Leita í fréttum mbl.is

Leyfum okkur að gleðjast í voninni!

Ég er ánægður með stjórnarskiptin. Það þurfti einfaldlega að skipta um fólk. Burtséð frá allri flokkapólitík var ekki hægt að ætlast til þess að þjóðin vildi þiggja bjargráð þeirra sömu og voru á vaktinni á meðan hagkerfið hrundi.

Nýrri stjórn fylgir ný von. Og vonina má ekki vanmeta. Vonin er sú, að nú sé loks hægt að hefja ferðina yfir fljótið, yfir að fljótsbakka framtíðarinnar, ferð sem fyrri stjórn virtist þrjóskast við að leggja upp í. Ég vil nefnilega ekki láta draga mig upp á gamla bakkann, fljótsbakka fortíðarinnar. Ég vil halda áfram, þó að fyrsti spölurinn sé blautur og kaldur.

Mér dettur ekki í hug að halda að nýja stjórnin lumi á einhverjum töfralausnum sem duga til að leysa öll vandamál á 80 dögum, enda er fljótsbakki framtíðarinnar eflaust fjær en það. En hvert ferðalag hefst jú með einu skrefi.

Við aðstæður eins og nú ríkja er breyting góð, jafnvel þótt hún væri aðeins gerð breytingarinnar vegna. Í þessu tilviki er því reyndar ekki svo farið, því að á verkefnalista nýju ríkisstjórnarinnar kveður við nýjan tón. Þar kemur m.a. fram að stjórnin muni „hafa í heiðri félagsleg gildi, hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, kvenfrelsi, jöfnuð og réttlæti“. Þar við bætist svo hugmyndin um nýja stjórnarskrá, sem samin verður og samþykkt af fólkinu í landinu. Þetta er einmitt það sem ég vildi sjá.

Frá því í árslok 2001 hef ég verið algjörlega sannfærður, hverja einustu stund, um að Ísland geti markað sér sess sem fyrirmynd annarra þjóða á sviði sjálfbærrar þróunar, þ.e.a.s. þróunar sem tryggir jafnrétti á milli núverandi og komandi kynslóða, þróunar sem er gerð til að endast. Þeir sem vilja vera slík fyrirmynd mega ekki umgangast jörðina eins og hún sé fyrirtæki í gjaldþrotaskiptum, svo vitnað sé í Herman Daly. Þeir mega heldur ekki „hugsa eingöngu um stundarhaginn, nokkra aura í svipinn, en láta sér standa á sama þótt gerður sé stórskaði öldum og óbornum“, eins og Þorvaldur Thoroddsen orðaði það fyrir 115 árum. Þetta frumkvöðulshlutverk, sem ég er svo viss um að Ísland eigi að taka að sér, byggir ekki á fórnfýsi. Hlutverkið felur einfaldlega í sér stórkostleg tækifæri fyrir þessa litlu þjóð. Og líklega er hvergi að finna neina þjóð sem er betur í stakk búin til að gegna þessu hlutverki, eins og ég hef reyndar reynt að rökstyðja í þónokkuðmörgum fyrirlestrum síðustu 7 árin. Fáar þjóðir eru betur menntaðar, ríkari af náttúruauðlindum, með sterkari lýðræðishefð og styttri boðskiptaleiðir. Hér er allt sem þarf. En til þess að ná þessari eftirsóknarverðu forystu þarf að stokka upp spilin, endurvekja lýðræðið, sem var tekið að fyrnast, auka þátttöku fólksins og hætta að líta á stjórnmálamenn sem stétt sem á að sjá um að stjórna landinu á meðan við hin sýslum við eitthvað annað.

Verum vongóð og viss um að nú sé okkar tími kominn, og að nú liggi leiðin yfir á fljótsbakka framtíðarinnar. Leyfum okkur að gleðjast í voninni!


mbl.is Stjórnarskiptin vekja athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Einmitt!

Ingibjörg Hinriksdóttir, 2.2.2009 kl. 23:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband