Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Maraþonráð frá Dean Karnazes

Ég keypti ágústheftið af Runner´s World fyrir helgina. Var einu sinni áskrifandi að þessu ágæta tímariti, en hætti svo að nenna að fá allar þessar amerísku auglýsingar sem fylgja. Núna freistast ég til að kaupa svo sem eitt blað á ári.

Í ágústheftinu miðlar ofurhlauparinn Dean Karnazes af reynslu sinni, en Dean þessi hefur unnið ýmis ótrúleg afrek um dagana síðan hann byrjaði að hlaupa fyrir tilviljun eftir tequila-fyllerí í þrítugsafmælinu sínu 1992. Einna frægastur er hann líklega fyrir að hafa hlaupið 50 maraþon á 50 dögum í 50 ríkjum Bandaríkjanna haustið 2006. Hann er öðrum fremur orðinn holdgervingur þeirrar vissu að manninum sé nær ekkert ómögulegt.

50/50Tilgangur Deans með því að hlaupa þessi 50 maraþon á 50 dögum í 50 ríkjum var m.a. sá að afsanna tilgátur um að löng hlaup gætu verið skaðleg fyrir líkamann. Þess vegna var hann líka undir nákvæmu eftirliti alla þessa 50 daga. Og viti menn: Honum fór bara fram eftir því sem á leið. Síðasta hlaupið var í New York, og þar náði hann besta tímanum, 3:00:30 klst. (Það fylgir ekki sögunni í Runner´s World, að þegar hann var búinn með þetta 50. hlaup ákvað hann að skokka heim til San Francisco).

En ég ætla annars ekkert að fara að endursegja 50-maraþonhlaupasöguna hans Dean Karnazes. Henni hefur hann sjálfur gert góð skil í bókinni 50/50, sem m.a. er hægt að kaupa á Amazon. Ég ætla hins vegar að taka mér það bessaleyfi að endursegja brot af þeim maraþonráðum sem hann gefur í ágústhefti Runner's World. Mig grunar nefnilega að einhverjir gætu haft gagn af slíkri endursögn, ekki síst þeir sem eru byrjendur í maraþonhlaupum eða því sem næst, og falla sjaldnar en ég í þá freistni að kaupa hlaupablöð í búðum.

Dean gerir ráð fyrir að þeir sem hlaupa maraþon í fyrsta sinn setji sér einfaldlega það markmið að klára hlaupið. Hins vegar sé eðlilegt að setja ný markmið fyrir næsta hlaup, því að með því búi maður sér til spennandi viðfangsefni. Markmiðið gæti verið að bæta tímann úr fyrsta hlaupinu, rjúfa einhvern klukkutímamúr, eða eitthvað enn annað.

En hvernig á að ákveða markmiðið? Dean stingur upp á því að menn noti þar til gerðar reiknivélar til að áætla hæfilegt markmið út frá eigin árangri í 5 eða 10 km hlaupi, eða hálfmaraþoni. Eina slíka reiknivél er t.d. að finna á http://www.runnersworld.com/raceprediction. Sem dæmi má nefna að ef ég set þar inn 44 mínúturnar sem það tók mig að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu um daginn, þá segir reiknivélin að ég ætti að geta hlaupið maraþon á 3:22:23 klst. Mér finnst það nú reyndar vel í lagt, en gott og vel.

Næsta spurning er svo hvernig maður á að ná markmiðinu. Til að hafa þetta svolítið áþreifanlegt skulum við gera ráð fyrir að ég ætli að ná þessu markmiði í næsta Reykjavíkurmaraþoni, sem ég geri ráð fyrir að verði haldið laugardaginn 22. ágúst 2009.

Það fyrsta sem Dean ráðleggur er að byrja nógu snemma að hlaupa langar vegalengdir. Það sé ekki nóg að vera búinn að hlaupa 32 km einu sinni eða tvisar á undirbúningstímanum eins og margir gera. Maður ætti sem sé að hlaupa fyrsta 32 km hlaupið í síðasta lagi 6 vikum fyrir umrætt keppnishlaup og ná samtals a.m.k. þremur 32-38 km hlaupum áður en á hólminn er komið. Í mínu tilviki þyrfti ég samkvæmt þessu að hlaupa 32 km í síðasta lagi 11. júlí 2009 og bæta a.m.k. tveimur slíkum við vikurnar þar á eftir.

Í öðru lagi ráðleggur Dean manni að æfa hraðann sem þarf til að ná markmiðinu. Í dæminu mínu þarf hraðinn að vera 4:49 mín/km. Hlaup á þessum hraða ætti ég þá að fella inn í síðari hluta langra hlaupaæfinga. Að mati Deans væri upplagt að byrja á þessu 7 vikum fyrir hlaup, þ.e.a.s. í síðasta lagi 4. júlí í dæminu mínu. Þá væri t.d. hægt að byrja æfinguna á 6 km rólegu upphitunarhlaupi og taka svo næstu 12 km á maraþonhraðanum. Þetta mætti svo gjarnan endurtaka tveimur vikum síðar, í þessu tilviki t.d. 18. júlí, en bæta þá 3 km við hraðari hlutann, sem sagt 6+15 km. Loks væri upplagt að taka þriðju æfinguna af þessu tagi þremur vikum fyrir maraþonið, í þessu tilviki 1. ágúst, og hafa það þá 6 km hægt + 19 km á maraþonhraðanum.

Í þriðja lagi telur Dean nauðsynlegt að taka nokkrar æfingar sem eru töluvert hraðari en maraþonhraðinn, sem sagt hraðari en 4:49 mín/km í mínu tilviki.  Tilgangurinn með þessu er að auka færni líkamanum í að nýta súrefni. Í þessu skyni mælir Dean með tveimur tegundum æfinga, annars vegar endurteknum mílum og hins vegar hröðum hlaupum. Fyrrnefnda æfingin gæti byrjað á 2 km léttu skokki, en síðan kæmu t.d. 1.600 m á 10 km keppnishraða (4:24 mín/km miðað við 44 mín á 10 km). Svo mætti koma 400 m skokk og svo aftur 1.600 m á fyrrnefndum hraða. Eftir að hafa gert þetta þrisvar væri gott að enda með 3 km skokki. Þetta væri með öðrum orðum 2 km hægt + 1,6 km hratt + 400 m hægt + 1,6 km hratt + 400 m hægt + 1,6 km hratt + 3 km hægt, samtals u.þ.b. 9,6 km. Þetta mætti svo endurtaka viku síðar og bæta þá fjórðu hröðu mílunni (1,6 km) við - og þannig áfram þangað til maður er kominn í 6 hraðar mílur. Fyrsta hraðaæfingin gæti hins vegar verið 10 mín. upphitun + 10 mín. hratt hlaup + 10 mín. niðurskokk. Þetta væri upplagt að endurtaka á 7-10 daga fresti og lengja hraða kaflann þangað til hann er kominn upp í 30 mín. Með hröðu hlaupi er hér átt við mesta hraða sem maður getur haldið án mikils erfiðis.

Besta ráðið frá Dean Karnazes finnst mér samt felast í þessu svari hans við spurningunni um það hvernig hann æfi: „Ég hleyp eins langt og eins hratt og líkamaninn segir mér að gera þann daginn, en reyni samt að hlaupa mjög langt minnst tvisvar í viku“. Ráð hans um mataræði eru mér líka að skapi, nefnilega að borða sem náttúrulegasta og minnst unna fæðu (grænmeti, kjöt og mjólkurvörur), en forðast mikið unnar matvörur á borð við skyndibita, pakkamat og gosdrykki. Þetta minnir mig á svar Svövu heitinnar á Hrófbergi þegar hún var spurð í einhverju viðtali hvað hún hefði eiginlega gefið Hreini syni sínum, Strandamanninum sterka, að borða í æsku: „Hann fékk bara venjulegan algengan íslenskan sveitamat eins og hin börnin“. Dean KarnazesÉg er sannfærður um að hollur matur - og nóg af honum - er grunnforsenda þess að manni líði vel á hlaupunum og taki framförum í líkamlegu atgervi. Líkaminn veit líka nokk hvað hann þarf, en maður þarf að hlusta á hann og taka mark á honum.

Að lokum þykir mér við hæfi að benda á bloggsíðu Dean Karnazes. Hann er nefnilega skemmtilegur penni! Smile


7x7

Í dag lauk 7 daga hlaupaæfingalotu með 7 km á dag. Ég held reyndar að ekki sé mælt með svona æfingafyrirkomulagi í hlaupablöðum og -bókum, enda fljótt á litið óskynsamlega einhæft. Ég hef hins vegar alveg sæmilega reynslu af svona háttalagi til að bæta formið á stuttum tíma, held ég hafi notað það fyrst þegar ég var að æfa fyrir landsmót UMFÍ á Akranesi 1975. Hafði slegið mjög slöku við æfingar mánuðina á undan, en tókst með þessu móti að komast í sæmilegt hlaupaform á mjög stuttum tíma. Reyndar var dagskammturinn bara 3,1 km ef ég man rétt en ekki 7. Já, og formið varð vel að merkja ekki meira en sæmilegt. Ég keppti í 1.500 og 5.000 m hlaupum á landsmótinu, náði mínum bestu tímum í báðum hlaupum, en „dó“ líka í þeim báðum.

Tilgangurinn með þessari 7x7 km tilraun er náttúrulega að reyna að herða mig upp fyrir aðra atlögu að 43:27 mínútna markmiðinu í 10 km, sem mér tókst ekki að ná um síðustu helgi. Fæ tækifæri í Brúarhlaupinu á Selfossi nk. laugardag, ef ég nenni. Það verður gaman að sjá hvort þetta uppátæki hafi skilað einhverju.

Ein góð ástæða þess að taka svona einhæfa æfingaviku er sú, að þetta lítur svo vel út í hlaupadagbókinni á www.hlaup.com: Smile

Úr hlaupadagbókinni

Býst við að bæta tveimur 7 km dögum við þessa lotu á morgun og hinn og hvíla mig svo það sem eftir er vikunnar.


Orð dagsins 9 ára

Staðardagskrá 21Í dag eiga Orð dagsins 9 ára afmæli. Það eru með öðrum orðum liðin 9 ár síðan umrædd orð birtust fyrst á heimasíðu Staðardagskrár 21 á Íslandi þann 30. ágúst 1999. Síðan þá hafa þau birst þar flesta virka daga, að frátöldum hléum vegna annríkis við önnur verk, ferðalög eða sumarleyfi. Í gær birtust orðin í 1.390. sinn.

Eins og ALLIR vita Wink fela Orð dagsins jafnan í sér dálítinn fróðleik um umhverfismál, oftast upprunninn af vefsíðum erlendra fjölmiðla. Sem stoltur og afar hógvær Halo ritstjóri orðanna fullyrði ég að þau hafi fyrir löngu fest sig í sessi sem einn af öflugustu umhverfisfréttamiðlum landsins. Öll eldri orð eru enn aðgengileg, þótt eitthvað af tenglum hafi eflaust brotnað í áranna rás. Þarna er því að finna dágott safn af umhverfistengdum fróðleik!

Ordin_080830
(http://www.samband.is/dagskra21)


Í fýlu út í RÚV

Ég er í fýlu út í RÚV ohf. Hvern haldiði eiginlega að langi til að horfa á bíómynd á aldur við mig um skólastrák sem kemst í hann krappan við að passa uppátækjasaman hund - eða aðra lítið nýrri um hnefaleikakappa sem hjálpar yfirvöldum að finna stolna herþotu? EKKI MIG alla vega! Það hefur einhver gleymt að segja Páli Magnússyni frá því að það var gullmót í frjálsum í Zürich í kvöld! Þar var á ferð góður hópur af fólki, sem hefði alveg getað dregið mig að skjánum vandræðalaust!

Usain Bolt í 200 m í Peking

Kannski Páll hafi frétt af ummælum hins stolta mótshaldara Patrick Magyar, sem sagðist sko alveg hafa séð ódýrari 100 m hlaup, en það sem menn ættu von á í Zürich á föstudagskvöld. Svo hefði ég líka alveg vilja sjá 800 m hlaup kvenna; síðasta keppnishlaup Maríu Mútólu og jafnvel heimsmetstilraun hjá þessari 18 ára stúlku:

Pamela Jelimo

Og Andrés Þorkelsson er nú líka frekar flottur:

Andrés Þorkelsson

Myndirnar eru allar fengnar að láni á heimasíðu Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, http://www.iaaf.org.


Skemmdarverk að skoða hlutina í samhengi?

Ég er frekar undrandi á Guðna að tala um skemmdarverk í þessu sambandi. Ákvörðun Þórunnar snýst um að áhrif framkvæmda sem tengjast fyrirhuguðu álveri verði skoðuð í samhengi, enda hlýtur slíkt að vera öllum til góðs þegar upp er staðið. Annars hef ég engu við það að bæta sem ég skrifaði um málið 13. ágúst sl.


mbl.is Kreppa af völdum ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munu urðunarstaðir breytast í námur?

Í „Orðum dagsins“ í dag kemur fram, að sjónir manna séu nú í auknum mæli farnar að beinast að urðunarstöðum sem hagkvæmum námum fyrir orku- og hráefnavinnslu. Tækifæri eru einkum talin geta legið í gríðarlegu magni plastefna sem víða liggja grafin, en verð á hágæðaplasti, svo sem HDPE, hefur tvöfaldast á einu ári í takt við aukna eftirspurn og hækkandi olíuverð. Svipaða sögu er reyndar að segja um málma, sem víða hafa verið urðaðir í stórum stíl. Sérfræðingar í úrgangsmálum munu ræða þessa möguleika á ráðstefnu í London í október, sem kölluð hefur verið „fyrsta urðunarnámuráðstefnan“.

OECD hefur áætlað að árið 2030 verði magn heimilisúrgangs á heimsvísu komið í um þrjá milljarða tonna á ári, en magnið var um 1,6 milljarður tonna árið 2005, sem samsvarar um 1 kg á mann á dag. Víða er um helmingur þessa magns urðaður, en OECD gerir ráð fyrir að það hlutfall lækki í um 40% fyrir árið 2030 vegna aukinnar áherslu á endurvinnslu og sorpbrennslu til orkuframleiðslu.

Talið er að á nú þegar liggi um 200 milljónir tonna af plasti grafnar í breskum urðunarstöðum. Verðmæti þessa plasts gæti slagað hátt í 60 milljarða sterlingspunda, eða um 9.200 milljarða íslenskra króna, miðað við plastverð í heiminum í dag. Allt þetta plast væri tæknilega séð hægt að endurvinna eða breyta í vökvakennt eldsneyti. Peter nokkur Mills, framkvæmdastjóri úrgangs- og endurvinnslufyrirtækisins New Earth Solutions, hefur haft þau orð um tækifærin sem liggja í gröfnu plasti, að þegar plastið sé „einu sinni komið á urðunarstaðinn, þá sitji það eiginlega bara þar og geri ekki neitt“ - og þar sé hægt að ganga að því og grípa það þegar á þarf að halda.

Þessi áhugi manna á þeim auðlindum sem liggja grafnar í sorphaugum heimsins á sér öðru fremur rætur í hækkandi verði á olíu og hráefnum eins og fyrr segir, en fjölgun jarðarbúa kemur þar að sjálfsögðu einnig við sögu. Gert er ráð fyrir að jarðarbúar gætu verið orðnir um 9 milljarðar árið 2020, en talan er nú einhvers staðar á 7. milljarðinum. Þessi öra fjölgun, samfara örri efnahagsþróun í fjölmennustu ríkjum heims, mun augljóslega leiða til mjög aukinnar eftirspurnar og þar með áframhaldandi verðhækkana á olíu og hráefnum, umfram það sem þegar er komið fram.

Sem fyrr segir liggja tækifærin þó ekki eingöngu í gröfnu plasti, heldur einnig í öðrum hráefnum, svo sem málmum. Þessi tækifæri hef ég reyndar áður minnst á í bloggfærslunni „Litlar gleymdar járnnámur í nafni fegurðarinnar“, sem birtist á gömlu bloggsíðunni minni 5. október 2007.

Verðmætin sem liggja í hverjum urðunarstað um sig eru mismunandi eftir aldri og eðli staðanna og þeirri menningu sem þeir eru sprottnir úr. Þannig liggur mikið af byggingarúrgangi grafið í sænskum urðunarstöðum frá 7. áratug síðustu aldar, því að um þær mundir var mikið byggt þar í landi. Annars staðar eru málmar mest áberandi og enn annars staðar er plastið í meirihluta. Svo geta menn auðvitað líka búist við að finna 60 ára gömul dagblöð innan um innyfli úr sauðfé, sem legið hafa óskemmd frá því á dögum síðari heimsstyrjaldarinnar. Því er eflaust ráðlegt að kynna sér söguna áður en námuvinnslan hefst af fullum krafti.

Ég get vel tekið undir með Chris Dow hjá Closed Loop London. Hann dregur verðmætin í urðunarstöðunum ekkert í efa, en er jafnframt argur yfir því að menn skuli vera tilbúnir að leggja milljónir sterlingspunda í fjárfestingar til að vinna verðmæti úr urðunarstöðum á meðan þeir urða enn sífellt meira plast á nýjum urðunarstöðum.

Þessi pistill er að mestu leyti byggður á þeirri frétt PlanetArk/Reuter, sem vísað er til í „Orðum dagsins“ í dag. Mér finnst við hæfi að ljúka pistlinum á þremur fallegum myndum sem ég hef tekið einhvers staðar á síðustu mánuðum og árum.

Úrgangur 3

Úrgangur 2

Úrgangur 1


Ókeypis sjálfvirk líkamsrækt vanmetin

Ég held að sú líkamsrækt sem maður getur fengið í daglega lífinu án kostnaðar eða sérstakra tilfæringa sé stórlega vanmetin. Þá á ég einkum við þá líkamsrækt sem felst í því að ganga eða hjóla í og úr vinnu. Þeir sem gera þetta næstum daglega komast í ágætis form án þess að taka eiginlega eftir því. Auk þess örvar þessi iðja hugann á leið í vinnu og hreinsar hann á leiðinni til baka.

Líkamsrækt þarf ekki að vera aðskilin frá öðru í lífinu. Hún getur sem best verið hluti af því.

Kannski væri fólk duglegra að hjóla og ganga ef það þyrfti að borga fyrir það, kaupa mánaðarkort til að mega ganga, eða eitthvað í þá veru.


LSD

Til eru tvær tegundir af LSD.

  • Önnur tegundin er ofskynjunarlyfið lýsergíðsýrudíetýlamíð (Lysergic acid diethylamide).
  • Hin tegundin er draumur sem verður svo stór að hann verður „LangStærsti Draumurinn“.

Þessar tvær tegundir af LSD eiga það sameiginlegt að þeim geta fylgt ofskynjanir, sem skapa mikla gleði og hættu í senn, og geta reyndar gert það að verkum að neytandinn verður ekki samur eftir að hann vaknar úr vímunni, ef hann þá vaknar.

Hér verður ekki rætt frekar um skaðsemi fyrri tegundarinnar, enda hafa henni oft verið gerð ítarleg skil á öðrum vettvangi. Sú tegund kom fyrst fram á sjónarsviðið 1938 og náði líklega einhvers konar hápunkti í lok 7. áratugs síðustu aldar. Síðarnefnda tegundin af LSD verður hins vegar gerð að umfjöllunarefni hér á eftir.

Almennt er talið hollt og nauðsynlegt að eiga sér drauma, hvort sem dagur er á eða nótt. Það er ekki fyrr en einhver draumur verður svo stór að hann ýtir öðrum draumum til hliðar, sem hættuástand skapast. Þá er draumurinn einmitt kominn á það stig að geta kallast LSD.

Tæplega er hægt að nefna neina eina ástæðu þess að draumur verður að LSD. Mikilvægur þáttur í því er þó þrá dreymandans eftir einhverju stærra, einhverju sem slær á grámósku hversdagsins og gefur fyrirheit um nýja tíma. Að því leyti er þessi gerð af LSD mjög svipuð hinni. Báðar snúast þær um leit að nýrri skynjun, sem er meiri og öðruvísi en sú sem skilningarvit neytandans eða dreymandans upplifa með venjulegum hætti.

Draumur sem er orðinn að LSD heltekur svo vitund þess sem dreymir, að honum fer að finnast allt annað léttvægt. Með öðrum orðum skapast ákveðið þráhyggjuástand. Aðrir draumar skjóta upp kollinum, en þeim er hafnað jafnóðum á þeim forsendum að þeir geti aldrei fært dreymandanum eins mikla sælu og LSD. Þetta getur komið sér mjög illa fyrir dreymandann, því að í þessum litlu draumum leynast oft farsælar lausnir á ýmsum þeim vandamálum sem að dreymandanum steðja. Í versta falli útrýmir LSD öllum þessum draumum og dreymandinn kemst í einhvers konar glýjukennt ástand þar sem aðeins eitt skiptir máli, fegurð hins smáa hverfur og fjölbreytileiki verður að blótsyrði.

Draumar vara ekki að eilífu. Að endingu rennur óhjákvæmilega upp sú stund að dreymandinn vaknar, þ.e.a.s. ef hann hefur ekki dáið í svefni. Þá er um tvo möguleika að ræða, hvort sem um venjulega draum er að ræða eða LSD. Annað hvort rætist draumurinn eða hann rætist ekki.

Venjulegur draumur sem rætist er dreymandanum yfirleitt til hagsbóta, bætir sem sagt stöðu hans eða líðan með einum eða öðrum hætti án aukaverkana. Venjulegur draumur sem rætist ekki er yfirleitt úr sögunni án þess að skaða dreymandann svo orð sé á gerandi. Venjulegur draumur er enda yfirleitt aðeins einn af mörgum slíkum og áhættan því ekki mikil þótt lítið verði úr. Dreymandinn er auk heldur opinn fyrir nýjum draumum þegar einum sleppir.

LSD sem rætist er dreymandanum líka til einhverra hagsbóta, en hefur undantekningarlaust verulegar aukaverkanir. Annars væri hann ekki LSD. Aukaverkanirnar geta tekið á sig ýmsar myndir og þær ganga undir ýmsum nöfnum. Meðal annars eru þær stundum kallaðar ruðningsáhrif, vegna þess að uppfylling LSD ryður úr vegi uppfyllingu smærri drauma, jafnvel frá öðrum dreymendum. Svo rammt getur kveðið að þessu, að uppfylling LSD ryðji úr vegi veruleika sem löngu er sprottinn upp úr gömlum draumum. Aukaverkanir geta líka birst í mjög lækkaðri Hackman vísitölu fyrir það svæði þar sem LSD var uppfylltur, en lág Hackman vísitala er vísbending um að atvinnulíf á svæðinu sé einhæfara en á einhverju stærra samanburðarsvæði, t.d. í landinu öllu.

LSD sem rætist ekki er afar skaðlegur fyrir dreymandann og þá sem gerðir dreymandans hafa helst áhrif á. Sem fyrr segir er LSD nefnilega þeirrar náttúru að hann útrýmir öðrum draumum, sem ella hefði sumir ræst. Þegar dreymandinn vaknar af LSD og áttar sig á að hann rætist ekki, er hann því í mun verri aðstöðu en þegar draumurinn hófst. Honum finnst hann hafa tapað nær öllu því sem máli skiptir og hefur hvorki burði né viljastyrk til að snúa sér að öðru fyrst um sinn. Hann hefur með öðrum orðum vaknað upp af vondum draumi og stendur eftir draumlaus, bæði búinn að tapa hluta af þeim veruleika sem hann lifði áður í og þeim smærri draumum sem áður vöktu honum von í brjósti.

Mörkin milli venjulegra drauma og LSD eru ekki alltaf skýr. Þess vegna er afar mikilvægt að átta sig tímanlega á því að tiltekinn draumur sé að nálgast það að verða LSD. Engin ein aðferð er örugg í því sambandi. Því er farsælast að beita ávallt varúðarreglunni, þ.e.a.s. að grípa strax til varnaraðgerða ef grunur vaknar um að draumurinn sé að nálgast þetta stig, jafnvel þótt ekki sé sannað að svo sé. Þau einkenni LSD sem lýst er hér að framan ættu að nýtast að einhverju marki sem aðvörunarljós hvað þetta varðar.
 
Rétt er að viðurkenna og undirstrika að vitanlega er ekki auðvelt að halda vöku sinni á meðan á draumum stendur. Því er enn brýnna en ella að fara með gát. Ef draumur nær að verða að LSD er ekki víst að neytandinn, eða í þessu tilfelli dreymandinn, verði nokkurn tímann samur.

Aths.: Rétt er að taka fram, að undirritaður er ekki upphafsmaður hugmyndarinnar um „LangStærsta Drauminn“. Þessi tegund af LSD hefur verið til umræðu a.m.k. frá því veturinn 1974-1975. Einnig er rétt að taka fram, að í þessum pistli er ekki vísað til einstakra drauma, heldur er einungis um almenn varnarorð að ræða. Hver sá, sem telur sig sjá hér líkindi við eigin draum á það við sjálfan sig.


Að fanga augnablikið

Síðustu daga hafa sést margar skemmtilegar myndir frá Ólympíuleikunum í Peking. Rakst á þessa á netinu í morgun. Þarna finnst mér ljósmyndaranum (Vladimir Rys/Getty Images) hafa tekist einkar vel að fanga augnablikið. Hvað haldiði til dæmis að þessir tveir menn séu að segja eða hugsa á því andartaki sem myndin er tekin? Verst að myndin er varla nógu lýsandi fyrir atburði gærdagsins. Wink

Augnablik í Peking
(http://en.beijing2008.cn/news/sports/headlines/handball/n214582177.shtml)


Nokkur orð um silfur

Gallinn við flokkaíþróttir, já og útsláttarkeppni yfirleitt, er að sá sem fær silfurverðlaunin tapar ævinlega síðustu viðureigninni.

En:  Til hamingju Ísland!  Wizard


mbl.is Íslendingar taka við silfrinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband