Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Hér skilur leiðir

hér skilur leiðir
hurð fellur að stöfum
og ég
- úti -
með sorg í huga
á leið í nýja óvissu


mbl.is Davíð og Haraldur ritstjórar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danmörk er land ársins!

Ø-mærketÍ framhaldi af pistli mínum í gær um notkun varnarefna í dönskum landbúnaði, finnst mér ástæða til að geta þess sérstaklega, að Danmörk er land ársins 2009 í lífrænni framleiðslu. Þetta var ákveðið á kaupstefnunni Biofach í Nürnberg í fyrra, enda er Danmörk eitt af þeim löndum sem lengst eru komin í ræktun og markaðssetningu á lífrænum afurðum. Tölurnar sem ég nefndi í gær eru meðaltöl, en efni af því tagi sem þar voru til umræðu eru hvergi notuð í lífrænni ræktun. Því fer sem sagt fjarri að allir danskir bændur úði akrana sína með eitri þrisvar á ári!

Hin árlega Biofach-kaupstefna í Nürnberg er stærsta kaupstefna í heimi þar sem lífræn framleiðsla er í aðalhlutverki. Á hverju ári er ákveðið þar hvaða land skuli vera land ársins á komandi ári. Viðkomandi land fær síðan sérstaka kynningu á næstu kaupstefnu. Þannig var dönskum vörum hampað sérstaklega á kaupstefnunni síðasta vetur, en þar sýndu um 2.750 aðilar samtals um 8.900 mismunandi vörur.

Nú eru rúmlega 160.000 hektarar af ræktunarlandi í Danmörku vottaðir fyrir lífræna framleiðslu, eða um 6% af öllu þarlendu landbúnaðarlandi. Örfá lönd eru komin lengra á þessari braut. Hérlendis er hlutfallið líklega nálægt 1%.

Nánari upplýsingar um þetta allt saman er m.a. að finna á eftirtöldum slóðum:
Orð dagsins 26. febrúar 2008
Matvælastofnun Danmerkur
Organic-world.net


Á að banna bönn?

Stundum dettur mér í hug að sumir haldi að regluverkið okkar sé einhver gjöf frá goðunum, sem ekki megi hrófla við. Hverju reiddust þá goðin þegar það regluverk brast á sem vér nú vinnum eftir? Í því regluverki eru nefnilega alls konar bönn! Eru ný bönn þá bannaðri en gömul bönn? Eða ætti kannski að banna öll bönn?

Reykingar eru mjög sérstakt fyrirbæri frá félagshagfræðilegu sjónarmiði, vegna þess hversu mörgum dauðsföllum þær valda og hversu dýrar þær eru fyrir heilbrigðiskerfið. Varla er hægt að finna neinn annan ámótastóran lífsstílstengdan vanda, a.m.k. ekki hérlendis. Þess vegna er eðlilegt að menn beini sjónum sínum að reykingum í þessu sambandi.

Þeir sem reykja gera það gegn betri vitund, eða með öðrum orðum vitandi það að með reykingunum auka þeir líkurnar á heilsutjóni, ótímabærum dauða og háum kostnaði fyrir samfélagið. Eiga hinir að samþykkja það orðalaust að þessum kostnaði sé velt yfir á þá, eins fyrirsjáanlegur og hann er?

Við þurfum sífellt að velta því fyrir okkur á gagnrýninn hátt til hvers við viljum nota sameiginlega sjóði okkar. Þeir eru jú ekki óþrjótandi, allra síst nú um stundir. Viljum við t.d. nota þá til að greiða kostnað sem reykingamenn valda okkur vísvitandi?

Það eru til fleiri leiðir en boð og bönn. Ein leiðin er að skilgreina kostnað heilbrigðiskerfisins vegna reykinga og sjá svo til þess að skattlagning tóbaks dugi til að standa undir þeim kostnaði. Þar með sætu reykingamenn sem hópur einir uppi með reikninginn. Þarna þarf að beita fremur flóknum reiknikúnstum, en sjálfsagt er þessi leið alveg fær. Bann við sölu tóbaks er þó líklega einfaldara í framkvæmd, þó að banni fylgi eflaust alltaf smygl, svartamarkaðsbrask og aðrar aukaverkanir.

Reykingafólk er upp til hópa vænsta fólk, rétt eins og annað fólk. En ég er frekar mótfallinn því að það fái óhindrað að velta þeim sértæka kostnaði sem það veldur samfélaginu með hegðun sinni, yfir á hina sem ekki reykja. Valið ætti ekki að standa á milli reykleysis og niðurgreiddra reykinga í boði samfélagsins, heldur á milli reykleysis og reykinga með öllum þeim kostnaði sem þeim fylgir. Það væri líka í samræmi við mengunarbótaregluna (e. Polluter Pays Principle).


mbl.is Heimdallur andvígur sölubanni á tóbaki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaðan kemur maturinn?

pesticidspray_tekstÞað er gaman að lesa skemmtilegar bækur. Þess vegna tók ég mér smástund áðan til að fletta einni slíkri, nánar tiltekið bókinni Bekæmpelsesmiddelstatistik 2008, sem Umhverfisstofnun Danmerkur (d: Miljøstyrelsen) gaf út á dögunum. Þar kemur fram að Danir voru duglegir að úða akrana sína með eitri í fyrra. Heildarnotkun varnarefna í dönskum landbúnaði var sem sagt rétt tæplega 4.000 tonn á árinu 2008. Svoleiðis tala segir náttúrulega ekkert ein og sér, en þarna var um að ræða 20% aukingu frá fyrra ári, en árin þar á undan hafði efnanotkunin bara verið á hægri uppleið. Til að setja þetta í annað samhengi, þá samsvaraði notkunin 2008 rúmum 0,7 kílóum á hvert danskt mannsbarn.

Ég ætla ekkert að fara að endursegja alla bókina hér, enda vil ég ekki eyðileggja ánægju annara af því að lesa hana. Ég ætla samt að upplýsa, að Danirnir nota þó nokkuð margar gerðir af varnarefnum í herferðum sínum gegn illgresi og óværu. Alla vega komust 190 mismunandi efni (talið í virkum innihaldsefnum) við sögu hvað þetta varðar á árinu 2008. Ég nenni ekki að telja þau öllu upp, en ætla að smella hérna inn töflu sem sýnir þau 10 vinsælustu í heilum tonnum talið - með dönskum rithætti. Læt hin 180 liggja milli hluta:

EFNITonn
glyphosat1.562
prosulfocarb580
mancozeb521
chlormequat-chlorid296
pendimethalin167
MCPA129
cupricarbonat basisk101
boscalid85
metamitron58
epoxiconazol50


Þessi efni eru til margra hluta nytsamleg. Þannig eru glyphosat, prosulfocarb, pendimethalin og MCPA öll notuð til að eyða illgresi. Chlormequat er hins vegar notað til að stjórna vexti plantna, og mancozep og epoxiconazol eru sveppaeitur. Skordýraeitur kemst hins vegar ekki á topp-10 listann. Í þeim flokki voru Tau-fluvalinat og cypermethrin vinsælust, en á árinu 2008 seldust rétt rúm 9 tonn af hvoru efni í Danmörku.

En hví er ég að skrifa um þetta? Jú, mér finnst umhugsunarefni hversu gríðarlega mikið af eiturefnum er notað í landbúnaði víða um heim. Danir eru reyndar eftir því sem ég best veit algjörir smákarlar í þessum efnum. Bændur í sunnanverðri Evrópu hafa a.m.k. verið taldir mun stórtækari. Í Danmörku var hver blettur ræktunarlands úðaður með varnarefnum að meðaltali rúmlega þrisvar árið 2008 (26% aukning frá árinu áður), en það þykir víst næsta lítið víða annars staðar.

Varnarefnin skila sér aðeins í litlum mæli á diskinn minn þegar ég borða afurðir af þessum velúðuðu ökrum. En það þarf þokkalega mikla orku til að framleiða allt þetta efnasull, flytja það á milli staða og koma því á akurinn. Svo hefur þetta náttúrulega sín áhrif á lífríkið, bæði það lífríki sem því er ætlað að hafa áhrif á og annað. Mikið af þessu brotnar fljótt niður, en annað safnast kannski einhvers staðar upp, svo sem í lífverum eða grunnvatni.

veljum_islensktÁlyktun þessa pistils er: Veljum íslenskt! Hérlendis eru notkun varnarefna í landbúnaði algjörlega hverfandi!

Þeir sem vilja lesa þessa umræddu bók geta nálgast hana á http://www.mst.dk/NR/rdonlyres/537262CB-C471-4596-A498-8EB2F9530AA6/0/Bekæmpelsesmiddelstatistik2008.pdf. Svo er líka ágæt samantekt á heimasíðu dönsku upplýsingamiðstöðvarinnar um umhverfi og heilsu, nánar tiltekið á http://www.miljoeogsundhed.dk/default.aspx?node=6610. Þar fékk ég „lánaða“ myndina sem fylgir þessari færslu.

„Bon appetit“


Rigningarvísa

Núna rignir næstum allt í klessu
og Norðurmýrin fer á bólakaf.
Er það góður Guð sem stjórnar þessu?
Getur 'ann ekki lært að slappa af?


Viðskiptatækifæri fyrir Íslandspóst og Nepal?

Við fyrstu sýn virðist mér fréttin um komu Ollie Rehn gefa fyrirheit um viðskiptatækifæri fyrir íslensk fyrirtæki í fjarskiptum og skyldum greinum. Ég sé nefnilega ekki betur en Evrópusambandið sé komið mun skemmra í því en við að nota nútímatækni á borð við póstsendingar, svo ekki sé nú talað um tölvupóst. Því virðist mér einsýnt að Íslandspóstur bjóði Ollie þjónustu sína við að koma pappírum á milli landa. Jafnframt gæti Nepal í Borgarnesi, eða eitthvert annað fyrirtæki sem hefur sérhæft sig í hugbúnaðargerð og tölvusamskiptum, boðið honum snjallar lausnir sem gera það mögulegt að senda gögn með tölvupósti heimshorna á milli.

Eða tók Ollie kannski of djúpt í árinni þegar hann sagði að megintilgangurinn með heimsókn sinni hafi verið að afhenda stjórnvöldum spurningalista?


mbl.is Olli Rehn afhendir spurningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bitruháls 11. september: Fjallvegahlaup nr. 16

Eins og margir vita á ég það til að hlaupa yfir fjallvegi mér til skemmtunar. Þetta áhugamál fékk ég í fimmtugsafmælisgjöf frá sjálfum mér fyrir rúmum tveimur árum. Gjöfinni fylgdi sá þríþætti tilgangur að kynnast eigin landi, halda mér í þokkalegu standi á sextugsaldrinum og hvetja aðra til heilnæmrar útivistar. Föstudaginn 11. september nk. kl. 16.00 ætla ég að hlaupa 16. fjallveginn (af 50) í þessum afmælispakka. Að þessu sinni liggur leiðin yfir Bitruháls á Ströndum um svonefndan Fjarðarhornssneiðing, frá Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði að æskuheimili mínu að Gröf í Bitru. Öllum er velkomið að slást í hópinn, en gott væri þó að frétta af slíkum áformum fyrirfram.

Þessi leið yfir Bitruháls er um það bil 10-11 km, en lágmarksvegalengd fjallvega í afmælispakkanum er 10 km. Hækkunin er í þessu tilviki eitthvað um 400 m. Undirlagið er þokkalegt, að mestu gamall hestavegur. Þarna yfir lá þjóðleið fyrr á árum, og sömuleiðis hefðbundin leið landpósta ef mér skjátlast ekki. Leiðin er merkt inn á gönguleiðakort af Vestfjörðum.

Þeir sem vilja kynna sér fjallvegahlaupin mín nánar geta litið við á síðunni www.fjallvegahlaup.is, sem er reyndar ennþá bara bráðabirgðasíða. Þar eru líka upplýsingar um símanúmer og netfang, fyrir þá sem vilja ræða þetta eitthvað frekar við mig.
Smile


Eru Excelreitirnir að klárast?

Það setur að mér einhvern trega þegar ég les að nú eigi kannski að fara að breyta nafni Eimskipafélags Íslands í A1988. Þessi tregi tengist því sjálfsagt að þetta félag var á sínum tíma óskabarn þjóðarinnar, og afi minn, sem var fátækur bóndi norður á Ströndum, fæddur árið 1866, eignaðist hlut í félaginu þegar það var stofnað.

En sjálfsagt dugar ekki að gleyma sér í tilfinningasemi og fortíðarfíkn. Ein spurning sækir þó á hugann: Þarf ekki að fara að friða Excel fyrir ásókn kennitöluflakkara? Mér sýnist á fyrirhuguðu nafni þessa rótgróna félags að reitirnir í Exceltöflunni séu hreinlega að ganga til þurrðar!

excel2007


mbl.is Nafni Eimskips verði breytt í A1988
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband