Leita í fréttum mbl.is

Finnar þora að taka afstöðu!

Dómkirkjan í Helsinki. (Ljósm. Gitta)Finnska ríkisstjórnin hefur ákveðið að tekið skuli tillit til umhverfisþátta í öllum innkaupum ríkisins og stofnana þess frá og með árinu 2015. Jafnframt er mælst til þess að a.m.k. 25% innkaupa til sveitarfélaga verði orðin vistvæn árið 2010 og 50% árið 2015. Árleg innkaup opinbera geirans í Finnlandi nema um 27 milljörðum evra, eða um 15% af þjóðarframleiðslu. Þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar mun því óhjákvæmilega hafa mikil áhrif á markaðinn og hvetja fyrirtæki til umhverfisvænni framleiðsluhátta.

Þessi tíðindi, sem tekin eru úr „Orðum dagsins“ í dag og af heimasíðu finnska umhverfisráðuneytisins, láta kannski lítið yfir sér við fyrstu sýn. En tilfellið er að vegna mikilla umsvifa sinna hefur ríkisvaldið meiri möguleika á því en nokkur annar að leiða markaðinn í átt að umhverfisvænni framleiðsluháttum. Um leið eykst framboð á visthæfum vörum og þjónustu og verð þeirra lækkar. Það vill líka svo skemmtilega til að með því að velja umhverfisvænni vörur geta kaupendur dregið úr kostnaði til lengri tíma litið, jafnvel þótt verðlag breytist ekki neitt. Jafnframt minnkar losun gróðurhúsalofttegunda verulega. Gerð er góð grein fyrir þessum atriðum í nýrri skýrslu sem PricewaterhouseCoopers, Significant og Ecofys gerðu fyrir Evrópusambandið. Þar kemur m.a. fram að í 7 löndum Evrópu hafi vistvæn opinber innkaup að meðaltali leitt til 1,20% sparnaðar og 25% samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda. Í báðum tilvikum vega flutningar, verklegar framkvæmdir og ræstiþjónusta þyngst.

Ákvörðun finnsku ríkisstjórnarinnar er gott fordæmi fyrir þá íslensku. Það er nefnilega ekki nóg að undirrita stefnuyfirlýsingar um vistvæn innkaup. Menn þurfa að setja sér bindandi markmið til að eitthvað gerist! Þetta er spurning um að þora að taka afstöðu. Það ætti reyndar að vera auðvelt í málum sem þessum, sem leiða bæði til betri afkomu fyrir núverandi og komandi kynslóðir!!!

Orð dagsins
„Orð dagsins“ er að finna á http://www.samband.is/dagskra21


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband