Leita í fréttum mbl.is

Ræktun mannapróteina í íslenskri náttúru

n186168320555_874Umhverfisstofnun hefur til meðferðar umsókn fyrirtækisins ORF Líftækni hf. varðandi leyfi til útiræktunar á erfðabreyttu byggi. Þetta er mun stærri ákvörðun en kann að virðast í fljótu bragði, þar sem þetta yrði í fyrsta sinn sem leyft yrði að rækta erfðabreytta plöntu í íslenskri náttúru.

Sjálfur tel ég að ekki hafi verið sýnt fram á skaðleysi ræktunar af þessu tagi, sem ber þó að gera samkvæmt varúðarreglunni, áður en ræktunin er leyfð. Auk heldur virðist mér málsmeðferðin augljóslega stangast á við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/18/EB, um sleppingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið, sem ætti að vera búið að innleiða í íslenska löggjöf samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Reyndar stendur málið svo glöggt, að stjórnarfrumvarpi til laga til innleiðingar á tilskipuninni var dreift á Alþingi fyrir réttri viku (18. maí sl), (Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur), en hefur ekki enn komist á dagskrá.

Í frétt sem birt var á vef Umhverfisstofnunar 20. maí sl. kemur fram að stofnunin „vill gefa almenningi og hagsmunaaðilum tækifæri til að kynna sér tilgreind áform um útiræktun“. Þess vegna hefur stofnunin birt á vefsvæði sínu „helstu gögn er verða lögð til grundvallar við ákvörðun um leyfisveitingu að hálfu Umhverfisstofnunar“. Auk þess hefur stofnunin boðað til kynningarfundar í Gunnarsholti kl. 13.30 á morgun og gefið fólki kost á að skila inn athugasemdum í síðasta lagi 28. maí nk.

Það læðist að mér illur grunur um að hér eigi að taka stóra, stefnumótandi og óafturkræfa ákvörðun í tæka tíð áður en almenningur fréttir af því eða fær lögfestan rétt sinn varðandi málsmeðferðina. Einhver umfjöllun var um þetta mál í fjölmiðlum í síðustu viku, m.a. sl. föstudag, en annars tel ég málið lítt kynnt og frestinn til að koma á framfæri athugasemdum ótrúlega knappan miðað við það hversu stórt málið er og gögnin flókin.

Sjálfur hef ég ekki haft ráðrúm til að kynna mér málið almennilega, en þykist þó vita að engin sambærileg dæmi um útiræktun sé að finna í Evrópu, nema þá í mjög takmörkuðum mæli í tilraunaskyni. Hægt er að halda því fram að hér verði einnig um tilraunaframleiðslu að ræða, en slíkt tal virðist hreinlega útúrsnúningur, þar sem umfangið er langtum stærra en þekkist í tilraunum í álfunni: Hér er sem sagt um að ræða ræktun til sölu á fleiri hekturum lands. Auk heldur snýst þetta tiltekna mál um ræktun á mannapróteinum, en eina erfðabreytta plantan sem leyft er að rækta utanhúss í Evrópu er tiltekin gerð af erfðabreyttum maís til manneldis. Hér er því um gjörólíka starfsemi að ræða, sem á sér enga hliðstæðu í Evrópu!

Benda má Fésbókarnotendum á, að þar hefur verið stofnaður hópur undir yfirskriftinni „Án erfðabreytinga - GMO frjálst Ísland“.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Erfðabreytingar eru helsta undirstaða framfara við landbúnað á 20. öldinni. Próteinframleiðandi ertujurtir, hrísgrjón og ýmsar korntegundir hafa verið kynbættar (erfðabreyttar) um allan heim með virkri krossæxlun eða stökkbreytingum með geislun. Sameinuðu þjóðirnar reka sérstaka stofnun um þessar leiðir og hafa gert um áratuga skeið.

Hvað vilja menn gera við erfðabreytta saurgerla, sem nú eru í vinnu fyrir manninn við að framleiða mannapróteinið insúlín? Sagt er að byggið geti ómögulega þrifist á Íslandi á sjálfbæran hátt, það sanni endurteknar tilraunir.

Við eigum að taka nýrri þekkingu opnum örmum en með varkárni en það þýðir ekki að gefa sér eitthvað "slogan" fyrst og spyrja svo.

Sigurbjörn Sveinsson, 25.5.2009 kl. 23:10

2 Smámynd: Morten Lange

Góður pistill, Stefán, og mjög tímabæra. Sem betur fer var fresturinn til athugasemda framlengdur. En fyrir svona stórt mál er þetta enn mjög knappur tími. Og fjölmiðlar eru ekki að standa sér, frekar en fyrri daginn.

Á flettismettu/ facebook (grúbban sem þú bendir á) er sagt frá  framlendan frest og bent á vefsíðu Umhverfisstofnunar. http://www.ust.is/Adofinni/Frettir/nr/6026

Þar sendur : Frestur til að skila inn athugasemdum er til 12. júní n.k. og skulu þær berast skriflega til Umhverfisstofnunar Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Sigurbjörn : Þú svarar í engu alvarlegir athugasemdirnar um gagnrýnisverða málsmeðferð.  Að bera saman náttúrulegir erfðabreytingar og manngerðar og segja að þetta sé nánast sami hluturinn er útúrsnúningur.  Alla vega á meðan þú ekki rökstyður þessar fullyrðingar betur.   

Morten Lange, 31.5.2009 kl. 12:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband