Leita í fréttum mbl.is

Ég undrast

Ég undrast þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að veita Orf. Líftækni hf. leyfi til útræktunar á erfðabreyttu byggi. Undrun mín byggir á sömu rökum og fram komu í athugasemdum mínum dags. 27. maí sl., sem ég tel óþarft að endurtaka hér. Veigamesta atriðið er þó líklega túlkun Varúðarreglunnar, en ég er ósammála því mati Umhverfisstofnunar að „áhættumat, yfirferð þess og öryggisráðstafanir“ feli í sér nægjanlegar „aðgerðir til að koma í veg fyrir umhverfisspjöll“. Vek reyndar athygli á því að orðið „nægjanlegar“ kemur ekki fram í greinargerð Umhverfisstofnunar með leyfisveitingunni, en ég get ekki skilið greinargerðina öðruvísi en svo að umræddar aðgerðir þyki nægjanlegar.

Í tengslum við framanskráð geri ég sérstakar athugasemdir við áhættumatið, sem ég tel mjög ófullnægjandi, vegna þess hversu mjög sérstæð umrædd áhætta er, sbr. orð mín í fyrrnefndum athugasemdum um „Svarta svani“. Ég tek undir það að „hverfandi líkur“ séu á að umræddar byggplöntur dreifi sér eða víxlfrjóvgist við annað bygg eða skyldar tegundir. Hins vegar tel ég að ekki sé á nokkurn hátt reynt að meta áhættuna af láréttum genaflutningi, sem er jú þekktur við náttúrulegar aðstæður, en virðist líklegri þegar um „splæst gen“ er að ræða. Minni auk heldur á að „hverfandi líkur“ eru ekki „engar líkur“. Skammtímarannsóknir segja sömuleiðis fátt um langtíma áhrif, þar sem hugsa þarf í áratugum og öldum, en ekki í vikum og mánuðum.

Í frétt Umhverfisstofnunar kemur fram að leyfið sé veitt með „ströngum skilyrðum“. Ég er reyndar afar ósammála því að skilyrðin séu ströng, þar sem þau snúast fyrst og fremst um verklagsreglur og góð vinnubrögð á vettvangi. Ég efast ekki um að Orf. Líftækni hf. myndi standast þau skilyrði án þess að minnst væri á þau einu orði. Ég held nefnilega að Orf sé fyrirmyndarfyrirtæki, þar sem beitt er framúrskarandi faglegum vinnubrögðum. Málið snýst bara alls ekki um það, heldur eitthvað miklu stærra.

Ég er sem sagt undrandi. Hins vegar skil ég vel að Umhverfisstofnun sé vandi á höndum, enda regluverkið frumstætt og fordæmin fá. En þess mikilvægara er að hafa varúðina að leiðarljósi.


mbl.is Leyfi veitt til ræktunar á erfðabreyttu byggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dofri Hermannsson

Raula ég glaður ljúflings lag
lífs við hlaðborð smárétta.
Geri mér stundum glaðan dag
við genaflutninga lárétta.

Dofri Hermannsson, 23.6.2009 kl. 13:07

2 Smámynd: Stefán Gíslason

Góður!!! Ég hef verið svo fræðilega þenkjandi undanfarið, að ég var ekki einu sinni búinn að fatta hvað þetta hugtak, „láréttir genaflutningar“ er skemmtilegt.

Stefán Gíslason, 23.6.2009 kl. 13:26

3 identicon

Sæll Stefán:

Gætir þú skýrt nánar hvað þú átt við með þessu:

"Hins vegar tel ég að ekki sé á nokkurn hátt reynt að meta áhættuna af láréttum genaflutningi, sem er jú þekktur við náttúrulegar aðstæður, en virðist líklegri þegar um „splæst gen“ er að ræða."

Þætti vænt um ef þú gætir stutt þetta frekari rökum, s.s.. með tilvitnunum í rannsóknir þar að lútandi. Ég  kannast ekki við þetta vandamál um láréttan genaflutning milli erfðabreyttra lífvera og náttúrlegra tegunda í náttúrunni.

Hef sjálfur flutt gen í frumur og veit að það er ekki auðhlaupið, jafnvel inn á rannsóknnarstofu með öllum þeim "trixum" sem við höfum við slíkar aðstæður. Slíkur flutningur er vel þekktur í veirum og bakteríum en í fjölfrumungum er slíkt afar fágætt og ef það gerist getum við einvörðungu séð það yfir þúsundir ára. Ef að slíkt væri algengt væri ljóst að "DNA-ættartré" lífvera myndu vera mun kaótískari en þau þó eru.

Magnús Karl Magnússon (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 13:27

4 Smámynd: Stefán Gíslason

Ég hef líka föndrað við að flytja gen í frumur, en þá voru menn varla byrjaðir að tala um „láréttan genaflutning“. Býst við að þar þurfi veirur eða bakteríur alltaf að koma við sögu, í það minnsta sem milliliður. Ég get ekki vísað í eina rannsókn fremur en aðra, en á Wikipediu hefur verið safnað saman slatta af tenglum á vísindagreinar um málið, (sjá http://en.wikipedia.org/wiki/Horizontal_gene_transfer). Sjálfur lít ég ekki á mig sem sérfræðing á þessu sviði, en tel mig fróðari um beitingu varúðarreglunnar, þó að þar sé jú alltaf erfitt að draga línum á milli þess sem „rétt“ er og „rangt“. M.a. þess vegna undrast ég að þetta tiltekna atriði skuli ekki vera meira rætt.

Stefán Gíslason, 23.6.2009 kl. 14:08

5 Smámynd: Morten Lange

Á  vef Umhverfisstofnunnar stendur einnig :

"Umsækjandi eða aðrir sem telja á rétt sinn hallað sbr. 25. gr. laga um erfðabreyttar lífverur nr. 18/1996 vegna ákvörðunar þessarar geta kært hana til umhverfisráðherra innan þriggja mánaða frá því ákvörðunin var tilkynnt." 

Morten Lange, 23.6.2009 kl. 16:03

6 identicon

Þakka þér fyrir hreinskilið og málefnalegt svar.

Wikipedia síðan sem þú bendir á er einmitt ágætt innlegg inn í þessa umræðu. Þar er ekkert í þeim texta (að því er ég a.m.k. sé) sem bendir til neinnar áhættu hvað þetta sérstaka verkefni sem hér um ræðir. Menn taka oft hugtök eins og "horizontal gene transfer" úr samhengi og skella því inn í þessa umræðu. Þarna er um að ræða hugtak sem getur skýrt ákveðin atriði þróunar þar sem ákaflega sjaldgæfir atburðir geta í gegnum val sést yfir árþúsundir. Slíkur láréttur genaflutningur er ákaflega sjaldgæfur. Hann er sennilega langalgengastur (þó sjaldgæfur sé) hvað varðar sk. "mitochondrial DNA" (ekki relevant hvað Orf áhrærir). Einnig eru nákvæmlega engar líkur á að mannavaxtaþáttur geti flust yfir í óskylda lífveru og valdið þar einhverju sértæku vali sem hefði áhrif á þróun.   

Sem sagt - ....ég sé engin fræðileg rök fyrir því að láréttur genaflutningur hafi nokkurn relevans hvað þetta sértæka mál varðar.

Hvað varúðarákvæði og varúðaregluna varðar, þá ber ég mikla virðingu fyrir henni og nauðsyn þess að túlka hana með hagsmuni náttúrunnar í huga. Hana þarf þó að setja í fræðilegt samhengi við þá hættu sem þeirri tilteknu ákvörðun fylgir.  Ég hef ósköp einfaldlega ekki séð nein fræðileg rök fyrir því að tilraun Orf hafi einhverja markverða hættu í för með sér. Ef þið getið bent mér á áhættuna, skal ég hlusta gaumgæfilega en slík áhætta þarf að byggja á einhverjum fræðilegum grunni. Ég tel að lárétti genaflutningurinn flokkist ekki til slíkrar áhættu. Það sama gildir að mínu mati um hugsanlega víxlæxlun við villtar plöntur en þar treysti ég einvörðungu á þekkingu Kesara, og annarra sérfræðinga sem hafa talað afdráttarlaust um þetta mál. Einnig tel ég að hættan sem sumir hafa tengt við að villt dýr myndu hljóta skaða af að éta byggplöntunar (eða fræ hennar) sé algerlega úr lausu lofti gripin.

Bið þá sem nefna varúðarregluna að benda á hvaða áhættu við séum að taka án þess að nota gildishlaðin orð eins og "menga hreina óspillta náttúru" án frekari rökstuðnings. Ef að þetta snýst um siðfræði þess að nota erfðabreyttar lífverur almennt, þá bið ég fólk að vera samkvæmt sjálfu sér og hugsa um afleiðingar þess,  m.a. á framleiðslu á stórum hluta af öflugustu lyfjum okkar sem notuð eru í nútíma læknisfræði. Ef að þetta snýst um áhættuna um erfðabreytt matvæli - þá bið ég fólk að rugla ekki starfsemi Orf við matvælaframleiðslu.

Sem sagt, ég fagna ákvörðun umhverfisráðherra og tel hana málefnalega. Ég fagna einnig opinni samfélagsumræðu um þetta mál og tel hana styrkja ákvörðun ráðherra.

PS: Hef engin fagleg né fjárhagsleg tengsl við umrætt fyrirtæki!!

Magnús K. Magnússon (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 16:52

7 Smámynd: Valgeir Bjarnason

Ég tek undir með þér Stefán með varúðarregluna. Ég held einnig að vitneskja um "láréttan genaflutning" sé ekki nægjanleg sérstaklega fyrir neytendur erfðabreyttu plantnanna t.d. jarðvegslífverur (örverur og ánamaðka)

Ég vil einnig geta þess að erfðamengaðar lífverur þurfa ekki að vera frábrugðnar öðrum sömu tegundar í útliti, en hugsanlega í eiginleikum.

Valgeir Bjarnason, 24.6.2009 kl. 08:29

8 Smámynd: Dofri Hermannsson

Takk fyrir málefnalega umræðu. Tek undir með Magnúsi. Finnst umræða mætustu samherja minna í umhverfismálum um erfðatækni stundum vera á villigötum.

Vandinn við umræðuna um þetta efni er að hún er oft flókin og tilfellin jafn ólík og þau eru mörg. Um mörg einfaldari viðfangsefni gildir að ef nokkur lykilorð koma fyrir er ástæða til að setja viðvörunarkerfið af stað. Dæmi: óafturkræf umhverfisspjöll, ágeng orkunýtingarstefn o.s.frv.

Lýsingarorðið "erfðabreytt" virðist hafa fengið svipaða brunabjöllueiginleika alls óverðskuldað því margt af því sem er verið að gera með erfðatækni er til stórra framfara fyrir umhverfið.

En semsagt: Takk fyrir góða umræðu sem vonandi á bara eftir að þroskast en ekki hrasa ofan í skotgrafir óskilgreindra herja.

Dofri Hermannsson, 24.6.2009 kl. 20:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband