Leita í fréttum mbl.is

Er rafmengun vanmetinn vandi?

Fréttir mbl.is og sjónvarpsins um lausn gátunnar í Richardshúsi á Hjalteyri gefa tilefni til að velta því fyrir sér hvort rafmengun sé ef til vill stórlega vanmetið vandamál. Hægt er að nálgast þessa umræðu með ýmsum hætti, en í þessum pistli ætla ég aðallega að velta þessu fyrir mér með Varúðarregluna í huga.

Viðhorf vísindasamfélagsins
Margir virðast halda að rafsegulsvið sé eitthvert dularfullt eða jafnvel yfirskilvitlegt fyrirbæri. Svo er þó að sjálfsögðu ekki, heldur er fyrirbærið vel þekkt í vísindum og mælanlegt með einföldum mælitækjum. Hins vegar fer tvennum sögum af áhrifum rafsegulsviðs á menn og skepnur. Sjálfur hef ég ekki sökkt mér ofan í heimildir um þessi mál, en almennt skilst mér að þrátt fyrir ýmsar vísbendingar telji „vísindasamfélagið“ enga vissu vera fyrir því að rafsegulsvið hafi skaðleg áhrif á fólk, nema þá þar sem styrkur þess er gríðarlega mikill og langt umfram það sem gengur og gerist í daglegu umhverfi meðaljónsins. Hins vegar útilokar þetta sama „samfélag“ ekki að menn geti orðið fyrir einhverjum skaðlegum áhrifum, þó að það hafi e.t.v. ekki verið sannað.

Varúðarreglan
Á heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Ríó 1992 komu fulltrúar um 180 þjóða sér saman um svonefnda Varúðarreglu, sem er nánar tiltekið hluti af Ríóyfirlýsingunni sem samþykkt var á ráðstefnunni. Í daglegu tali er Varúðarreglan sögð fela það í sér að náttúran eigi að njóta vafans, en reyndar er hún aðeins flóknari en svo. Í örlítið styttri mynd segir Varúðarreglan, að ekki megi nota skort á vísindalegri fullvissu um hugsanleg skaðleg áhrif sem rök til að fresta varnaraðgerðum. Í reynd fól samþykkt Varúðarreglunnar í sér að sönnunarbyrði í umhverfismálum fluttist af þeim sem taldi sig verða fyrir tjóni, yfir á meintan tjónvald.

Varúðarreglan og rafmengun
Það er áhugavert að skoða umræðuna um rafmengun, (sem ég ætla hér eftir að nota sem safnheiti yfir óæskilegt rafsvið og rafsegulsvið), út frá Varúðarreglunni. Það hafa sem sagt komið fram ýmsar vísbendingar um skaðsemina, en flestir virðast þó telja að fullvissu skorti. En það að skaðinn hafi ekki verið sannaður, þýðir ekki að hann hafi verið afsannaður. Þess vegna ber í raun að grípa til varnaraðgerða þar sem grunur um skaðleg áhrif vaknar. Reyndar segir Varúðarreglan líka eitthvað um kostnaðarhagkvæmni, sem þýðir að ekki er hægt að ætlast til að gripið sé til varnaraðgerða hvað sem þær kosta. Tilfellið er hins vegar að þessar aðgerðir kosta oft mjög óverulegar fjárhæðir.

Vísbendingar um skaðsemi
En hverjar eru þá þessar vísbendingar um skaðleg áhrif rafmengunar á fólk og aðrar lífverur? Þar er af nógu af taka. Dæmið frá Hjalteyri er auðvitað ein slík vísbending, og enn frekar ef rafmengunin verður talin eiga þátt í seiðadauða í lúðueldisstöðinni þarna skammt frá. Eins eru til dæmi um áhrif á heilsufar búfjár. Ég hef rætt þá hlið lauslega við dýralækna, og í þeirri stétt kannast menn við dæmi af þessu tagi. Ég man sjálfur eftir einu slíku úr fyrrverandi nágrenni mínu. Þar urðu mikil vanhöld á fullorðnu fé á húsi um vetrartíma, nánar tiltekið af svonefndri Hvanneyrarveiki, sem er fóðureitrun af völdum bakteríu, Listeria að mig minnir. Engin skýring fannst á þessu lengi vel, fóðrið virtist a.m.k. ekki verra en gengur og gerist. Við athugun kom síðan í ljós að jarðskaut í fjárhúsunum var brunnið sundur af ryði, og eftir að því var kippt í lag hætti krankleikinn í fénu. Þarna er auðvitað ekki hægt að sanna orsakasamhengið, þar sem ekki er mögulegt að útiloka áhrif annarra þátta. En vísbendingin er alla vega sterk, þó að „vísindalega fullvissu“ skorti. Önnur dæmi hef ég heyrt um fósturlát í sauðfé og fleira slíkt. Hvað mannfólkið varðar, þá eru til ýmsar vísbendingar um að tíðni tiltekinna sjúkdóma, svo sem krabbameins, gigtarsjúkdóma, mígrenis, MS o.fl. sé hærri í tilteknum húsum, eða tilteknum íbúðahverfum en annars staðar. Sama gildir reyndar um tiltekna vinnustaði. Þarna skortir þó líka „vísindalega fullvissu“, því að mörg önnur atriði geta spilað inn í, svo sem erfðaþættir, mataræði eða aðrir lífsstílsþættir hjá einstökum fjölskyldum, hugsanleg efnamengun o.s.frv. Auk þess er tíðni margra sjúkdóma af þessu tagi það lág að faraldsfræðilegar rannsóknir eru erfiðar í framkvæmd.

Einföld niðurstaða!
Niðurstaðan úr þessu spjalli er svo sem einföld: Fjarvist sönnunar er ekki fjarvistarsönnun! Þess vegna ber að grípa til varnaraðgerða þar sem grunur vaknar. Fyrsta aðgerðin felst væntanlega í að mæla rafmengun í viðkomandi húsi eða á viðkomandi svæði. Þar koma reyndar fleiri þættir en raflagnir við sögu, þ.m.t. svonefndar jarðárur, sem væntanlega fylgja sprungum í bergi. Gefi mæling tilefni til er síðan sjálfsagt að ráðast í úrbætur á jarðskautum, en þeim er vafalaust víða mjög ábótavant, bæði í híbýlum manna og dýra. Fleiri lausnir eru til - og fæstar mjög kostnaðarsamar.

Frekari upplýsingar
Þeir sem vilja lesa sér til um þessi mál geta m.a. sótt í mikinn fróðleiksbanka á heimasíðu Valdemars Gísla Valdemarssonar, rafeindavirkjameistara, en hann hefur haldið til haga gríðarlegu tenglasafni úr ýmsum áttum. Svo má benda á ágætan bækling um rafsegulsvið á heimasíðu Landsnets. Þar er eðlilega farið varlega í sakirnar, en meginniðurstaðan er þó sú sama og í þessum pistli, þ.e. að þó að skaðleg áhrif hafi ekki verið sönnuð, þá sé ekki hægt að útiloka þau.

Sem sagt: Vanmetinn vandi!
Ég held að rafmengun sé vanmetinn vandi, jafnvel stórlega vanmetinn. Það er óþarfi að líta á þetta sem eitthvert feimnismál eða hindurvitni, fyrirbærið er vel þekkt og all mikið rannsakað, og með hliðsjón af Varúðarreglunni er sjálfsagt að kanna sitt nánasta umhverfi og grípa til varnaraðgerða ef mælingar gefa tilefni til þess. Maður þarf ekkert að vera viss um skaðsemina. Það er nóg að vera ekki viss um skaðleysið. Og ódýr aðgerð sem kannski getur fyrirbyggt eitt krabbameins- eða MS-tilfelli er alveg örugglega kostnaðarhagkvæm!


mbl.is Dælustöð Norðurorku olli torkennilegu hljóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bestu þökk fyrir þennan pistil. -

Reynslan er ólygnust og ég hygg að þeir sem lásu um
áhrif spennustöðva er oft voru inní íbúðabyggð í
Austur-Þýzkalandi og tíðni einstakra sjúkdóma
hafi ekki beðið niðurstöðu svokallaðra vísinda frekar en þeir
gera það fekar nú hvað viðkemur farsímum. -

Ég veit ekki annað en "vísindi" hafi verið afsönnuð  á
20 - 30 ára fresti; ég gef ekkert fyrir þau!

Húsari. (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 15:02

2 identicon

Athyglisverður pistill takk fyrir.En hvar skyldi vera hægt að fá mælingu á rafmagninu heima hjá sér/rafmengun.?

Númi (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 21:30

3 Smámynd: Gísli Gíslason

Fróðlegar vangaveltur.  Mér skilst að tíðni krabbameins í höfði sé að aukast og rafmengun geti veriði hluti af orsökinni.

Gísli Gíslason, 8.5.2009 kl. 23:44

4 Smámynd: Stefán Gíslason

Takk fyrir athugasemdirnar! Númi, fyrirgefðu að ég var næstum búinn að gleyma að svara spurningunni þinni. Þeir sem mæla rafmengun svo ég viti eru fyrirtækin Orkulausnir (Brynjólfur Snorrason, www.orkulausnir.is), Hélog ehf á Akureyri (S: 4615064/8972888) og Ingimar Einarsson á Hvanneyri (S: 6162705). En sjálfsagt eru það einhverjir fleiri. 

Stefán Gíslason, 18.5.2009 kl. 10:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband