8.11.2008 kl. 23:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband