Leita í fréttum mbl.is

Áhrif haframjöls á loftslagið

save our climateLoftslagsmerkingar eða kolefnismerkingar vöru hafa verið töluvert til umræðu í nágrannalöndunum upp á síðkastið, þó að lítið hafi farið fyrir því spjalli hérlendis. Í þessum pistli verður gerð stutt grein fyrir einu framtaki í þessa veru, sem líklega er eitt þeirra fyrstu sinnar tegundar í heiminum.

Þann 1. desember sl. birti Umhverfisstjórnunarráð Svíþjóðar (Miljöstyrningsrådet) fyrstu loftslagsskjölin (klimatdeklarationer) sem fylgja munu viðkomandi vöru til neytenda. Með þessu var ráðið að bregðast við óskum umhverfisráðherra Svíþjóðar um loftslagsmerkingar. Loftlagsskjölin byggja á alþjóðlegum staðli (ISO 14025), þekktum vísindalegum aðferðum og tölulegum upplýsingum um vistferil viðkomandi vöru, allt frá vöggu til grafar, eða frá haga til maga þegar um matvöru er að ræða.

Hægt er að nýta loftslagsskjölin með ýmsu móti. Þau geta t.d. nýst sem bakgrunnur loftslagsmerkingar, auk þess sem þau auðvelda miðlun upplýsinga milli aðila, hvort sem um er að ræða upplýsingar frá einu fyrirtæki til annars („B2B“) eða frá fyrirtæki til neytenda („B2C“). Skjölin nýtast síðan neytendum til átta sig á áhrifum viðkomandi vöru á loftslagið. Í raun má líkja þessum skjölum við venjulegar innihaldslýsingar, eins og skylt er að hafa á matvörum o.fl. Skjölin fela í sér ítarlegri upplýsingar en hægt er að koma á framfæri með einföldu merki, og henta því vel fyrir þá sem virkilega vilja setja sig inn í málið.

Líta má á loftslagsskjal vöru sem nokkurs konar útdrátt úr umhverfisskjali vöru (e: Environmental Product Declaration (EPD)), en þar er reyndar einnig um að ræða fyrirbæri sem er fremur lítt þekkt hérlendis. Loftslagsskjalið gefur heildstæða mynd af áhrifum vörunnar og auðveldar þannig samanburð á vörum í sama vöruflokki. Um leið er væntanlegum kaupendum gert auðveldara fyrir að velja þann valkost sem spillir loftslaginu minnst.

LantmännenMatvöruframleiðandinn Lantmännen í Svíþjóð varð fyrstur til að birta loftslagsskjöl með aðstoð Umhverfisstjórnunarráðsins. Reyndar hófst þetta starf þar á bæ á liðnu sumri þegar í fyrsta sinn var boðið upp á loftslagsmerktan kjúkling. Litið er á loftslagsskjölin sem næsta skref í þróuninni. Það er síðan Umhverfisstjórnunarráðið sem vottar að upplýsingarnar á skjölunum séu réttar miðað við bestu fáanlegu upplýsingar.

Havregryn LantmännenHér að neðan gefur að líta loftslagsskjal fyrir 1 kg af haframjöli frá Lantmännen. Á skjalinu koma m.a. fram almennar upplýsingar um vöruna og um framleiðandann, svo og upplýsingar um til hvaða þátta skjalið nær, en í þessu tilviki er þar um að ræða sjálfa ræktunina, vinnsluna, framleiðslu umbúða - og geymslu vörunnar í verslun, allt þar til neytandinn tekur hana úr hillunni. Flutningar eru einnig teknir með í reikninginn. Á skjalinu kemur fram að á þessum ferli hafi losun gróðurhúsalofttegunda vegna haframjölspakkans verið sem svarar 0,87 kg af koltvísýringi. Þar af voru 0,74 kg vegna ræktunar hafranna, en skipting milli einstakra „æviskeiða“ vörunnar er sýnd á stólpariti á skjalinu.

Ég geri ráð fyrir að íslenskir neytendur iði í skinninu eftir að fá upplýsingar af þessu tagi um vöruna sem þeir kaupa. Sömuleiðis býst ég við að íslensk stjórnvöld séu þegar búin að íhuga eða komast að niðurstöðu um hvernig gera megi slíka upplýsingagjöf mögulega.

Klimatdeklaration

Þessi pistill er að langmestu leyti byggður á upplýsingum á heimasíðu Umhverfisstjórnunarráðs Svíþjóðar, svo og á vefsíðunni http://www.klimatdeklaration.se. Einnig er fróðlegt að lesa umfjöllun á heimasíðu Tækniráðs Noregs 18. júní sl.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Þór Strand

Guð minn góður, eru menn búinir að missa vitið alveg.

Einar Þór Strand, 12.12.2008 kl. 02:37

2 identicon

Takk fyrir þennan fróðleik Stefán.

Þráinn Kristinsson (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 10:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband