Leita í fréttum mbl.is

Vel heppnað Sumarljós

Í gærkvöldi fórum við hjónin í Þjóðleikhúsið og sáum leikritið Sumarljós eftir sögu Jóns Kalmans Stefánssonar, Sumarljós og svo kemur nóttin. Fengum miða á 4. bekk, sem var reyndar fremsti bekkurinn þegar á hólminn var komið, því að bekkir 1-3 voru hvergi sjáanlegir. Þess vegna þurftum við að beygja hnén þegar Ásdís á Sámsstöðum gekk framhjá - og vorum í seilingarfjarlægð frá rúmgafli Fanneyjar á Kálfastöðum, sem hafði feiminn andardrátt. 

Þetta var í stuttu máli ein af mínum bestu leikhúsferðum. Mér finnst aðstandendum sýningarinnar hafa tekist sérstaklega vel að koma andblæ bókarinnar til skila, ekki bara sögunum og frábærum texta Jóns Kalmans, heldur líka þessari næmu nánd sem einkennir bókina.

Sumarljós og svo kemur nóttin er ein af mínum uppáhaldsbókum. Þegar uppáhaldsbókum er breytt í leikverk er alltaf hætta á að maður verði fyrir vonbrigðum. En þannig var það sem sagt alls ekki í gærkvöldi, því að sýningin fór fram úr mínum björtustu vonum. Þar hjálpaðist margt að; hlýleg og sönn kynning í upphafi, góður leikur, þaulhugsuð sviðsmynd og einkar hæfilegur og ljúfur skammtur af tónlist og hljóðum.

Ég held að ég halli ekki á neinn þótt ég nefni leik Björns Hlyns Haraldssonar sérstaklega, í hlutverki Benedikts, bónda úr norðursveitinni. Þetta er líklega vandasamasta hlutverk verksins, og gríðarlega vel af hendi leyst. Hógvær hljóðmynd naut sín líka til fulls á kyrrum stundum í bæ Benedikts.

Ég held að flestir hljóti að þekkja margar af persónunum í Sumarljósi, jafnvel þó að þeir þekki þær ekki. Kannski þekkir maður líka sjálfan sig þarna einhvers staðar. Verkið byggist á samtvinnuðum sögum af daglegu lífi fólks í þorpi, sem manni finnst maður hafa komið í eða búið í. Kannski höfðar verkið mest til þeirra sem hafa búið í svona þorpi. Hafa ekki annars allir búið í svona þorpi, þó að það hafi verið kallað eitthvað annað, t.d. bær eða borg?

Enn er hægt að fá miða á Sumarljós með stuttum fyrirvara á heimasíðu Þjóðleikshússins, http://www.leikhusid.is/. Ég hvet alla til að tryggja sér miða og eyða einni notalegri kvöldstund með þessu einlæga fólki. Kannski er bara best að kaupa miðana strax í dag. En svo er líka hægt að láta „eina svefnlaus nótt líða“ til að upplifa þrána.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég var ásamt konu minni á sömu sýningu og upplifði þetta á líkan hátt og þú.  Bókin er meistaraverk en þar sem sýningin hefur fengið slæma gagnrýni í dagblöðunum tveimur þá bjuggumst við ekki við miklu.  En við hlógum og grétum og áttum frábæra kvöldstund þar sem þetta meistaraverk Íslenskra bókmennta var borið fram fyrir okkur af næmni og virðingu sem það á skilið.  Ég held að gagnrýnendur hafi verið að dæma eitthvað annað en það sem við sáum því þetta var frábær sýning.  Ég er búin að mæta í leikhús reglulega í áratugi eða frá því að ég sá Dýrin í Hálsaskógi með foreldrum mínum sem barn þannig að ég held að ég sæi ef ekki væri vel að verki staðið.  Þetta er frábær leiksýning efitir enn betri bók.  veistu, mig langar að sjá þetta aftur.

Ólafur Ari Jónsson (IP-tala skráð) 17.1.2009 kl. 21:01

2 Smámynd: Stefán Gíslason

Það vill svo skemmtilega til að þegar við gengum út úr Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi sagði konan mín einmitt þetta sama, þ.e. að hún væri alveg til í að sjá þetta aftur. Og mér fannst það bara virkilega góð hugmynd!

Stefán Gíslason, 17.1.2009 kl. 21:59

3 identicon

Ég sá þessa leiksýningu um síðustu helgi og upplifði hana á svipaðan hátt og gagnrýnendur dagblaðanna (rýnina las ég samt eftir sýninguna).

En ég hafði það á orði eftir sýninguna (ég var þó kominn úr leikhúsinu og yfir Hverfisgötuna) að gaman væri að sjá leikverkið á nýjan leik, og þá á fremsta bekk. Það er ólíku saman að jafna að sitja við eldhúsborðið hjá Benedikti bónda eða á veitingahúsinu hennar Elísabetu eins og hver annar leikmunur og hins vegar því að sitja efri sætaröðum leikhússins og fylgjast með þorpinu úr meiri fjarlægð.  

Ég taka það fram að leikendur sýningarinnar stóðu sig með mikilli príði, sérstaklega áðurnefndur Björn Hlynur.

Jónas Friðrik (IP-tala skráð) 17.1.2009 kl. 22:33

4 identicon

Sæll frændi,

ég læt verða af því að fá mér miða og fara á sýninguna eftir þessi meðmæli. Sumarljós og svo kemur nóttin er sennilega ein besta íslenska bók sem ég hef lesið. Stíll og allt yfirbragð bókarinnar, persónur og sögusviðið (sem mér sýnist alltaf vera Búðardalur) er ótrúlega heillandi í framsetningu Jóns, en um leið svo ótrúlega venjulegt.

Tær snilld!

Arnar Jónsson (IP-tala skráð) 18.1.2009 kl. 10:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband