Leita í fréttum mbl.is

Eigi skal víkja

Ég hvet stjórnvöld til að láta mótmælaaðgerðir engin áhrif hafa á skattlagningu eldsneytis. En jafnframt hvet ég fjármála-, umhverfis- og samgönguráðuneytin til að leggja fram sem allra fyrst frumvörp til breytinga á gildandi lögum um skattlagningu ökutækja og eldsneytis, í framhaldi af tillögum starfshóps á vegum fjármálaráðuneytisins um þau mál. Þessi starfshópur skilar væntanlega af sér skýrslu á allra næstu dögum, ef hann hefur þá ekki þegar gert það.

Ég tel sem sagt að stjórnvöld eigi ekki að grípa til tímabundinna ráðstafana til að milda áhrif olíuverðshækkana. Bæði teldi ég tímasetninguna óheppilega með tilliti til þeirrar allsherjar uppstokkunar sem vonandi stendur til í framhaldi af vinnu fyrrnefnds starfshóps - og eins tel ég engar líkur á að olíuverð á heimsmarkaði lækki, nema þá stuttan tíma í senn. Verðþróunin til lengri tíma verður öll uppávið, og þess vegna er þess ekki að vænta að tímabundnar aðgerðir geti verið tímabundnar. Það er erfitt að afnema afslætti sem einu sinni er búið að koma á.

Auðvitað koma hækkanir á olíuverði sér mjög illa fyrir okkur öll, bæði flutningabílstjóra, aðra bílstjóra og annað fólk. Aðgerðir flutningabílstjóranna bitna mest á almenningi, sem hefur svo sem þjáðst nóg vegna olíuverðshækkana nú þegar, þó að óþarfir umferðarhnútar bætist ekki ofan á með tilheyrandi töfum og tjóni. Auk heldur fer verð á öðrum hráefnum líka hækkandi, þannig að olían er svo sem bara einn hluti af miklu stærra máli. Það væri svo sem allt eins hægt að efna til mótmæla vegna hækkana á korni, stáli, gúmmíi eða áburði, svo dæmi séu tekin. Víst er eldsneyti mjög skattlagt - og sama gildir jú um fleiri vörur - og víst er eitthvert flökt á genginu þessa dagana. En að öðru leyti eiga stjórnvöld á Íslandi enga sök á þeirri öldu hækkana sem við erum nú farin að finna fyrir. Grunnurinn að þessu öllu er lagður á markaði sem spannar allan heiminn - og á þeim markaði fer eftirspurn mjög vaxandi. Hvað olíuna varðar, er komið að þeim mörkum þar sem eftirspurnin fer fram úr framboðinu. Sú þróun mun ekki snúa við, þó að minni háttar sveiflur verði auðvitað hér eftir sem hingað til í takt við það hversu friðvænlega horfir á tilteknum svæðum, hvaða ákvarðanir eru teknar innan OPEC og hverjir eru kosnir til forystu í voldugustu ríkjum heimsins.

Ég veit að ég er boðberi slæmra tíðinda. Við stöðvum ekki þessa framrás, en við getum gert margt til að aðlagast henni og draga úr skaðanum sem hún veldur okkur. Ég tel farsælast að einhenda sér í það verkefni. Heildarendurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis er liður í því, ekki í fljótræði heldur á grundvelli vel yfirvegaðra tillagna. Nýtt fyrirkomulag á skattlagningu hlýtur að hafa það að markmiði að hvetja til olíusparnaðar og auðvelda skipti yfir í aðra orkugjafa. Þess vegna hlýtur líka skattlagningin að taka öðru fremur mið af kolefnainnihaldi og uppruna eldsneytis, þannig að dregið verði eftir megni úr losun gróðurhúsalofttegunda um leið og reynt er að gera hagkerfið óháðara þrjótandi olíuauðlindum en nú er. Byggðaþátturinn í þessu öllu saman er líka afar stórt mál sem þarf að skoða sérstaklega!


mbl.is Vegi lokað við Rauðavatn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón  Benediktsson

Hér eru verðin á einum lítra 95 OKT bensíns í Evrópu. Hættum þessu væli og þetta er allt rétt  hjá Stefáni. Hættum þessari bílaást og vitum að það kostar að aka um á jarðeldsneyti. Áv sama tíma má ekki nota umhverfisvæna endunýjanlega orku í landinu!

Romania

1.00

Bulgaria 1.01 Cyprus 1.03 Lithuania 1.03 Latvia 1.04 Estonia 1.05 Slovenia 1.06 Malta 1.09 Greece 1.12 Spain 1.13 Hungary 1.16 Ireland 1.17 Luxembourg 1.19 Slovakia 1.21 Poland 1.22 Czech Rep. 1.23 Austria 1.25 Sweden 1.30 United Kingdom 1.35 France 1.37 Danmark 1.38 Italy 1.39 Portugal 1.39 Finland 1.41 Germany 1.43 Belgium 1.44 Netherlands 1.51

Sigurjón Benediktsson, 29.3.2008 kl. 10:10

2 identicon

Kæru vinir.

Það er bara verið að fafa fram á að olíufélögin séu jafn snögg að fylgja niðursveiflum á heimsmarkaði og uppsveiflum, á því er mikill misbrestur því miður, og mér þykir sárt að sjá Stefán Gíslason þann mæta mann verja gerðir Olíufélaga á Íslandi.

Kristján Einarsson (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 16:59

3 Smámynd: Stefán Gíslason

Ég þóttist nú vera að verja aðgerðir eða kannski öllu heldur aðgerðaleysi stjórnvalda fremur en gerðir olíufélaganna.

Stefán Gíslason, 29.3.2008 kl. 17:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband