Leita í fréttum mbl.is

Gleðidagur - dagur vonar

Kannski á ég eftir að minnast þess alla tíð hvar ég var staddur þegar Barack Obama tók við embætti sem forseti Bandríkjanna fyrir stundu, jafnvel þótt ég væri bara heima í stofu að horfa á sjónvarpið. Þetta er vissulega viðburður sem snertir alla heimsbyggðina.

Embættistaka Baracks Obama felur í sér nýja von, ekki bara fyrir bandarískan almenning, heldur fyrir alla íbúa heimsþorpsins. Það er nánast sama hvert litið er, alls staðar eygir maður nýja von. Þetta gildir jafnt um umhverfismál, samskipti þjóða, mannréttindi og efnahag. Tímabili haturs, skugga og afneitunar virðist lokið - og við tekur tímabil samstöðu og uppbyggingar.

Vissulega má líkja verkefnum nýja forsetans við illkleifan hamar, og á þessari stundu er auðvitað ekki hægt að fullyrða hvernig honum og okkur hinum mun ganga á þeirri uppleið. Menn geta vissulega sest niður í svartsýni og bent á allar hindranirnar sem virðast óyfirstíganlegar. Menn geta líka talað um innantóm orð, sem ekkert sé að marka fyrr en verkin hafi verið látin tala. En þarna eigum við tvo kosti: Annað hvort leyfum við okkur að hrífast með og gleðjast í trúnni á getu okkar til góðra verka, eða þá að við teljum kjark úr okkur sjálfum og samferðamönnunum til að allt verði örugglega sem leiðinlegast, full af ótta við bakslagið ef björtustu vonirnar rætast ekki. Þetta verður hver að gera upp við sjálfan sig, en ég ætla að vera í fyrrnefnda liðinu, liðinu sem hrífst með og gengur til móts við framtíðina með blik í auga, liðinu sem leggur óhrætt upp í ferðalag inn í betri tíma, þó að ferðaáætlunin hafi ekki verið skrifuð í smáatriðum, liðinu sem er staðráðið í að komast yfir á fljótsbakka framtíðarinnar, „liðinu sem sigrar“.

Það er uppörvandi að rifja upp þann árangur sem í raun hefur náðst á stuttum tíma. Í ræðunni í dag minnti Barack Obama m.a. á þær miklu framfarir sem hafa gert það mögulegt að sonur manns, sem ekki gat fengið afgreiðslu á venjulegum veitingastað fyrir svo sem einum mannsaldri, geti nú staðið þar sem hann stóð í dag.

Í ræðunni nefndi Barack Obama líka eitt og annað fleira sem við getum tekið með okkur í nesti á ferðalaginu um íslenskan veruleika á yfirstandandi þrengingartímum. Hann minnti m.a. á að afköst verkamannanna væru ekkert minni nú en þau voru fyrir einni viku, einum mánuði eða einu ári - og að hugir okkar væru ekkert síður frjóir nú en þá. Þess vegna gætum við sigrast á hverri þraut, rétt eins og við hefðum sigrast á þrautum fortíðar. Það er nefnilega engin raunveruleg kreppa á meðan afl handar og hugar er óskert, svo ég túlki nú orð hans aðeins. Við erum nákvæmlega jafnsterk og við vorum fyrir daga kreppunnar!

Í dag upplifði ég dag vonar. Og ég ætla að leyfa mér að hrærast áfram í þessari von. Bjartsýni er nefnilega ekkert kjánaleg, hún er einfaldlega lykillinn að framhaldinu - leyniorðið sem þarf til að komast í gegnum næsta hlið á veginum.


mbl.is Obama: „Við erum reiðubúin að leiða á ný“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallur Magnússon

... og ekki gleyma því að Obama er Framsóknarmaður!

Hallur Magnússon, 20.1.2009 kl. 18:26

2 Smámynd: Friðrik Jónsson

Ólíkt íslensri pólitík Hallur, held ég að Obama sé hvorki eitt né neitt. Ég held að hann í alvöru sé eins þverflokkslegur og hann segir.

Þetta er falleg og hrein hugsun, sem ég vona að íslendingar taki sér að leiðarljósi. Ég tek heilshugar undir þessa vel orðuð grein þína Stefán. Heyr heyr! Við, einnig, verðum að horfa áfram með bros á vör og bara laga þetta. Það er ekkert flóknara en það, við getum þetta allt.

Friðrik Jónsson, 20.1.2009 kl. 19:19

3 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ég vna svo sannarlega að Obama sé ekki framsóknarmaður...en tek annars undir "Í dag upplifði ég dag vonar."!!!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 20.1.2009 kl. 23:02

4 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Obama er hafinn yfir þras um smáatriði eins og Framsóknarflokkinn. Hann er maður með nýja heimssýn og nýja hugsun sen nær yfir öll landamæri, kynþætti og trúarbrögð. Mynd heimsins er ný og það er von, meira að segja eftir 11. sept. og allan þann hræðsluáróður.

Já, 20.01.09 er DAGUR VONAR.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 21.1.2009 kl. 06:01

5 Smámynd: Stefán Gíslason

Ég held að Friðrik hafi einmitt hitt naglann á höfuðið. Styrkur Obama liggur einmitt í því að hann er EKKI framsóknarmaður og fellur ekki í þá gryfju að gerast fulltrúi eins né neins. Nú skiptir ekki máli hvort maður er karl eða kona, borgarbúi eða sveitamaður, svartur eða hvítur, örvhentur eða rétthentur, framsóknarmaður eða demókrati. Það sem skiptir máli er viljinn til að vinna þau verk sem þarf að vinna, getan til að vinna með öðrum og trúin á framtíðina. Fólk sem býr í litlum kössum með öðru fólki með eins strikamerki og það sjálft, er ekki líklegt til að verða leiðandi í vegferðinni framundan.

Stefán Gíslason, 21.1.2009 kl. 08:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband