Leita í fréttum mbl.is

Æ, ég nenni þessu ekki

Gunnar Dal velti því upp í viðtali í sjónvarpinu í desember, að þegar mönnum hefðu áskotnast nógir peningar, þá hættu þeir að hafa stjórn á peningunum og í staðinn færu peningarnir að stjórna þeim. Ef ég man rétt taldi hann þetta vera mjög greypt í mannlegt eðli, það væri bara misjafnt hvar línan lægi, þ.e. hversu mikið væri nóg til að þessi umskipti yrðu.

Í kvöld horfði ég á brot af Kastljósviðtali við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samtryggingarinnar. Þá rifjaðist þessi kenning Gunnars Dal upp fyrir mér - og ég fór að velta því fyrir mér hvort hún gilti kannski ekki bara um auð, heldur líka völd. Kannski er ég sljór og þekki ekki sauðina frá höfrunum, en alla vega læddist að mér sá óþægilegi grunur að allir menn hefðu þann veikleika að týna sjálfum sér þegar vald þeirra væri orðið nógu mikið. Ég er með öðrum orðum hættur að taka eftir neinum mun á orðræðu þess annars ágæta og ólíka fólks sem situr við stjórnvölinn í ríkisstjórn og stofnunum þessa lands. Getur verið að sjónvarpið sé að plata okkur og spila alltaf sama viðtalið, alveg sama hvaða viðmælandi úr fyrrnefndum hópi á í hlut?

Ég nenni ekki lengur að hlusta á þetta sama viðtal aftur og aftur í mismunandi litum. Ég nenni heldur ekki að leita að sökudólgum. Ég vil bara að Nýja Ísland fái að fæðast og dafna. Ég vil að við getum haldið áfram að svamla yfir að fljótsbakka framtíðarinnar. Ég vil ekki að þeir sem hrintu okkur út í fljótið drösli okkur aftur upp á gamla bakkann. Við höfum ekkert meira þangað að sækja. Þetta sama fólk ratar ekki yfir fljótið og getur ekki leitt okkur þangað!

Til að við getum haldið áfram ferðinni, þarf að skipta um fólk í öllum þeim stöðum sem fólk tengir við hrunið, alveg sama hvort viðkomandi á einhverja sök á því eða ekki. Það er hvort sem er enginn einn persónulega ábyrgur. Fólk í ábyrgðarstöðum, sem ekki nýtur trausts fólksins í landinu, þarf að víkja hversu saklaust sem það er. Þannig er staðan bara núna. Þá fyrst getum við haldið áfram, öll saman. Þetta verðum við að skilja og sætta okkur við. Það er ekki hægt að leysa vandamál með sama hugarfari og var notað þegar vandamálið var búið til, rétt eins og Einstein sagði.

Ég nenni þessu ekki lengur. Það verður eitthvað að fara að gerast! Tækifærin bíða eftir okkur í haugum, en við erum föst í fortíðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Ekki hætta Stefán, þú verður að halda það út. ISG getur ekki skilið á milli sinna örlaga og þjóðarinnar. Það er fáum stjórnmálamönnum gefið. Saga beggja stjórnarflokkanna er vafin inn í afskipta- og rænuleysið. Stjórnin var ekki margra vikna gömul, þegar fyrsti skjálftinn kom um mánamótin júlí/ágúst 2007. Lausafjárskorturinn var þegar efnahagslega þekkt staðreynd í USA í maí sama ár.  Þau bera öll sömu ábyrgð. Því snýst hugsun ISG ekki um annað lifa þetta af pólitískt.

Nú hefur hún fundið nýjan möguleika til að dreifa athygli þjóðarinnar. Það er þeirra helsta skemmtun um þessa daga.

Haltu þetta út Stefán. Þið hélduð það út Strandamenn í Dalabúð forðum, þegar Guðmundur í Munaðarnesi felldi okkur Dalamenn á endasprettinum með Heimsljósi. 

Sigurbjörn Sveinsson, 7.1.2009 kl. 21:43

2 Smámynd: Stefán Gíslason

Takk Sigurbjörn, gaman að heyra frá þér og gott að fá hvatninguna. Tja, maður getur náttúrulega ekkert hætt, heldur þraukar maður þangað til eitthvað skemmtilegt gerist. Það eru spennandi tímar framundan. Þetta reynir bara aðeins á þolinmæðina.

Já, það var gaman í Dalabúð. Það var náttúrulega bara Guðmundur sem skóp þetta allt saman, ég gerði ekki mikið meira en að hlaupa á þig í kapphlaupinu um bjölluna. Annars er magnað hvað maður man vel eftir þessu eftir öll þessi ár. Samt man ég best eftir því þegar við síðan töpuðum fyrir Patreksfirðingum í næstu umferð, af því að ég hikaði við að giska á Daldóna þegar spurt var um fjórmenningaklíku - andartakshik bara. Er ekki búinn að sætta mig almennilega við það ennþá....

Stefán Gíslason, 7.1.2009 kl. 23:13

3 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Þraukaðu nú þrællinn minn
Þorrann, Góu og Hörpu.

... þú verður að ljúka þessu (og þar með getur þú ekki hætt!!!)

Ingibjörg Hinriksdóttir, 8.1.2009 kl. 00:00

4 Smámynd: Ingimar Eydal

Ekki gefast upp, það væri ekki líkt góðum langhlaupara!

Mikið vildi ég sjá einhverja þína líka í pólitíkinni  Þann flokk myndi ég kjósa að kjósa.  En eins og mér hefur verið bent á þá fer skynsamt fólk ekki í pólitík... vonandi verður breyting á því, mér sýnist ekki veita af.

Góð grein, hafðu þökk fyrir.

Ingimar Eydal, 8.1.2009 kl. 13:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband