Leita í fréttum mbl.is

Kynslóðaskipti í sportinu

Í dag urðu kynslóðaskipti hjá íþróttamönnunum í fjölskyldunni. Ég varð að játa mig gjörsigraðan fyrir barninu mínu í hálfmaraþonhlaupi (21,1 km) á Akureyri. Barnið rann skeiðið á 1:35:53 klst. og ég á 1:38:18 klst. Reyndar var hvorki vegalengdin né tíminn alveg rétt mælt, en það er aukaatriði, við hlupum alla vega báðir jafn langt og vorum mislengi að því. En ég get nú skrifað svona í trúnaði, að ég var ekkert mjög sár yfir þessum úrslitum, eiginlega bara býsna glaður. Og reyndar hefur hann oft unnið mig áður í keppnishlaupum, bara aldrei áður svona löngu. Síðast reyndum við með okkur í hálfu maraþoni þegar hann var 16 ára og þá hafði ég betur. En síðan eru liðin 7 ár.

Eða ætti ég kannski að vera spældur? Ég æfi sko miklu meira, svona um það bil annan hvorn dag að meðaltali, en hann bara einu sinni í viku. Og svo hef ég miklu meiri reynslu. Hlaupið í dag var t.d. 7. hálfmaraþonið mitt en bara nr. 2 hjá honum. Reyndar hef ég SVO mikla reynslu, að ég hljóp hálft maraþon í fyrsta sinn árið sem umrætt barn fæddist. Síðan hefur barninu einfaldlega farið meira fram en mér. Samt hefur mér farið heilmikið fram, hleyp t.d. hálft maraþon um þessar mundir á 6 mín. betri tíma en ég gerði fyrir 23 árum. Með sama áframhaldi verð ég kominn í fremstu röð á Íslandi þegar ég verð 143 ára.

Við feðgarnir hlupum fyrst saman í almenningshlaupi 14. júní 1995 þegar Þorkell var nýorðinn 10 ára. Það var minimaraþon í Reykjavík á vegum ÍR, nánar tiltekið 1/10 af maraþonhlaupi, eða 4,2195 km. Þessu lukum við á 21:09 mín., sem er nú bara býsna góður tími. Hann var þá í 14. sæti af um 40 hlaupurum - og ég í því 15. Í dag var hann í 7. sæti af 23 hlaupurum og ég í því 8.

Boðskapur sögunnar er þessi: Það eru forréttindi að geta hlaupið með börnunum sínum, hvort sem þau eru tíu ára eða tuttuguogþriggja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fríða

jahá.  1:38.  Það er góður tími.  Til hamingju með það.  Að maður tali nú ekki um að þetta jafngildi 1:36 ef við tökum tillit til skekkju í vegalengdarmælingu og hugsanlega tímatöku.

Ef ég vildi vera vísindaleg núna myndi ég finna einhverja grein til að vitna í og segja að ungir karlmenn séu með langmest af þessum þarna hormónum sem hjálpa til við uppbyggingu vöðva... já, og gamlar konur minnst.  Þú æfir minnst tvöfalt á við hann og nærð ekki sama árangri samt, hvað má ég þá segja, gömul kona sem þarf að hlaupa á hverjum degi bara til að geta yfirleitt lagt alla þessa kílómetra að baki?  Tölum ekki um hraða í því sambandi.  Hehe.  Nei, það er ekki það sem skiptir máli.  Maður á bara að miða við sjálfan sig og ég væri alveg hæstánægð með að börnin mín yrðu öll á undan mér.  Ja... ef 14 ára sonur minn nennti að hlaupa meira svona eins og þrjá kílómetra tvisvar í mánuði, þá er ég nú hrædd um að hann næði mér fljótt.  Hann allavega finnur mun strax, bara við að fara sömu vegalengd tvisvar í sömu vikunni.  Kannski það sé bara ágætt að hafa aldrei verið ungur maður og fundið hvað íþróttaæfingar geta fljótt skilað miklum árangri.  

Fríða, 22.6.2008 kl. 00:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband