Leita í fréttum mbl.is

Nú tókst það, 42:32

Í gær reyndi ég öðru sinni á stuttum tíma að hlaupa 10 km undir 43:27 mín, en eins og alþjóð veit hefur það verið mitt æðsta takmark síðasta árið, þ.e.a.s. allt frá því að Pétur Pétursson minnti mig á að hann hefði hlaupið 10 km á umræddum tíma eftir fimmtugt, um leið og hann lét að því liggja að ég hlyti nú að geta gert betur. Í gær keyrði ég sem sagt austur á Selfossi í þessum tilgangi einum. Er skemmst frá því að segja að ég kláraði 10 kílómetrana á 42:32 mín og get því frá og með deginum í dag snúið mér að enn nýrri og enn meira krefjandi áskorunum í lífinu („mot nya djärva mål“ eins og það heitir á sænsku).

Tíminn minn á Selfossi í gær var ekki bara minn besti eftir fimmtugt, heldur sá þriðji besti frá upphafi. Besta tímanum, 36:55 mín, náði ég á ofanverðri síðustu öld, þegar Barack Obama var nýorðinn 13 ára. Svo hljóp ég á 41:00 mín í júlí 1996 meðan ég var enn sveitarstjóri á Hólmavík. Tíminn í gær var sem sagt besti tíminn síðan fyrir aldamót. Þetta var annars 16. tíu kílómetra keppnishlaupið mitt, þar af það 9. á öldinni. Ó, er ekki tölfræðin dásamleg?

Brúarhlaupið í gær var þreytt við bestu aðstæður, nokkurn veginn þurrt veður, sunnan golu og nokkur hlýindi miðað við árstíma. Og svei mér þá ef 7x7 km áætlunin, sem ég upplýsti um hérna um daginn, hefur ekki bara skilað einhverju. Já, og til að bæta aðeins við þær bráðnauðsynlegu tölfræðilegu upplýsingar sem ég hef þegar rakið, þá voru fyrri 5 km í gær á 21:27 mín og þeir síðari á 21:05 mín. Þetta nefnist öfugt splitt á góðri íslensku, og þykir einkar skemmtilegt.

Þorkell frumburður fylgdi mér til Selfoss. Hann ætlaði að hlaupa 5 km. Það gekk vel þangað til honum var vísað inn á leiðina sem 2,5 km hlaupararnir áttu að hlaupa. Hann varð í 2. sæti í því hlaupi, sem var náttúrulega algjört óviljaverk. Honum þótti hlaupið eðlilega nokkuð endasleppt og fann því 5 km leiðina og lauk við hana, en varð aftarlega í röðinni því að 2,5 km hringurinn tafði hann auðvitað aðeins. Þetta var frekar fyndið, en fyrst og fremst ágætis æfing. Ég mæli sérstaklega með þessu við alla sem vilja ná árangri í hlaupum, nefnilega að skrá sig í eina vegalengd og hlaupa hana og kannski eina eða tvær aðrar líka, svona rétt upp á félagsskapinn.

PS1: Þið getið náttúrulega alveg skoðað tiltekna mynd á hlaup.is ef þið viljið sjá mig tapa fyrir Hafsteini Viktorssyni á endasprettinum í gær. Hann átti sko nóg eftir drengurinn.

PS2: Næsta stóra áskorunin í lífinu er Gaflfellsheiðin á fimmtudaginn. Meira um það á www.fjallvegahlaup.is.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fríða

Vaaá!  Til hamingju :)  Þetta gat hann. 

Það hlýtur að vera af því hann er búinn að vera að stilla sig á fullu um að tala um einhvern sextugsaldur.

En hvaða markmið eru þá á döfinni? 

Fríða, 8.9.2008 kl. 21:12

2 Smámynd: Fríða

hmmm... ég kann alveg að lesa reyndar, en það er ekki þar með sagt að ég lesi alltaf allt sem er fyrir framan augun á mér.  Gaflfellsheiðin?  Er það áskorun?  Þú ætlar vonandi ekki að fara að setja einhver hraðamet þar?

Fríða, 8.9.2008 kl. 21:14

3 Smámynd: Stefán Gíslason

Takk!  Og, nei, ég ætla sko ekkert að fara að æsa mig á Gaflfellsheiðinni. Varð bara að nefna einhverja áskorun til að láta færsluna líta vel út.

Stefán Gíslason, 8.9.2008 kl. 21:31

4 Smámynd: Fríða

:) jú, þetta lítur mjög vel út svona..  og fjúff :)

Fríða, 8.9.2008 kl. 21:35

5 identicon

Gott hjá þér Stefán. Það hefur verið tekið á því.

Gunnlaugur (IP-tala skráð) 9.9.2008 kl. 13:38

6 Smámynd: Stefán Gíslason

Takk Gunnlaugur! Jú, þetta var „þaulskipulagt“; út á 4:15 og reyna að hanga á því sem lengst. Það hélt alla leiðina, með 2 sek. skekkju samanlagt.

Stefán Gíslason, 9.9.2008 kl. 16:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband