Leita í fréttum mbl.is

Að tala kjark í þjóðina

Ég er eiginlega alveg sammála því sem Davíð Oddsson sagði í Kastljósviðtalinu um daginn, að ráðamenn geri allt of lítið af því að tala kjark í þjóðina.

Sú skoðun virðist útbreidd, að þegar illa gangi megi helst hvergi örla fyrir brosi, heldur skuli menn ganga álútir og hoknir í hnjánum, svo vitnað sé í frumvarp Steins Steinars til laga um samræmt göngulag fornt. Bjartsýni við slíkar aðstæður þykir kjánaleg og bera vott um vanþekkingu.

En hvernig sem staðan er, þá ræður maður nokkru sjálfur um eigin líðan. Það eru nefnilega til tvær gerðir af gleraugum; bjartsýnisgleraugu og svartsýnisgleraugu. Maður ræður sjálfur hvora gerðina maður notar. Útsýnið er það sama í báðum tilvikum, það kemur manni bara ekki eins fyrir sjónir. Val manns á gleraugum fer að nokkru eftir því hvernig gleraugu samferðamennirnir nota. Þess vegna er gleraugnanotkun ráðamanna líkleg til að hafa víðtæk áhrif.

Það er hægt að tala kjark í þjóðina án þess að gera lítið úr vandanum. Auðvitað þarf að viðurkenna vandann og tala um hann. En um leið þarf að minna á það sem gefur vonir. Ein leið til þess er að fylla upp í umræðu um vandamál til skamms tíma með umræðu um tækifæri til langs tíma. Reyndar held ég að okkur sé allt of tamt að einblína á mjög stutt tímaskeið í einu, eiginlega bara það sem er rétt fyrir framan tærnar á okkur. Nokkrir mánuðir eru ákaflega lítill hluti af heilli mannsævi, og því má alls ekki draga of miklar ályktanir af þessum mánuðum. Þeir verða kannski bara eins og skjálfhent skripl á línuriti aldarinnar. Horfum lengra fram í tímann, ekki vikur, ekki mánuði, en kannski ár og helst áratugi. Leyfum okkur að ákveða hvers konar lífi við lifum þá og í hvers konar samfélagi. Þar eru birtunni naumast takmörk sett. Og þegar sú mynd er tilbúin skulum við líta til baka og finna út hvernig við komumst þangað. Það er nefnilega ekki nóg að búa bara til framtíðarmyndina - og setja hana svo upp í skáp, rétt eins og stjórnvöld hafa gert með loftslagsmarkmiðin sín fyrir árið 2050. Það þarf líka að ákveða hvernig sú mynd verði að veruleika. Það er skemmtilegt viðfangsefni.

Síðustu vikur hef ég nokkrum sinnum staðið dapur upp frá svartsýnistali sjónvarpsins og hugleitt að henda bjartsýnisgleraugunum. Á þeim stundum hef ég fundið hvernig neikvæð umræða brýtur mann niður. Það þarf að tala kjark í þjóðina. Stjórnvöld og fjölmiðlar þurfa að tala kjark í okkur og við þurfum að tala kjark í vini okkar og fjölskyldur. Svartsýnn maður er ekki líklegur til stórræða. Umræðan hefur áhrif. Hún getur bæði hvatt og lamað. Staðreyndirnar geta lamað. Umræðan þarf að sjá um hitt.

Davíð sagði margt fleira í þessu sama Kastjósviðtali. Ég læt viðhorf mitt til alls hins liggja milli hluta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fríða

Jáen, ef ég get ekki kennt öðrum um og haldið áfram að benda á það sem miður hefur farið þarf ég að fara að gera eitthvað í mínum málum og til þess geturðu ómögulega ætlast.  Nú, og ef ég fer að brosa, þá heldur fólk að ég hafi það of gott og að ég hafi grætt í uppsveiflunni án þess að tapa öllu aftur.  Nei, ég verð að halda áfram að vera í fýlu svo fólk haldi ekki að þetta sé mér að kenna og ég hafi grætt á þessu. Ég get ekkert lagað þetta, það eiga hinir að gera.  Þessir sem skemmdu allt. Ég er bara fórnarlamb. Horfa fram á við?  Það er ekkert þar.

Bara svona smá djók, en er það kannski svona sem fólk hugsar?

Hversu margir hafa ekki étið það hver eftir öðrum að það verði að finna sökudólgana áður en hægt er að byrja að vinna í því að snúa þróuninni við.   Segjum að það yrði brotist inn hjá mér á morgun á meðan ég er í vinnunni.  Og öllu stolið.  Og ég bara stæði þarna og biði eftir því að þjófurinn fyndist áður en ég svo mikið sem reyndi að gera húsið íbúðarhæft aftur.  Jafnvel þótt það væri líklegast að hvorki þjófur né þýfi fyndist.  Þá væri ég að leyfa ómerkilegum þjófi að eyðileggja svo miklu meira en annars. 

Fríða, 5.3.2009 kl. 23:06

2 Smámynd: Stefán Gíslason

Einmitt! Það er rosalega mikið til í þessu. Sökudólgarnir finnast þegar og ef þeir finnast. En við verðum að horfa fram á veginn, því að þar er nýtt vor og nýtt sumar.

Stefán Gíslason, 6.3.2009 kl. 08:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband