Leita í fréttum mbl.is

Afmælishlaup á Gaflfellsheiði

Í dag hefði pabbi minn, hann Gísli í Gröf, orðið 100 ára. Í tilefni af því hljóp ég við fjórða mann yfir Gaflfellsheiði; frá Ljárskógum í Dölum að Brunngili í Bitrufirði og áfram niður að fjarðarbotninum. Pabbi fæddist nefnilega á Brunngili og hljóp mörg fyrstu skrefin sín í Brunngilsdal. Um leið var þetta 7. fjallvegahlaupið mitt á árinu og það tíunda alls, þannig að nú á ég bara eftir að nýta mér 40 af þeim 50 fjallvegum sem ég gaf mér í afmælisgjöf í fyrra.

Hlaupaleið dagsins var löng, nánar tiltekið 38,15 km. Það hefði svo sem ekki verið svo ýkja mikið, nema vegna þess að norðanáttin blés í fangið á okkur allan tímann, með vindhraða upp á 10-15 m/sek, og uppi á heiðinni var líka alldimm þoka og súld, en síðan rigning. Þess vegna var þetta með erfiðustu hlaupum.

Við fjórða mann, sagði ég. Við vorum reyndar fleiri, því að Rögnvaldur bróðir minn, bóndi í Gröf, stikaði líka leiðina frá smalakofa Laxdæla sunnanvert í heiðinni og norður að Brunngili. Það voru rúmir 17 km. Þar að auki gengu eldri systkini mín, Björg og Hallgrímur, 14 km leið frá Brunngili út að Hvítarhlíð og þaðan fram að Gröf, en á þessum þremur bæjum ól pabbi allan sinn aldur, öll sín rúmlega 90 ár, að frátöldum þeim tímum sem hann var fjarvistum við smíðar.

Með mér í för alla leiðina voru tveir bændur af Ströndum og einn sálfræðingur frá Akureyri, nánar tiltekið skíðagöngukapparnir Birkir Stefánsson í Tröllatungu og Ragnar Bragason á Heydalsá - og maraþonhlauparinn Arnfríður Kjartansdóttir á Akureyri.

Gaflfellsh 003web
Við afleggjarann að Ljárskógum kl. 11.15 í morgun. Norðanvindurinn var strax farinn að gefa vísbendingar um hvað hann ætlaði sér. F.v.: Rögnvaldur, Arnfríður, Ragnar, Birkir, Stefán. (Sigríður Drífa Þórólfsdóttir tók myndina)

Frá Ljárskógum að Ljárskógaseli er greiðfær vegur og þaðan jeppaslóð framundir leitarkofa Laxdæla á Hvanneyrum. Að kofanum eru um 17,3 km neðan af aðalveginum við Ljárskóga. Þessi spölur var viðráðanlegur og umhverfið fagurt, áin Fáskrúð á vinstri hönd og hinum megin grónir lyngmóar svo langt sem augað eygði. Svo bar margt fleira fyrir augu.

Gaflfellsh 007web
Birkir, Arnfríður og Ragnar á fullri ferð upp með Fáskrúð, á leið upp í Ljárskógasel.

Gaflfellsh 008web
Í tilefni dagsins hafði einn veiðistaðurinn í ánni Fáskrúð fengið þetta skemmtilega nafn!

Gaflfellsh 011web
Hér má sjá bæjarrústirnar í Ljárskógaseli í baksýn. Þar sleit Jóhannes úr Kötlum barnsskónum.

Gaflfellsh 013web
Á sama stað, næstum sama fólk.

Gaflfellsh 018web
Teygjuæfingar við leitarmannakofann á Hvanneyrum.

Frá Hvanneyrum er enginn vegarslóði lengra inn í heiðina. Þar gerðist því undirlagið erfiðara til hlaupa, og norðanvindurinn sló ekki slöku við. Næstu 12 kílómetrar voru eiginlega bara virkilega erfiðir og meira um göngu en hlaup. Eftir því sem ofar dró þéttist líka þokan. Þá kom GPS-hlaupaúrið í góðar þarfir því annars hefði þessi hluti leiðarinnar verið torrataður.

Gaflfellsh 027web
Leitarmannakofinn að baki og búið að vaða Stikukvísl. Erfiðasti hluti leiðarinnar framundan. Fríða í forystu og Birkir og Ragnar í humátt á eftir.

Loks voru þessir erfiðustu 12 kílómetrar að baki, þokunni aðeins tekið að létta og við allt í einu komin fram á brún Heiðagilsins, sem leiddi okkur auðveldlega niður brekkurnar niður í Brunngilsdal. Þar náðum við Rögnvaldi göngumanni og vorum fegin að komast niður á jafnsléttu. Vorum sammála um að heiðin væri miklu hærri að sunnanverðu en að norðanverðu. Neðar í dalnum lá leiðin um hlaðið á eyðibýlinu Brunngili á æskuslóðum pabba. Þar stendur enn listilega hlaðinn grjótgarður eftir Jón Jónsson langafa minn, töluvert mannvirki sem staðist hefur veður og vinda í ein 130 ár eða svo. Útveggir íbúðarhússins á Brunngili standa uppi, en það var byggt um 1930, eftir að pabbi hleypti heimdraganum og gerðist lærisveinn hjá Guðjóni snikkara á Hólmavík. 

Gaflfellsh 032web
Þreyttir hlauparar á hlaðinu á Brunngili.

Þegar við vorum komin niður að Brunngili var ekkert eftir nema klára hlaupið, bara svona mest formsatriði eiginlega, enda ekki nema 4,5 km niður á veg. Þegar þangað var komið sýndi mælirinn sem sagt 38,15 km. Þetta hafði tekið tímann sinn í mótvindinum, nefnilega 5:40 klst. og meðalhraðinn 6,73 km/klst. Ekki við meiru að búast við þessar aðstæður. En mikið er nú gaman að takast á við áskoranir og sigrast á þeim, þó að maður sé blautur og vindbarinn þegar upp er staðið. Eiginlega er bara betra að vera svolítið lerkaður, því að þá finnur maður að maður hefur lagt eitthvað á sig og staðist það.

Gaflfellsh 046web
Við botn Bitrufjarðar að hlaupi loknu. Þreyta og gleði skín úr hverju andliti. Smile

Það er ekki hægt að botna þennan pistil án þess að minnast á þær frábæru veitingar sem biðu okkar í eldhúsinu í Gröf þegar þangað var komið. Takk Arnheiður!

Gaflfellsheiði Google Earthweb
"Sjáið fjallið, þarna fór ég". Svona lítur hlaupaleið dagsins út á Google Earth, úr Hvammsfirði í Dölum norður að Brunngili. Arnfríður á allan heiðurinn af þessari mynd, í samvinnu við Google sjálfan náttúrulega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fríða

Það eru ótal hlutir sem mig langar til að segja.  En læt bara nægja að segja takk fyrir daginn, þetta var frábært og ég er ennþá á þeirri skoðun að ég hafi aldrei fengið betri súpu en þessa sem við fengum hjá Arnheiði.  Takk Arnheiður ef þú lest þetta :)

Fríða, 12.9.2008 kl. 00:01

2 Smámynd: Guðrún Vala Elísdóttir

Föðurafi minn og amma bjuggu í Ljárskógarseli, þau voru í tví- eða sambýli með Halldóru og Jónasi foreldrum Jóhannesar.  Halldóra tók á móti föðursystur minni því ljósan komst ekki í tæka tíð.  Pabbi minn er yngstur og fjölskyldan var flutt inn í Laxárdal þegar hann fæddist.  Ekki var talið ráðlegt að einungis ein fjölskylda byggi í selinu þar sem það þótti of afskekkt ef eitthvað út af bæri.  Ég hef einhverjar smátaugar til Ljárskógasels þó að Dalamennskan sé nánast horfin úr mér.

Guðrún Vala Elísdóttir, 18.9.2008 kl. 22:31

3 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Glæsilegt....maður tekur ofan fyrir slíkri elju

Jón Ingi Cæsarsson, 19.9.2008 kl. 15:54

4 Smámynd: Stefán Gíslason

Takk fyrir Jón Ingi!

Guðrún Vala. Kannski hefur afi minn komið við hjá afa þínum áður en hann lagði á Gaflfellsheiðina með varning á bakinu forðum daga. Það er reyndar töluverður hluti af upplifuninni í þessum fjallvegahlaupum að velta fyrir sér sögu bæjarrústa, því að þar bjó fólk sem gladdist, syrgði, hlakkaði til vorsins og kveið haustinu - rétt eins og maður sjálfur. En svona þar fyrir utan vissi ég ekki fyrr en núna að Ragnar Þorsteinsson hefði verið föðurbróðir þinn. Hann kenndi mér ensku í Reykjaskóla forðum daga - og tók okkur alltaf upp í stafrófsröð.

Stefán Gíslason, 19.9.2008 kl. 17:58

5 identicon

Þetta hefur verið gaman Stefán þótt það hafi veroð erfitt og til hamingju með hundrað ára árstíð pabba þíns. Kannski maður reyni að slást í för með þér einhvern tíma á næsta ári. Svona ferðir eru gott krydd í tilveruna.

Gunnlaugur (IP-tala skráð) 20.9.2008 kl. 00:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband