Leita í fréttum mbl.is

Út að hlaupa - í gömlum skóm

Brá mér í gömlu Laugavegsskóna í kvöld af því að ég ætlaði að hlaupa keðjulaus í hálkunni, og þessir gömlu skór hafa svo ótrúlega gott grip. Gafst samt fljótlega upp á að fóta mig og endaði með því að hlaupa 39 hringi niðri á íþróttavelli og svo heim aftur.

Ég játa það hér og nú að ég á 4 pör af hlaupaskóm, sem enn eru í notkun, enda sagði stúlka sem afgreiddi mig í skóbúð í fyrra, að ég væri eins og versta kona, hvað sem það þýðir nú annars. Þrátt fyrir þetta mikla skósafn tel ég mig ekki vera neitt sjúklega veikan fyrir hlaupaskóm. Almennt er nefnilega talið að svoleiðis skór endist ekki með góðu móti í meira en 600-800 km. Þá fari dempunin í sólunum að gefa sig, þó að útlitið gefi fátt til kynna. Þrjú af þessum fjórum skópörum mínum eru komin yfir 800 km markið. En mér finnst svo sem í lagi að nota þá áfram meðan ég finn hvergi til. Vil náttúrulega nýta þá sem best - af einskærri nísku og með tilliti til umhverfissjónarmiða.

Það kann að hljóma undarlega fyrir þá sem ekki eru hlaupanördar, að menn skrái ævisögur skónna sinna. En þetta er sko ekkert minna mikilvægt en að vita hvað bíllinn manns er mikið keyrður. Ég ætla að hlífa lesendum við stærstum hluta þess fróðleiks sem ég bý yfir um eigin skó, en tel þó nauðsynlegt að nefna, að gömlu Laugavegsskórnir sem ég hljóp á í kvöld eru skráðir með 988 km, þar á meðal rúman hring í kringum Mývatn, hálfan Laugaveg (frá Landmannalaugum að Bláfjallakvísl), Sópandaskarð, Rauðskörð, Hólsskarð og fjórar smalamennskur á Ströndum. Næst þegar ég nota þá fara þeir kannski í þúsundið. Ætli maður slái ekki upp veislu? Það hefur nú oft verið gert af minna tilefni.
LoL


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fríða

já, maður er alltaf að heyra þetta með dempunina, en ætti maður ekki að finna fyrir því einhversstaðar?  Ég slít skóm mjög jafnt undir sólanum, þannig að þeir verða ekki skakkir og ég blæs nú bara á þetta með að maður eigi að nota þá eitthvað stutt.  :) ég hlýt líka að vera eins og versta kona, ég er með fjögur pör í notkun.  Er þó lang mest á tveimur þeirra.  En ég er ekki svo mikill nörd að ég skrái hvað þeir fara langt.  Ég bara veit það svona sirka út frá hvað ég hef hlaupið langt síðan ég t.d. fékk síðustu skó og hvað ég hef sirka verið mikið á öðrum skóm.  Hmm.. þá eru uppáhaldsskórnir mínir komnir langt yfir 1000 kílómetra.  Það hlýtur að vera skýringin á því hvað ég er eitthvað aum... eða ekki.  Það er ekkert að :)

Fríða, 5.12.2008 kl. 00:19

2 Smámynd: Guðlaugur S. Egilsson

Laugavegsskórnir mínir voru komnir í 1200 km þegar ég hætti að hlaupa í þeim. Geng ennþá á þeim, enda frámunalega vel tilkeyrðir...

Guðlaugur S. Egilsson, 5.12.2008 kl. 08:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband