Leita í fréttum mbl.is

Litlar díoxínverksmiðjur

Dibenzo-para-dioxín (sjá heimasíðu UST)Opin brennsla á blönduðum úrgangi af ýmsu tagi getur orsakað tiltölulega mikla losun díoxíns. Einhvern tímann heyrði ég því fleygt að ef rusli frá venjulegu heimili væri brennt í opinni tunnu á baklóðinni, eins og tíðkaðist lengi vel, þá losnaði við það álíka mikið díoxín og frá fullkominni sorpbrennslustöð fyrir 60.000 manna byggð! Sel þetta ekki dýrara en ég keypti, en þetta er alla vega vert umhugsunar.

Til að díoxín myndist við bruna þurfa nokkur atriði að fara saman, en svo óheppilega vill til að þau fara einmitt gjarnan saman þar sem rusli er brennt við opin eld. Hitastigið þarf sem sagt að vera á bilinu 200-800°C, einhverjar klórsameindir þurfa að vera til staðar (jafnvel bara úr matarsalti), eldsmaturinn þarf að innihalda lífræn efni, einkum aromatísk, og svo þarf náttúrulega súrefni.

Díoxín er þrávirkt efni, sem brotnar seint niður í náttúrunni. Það er auk heldur afar eitrað og hefur því skaðleg áhrif á menn og aðrar lífverur, jafnvel þótt styrkur þess sé mjög lágur. Í versta falli duga t.d. um 0,001 mg til að drepa lítil nagdýr. Skaðleg áhrif á menn eru margvísleg, og nægir þar að nefna krabbamein og getuleysi. Nokkur dæmi eru um að díoxín hafi borist inn í fæðukeðjuna. Þessa dagana er einmitt mikið talað um díoxínmengun í írsku svínakjöti - og jafnvel nautakjöti, en einhvern veginn hafði fóður dýranna mengast af efninu.

Hér hef ég talað um díoxín í eintölu, en í raun er þetta heill hópur efna. Hægt er fræðast miklu meira um díoxín og fúran (sem eru skyld efni) á heimasíðu Umhverfisstofnunar.


mbl.is Óæskilegur bruni á víðavangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til fróðleiks þá innihélt Agent Orange, sem bandaríkjamenn notuðu í gríðarlegu magni í Víetnamstríðinu til að eyða skógunum díóxín. Afleiðingarnar voru skelfilegar fyrir víetnama.  Á nokkrum stöðum hefur ekki vaxið stingandi strá síðan í stríðinu og fæðingargallar, ungbarnadauði og vansköpun er mjög algeng á þessum svæðum þar sem eitrinu var úðað hvað mest.

Segja má að þessi aðgerð bandaríkjamanna hafi verið eitt stærsta og alvarlegasta umhverfis"slys" sögunnar.

Sigríður (IP-tala skráð) 10.12.2008 kl. 15:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband