Leita í fréttum mbl.is

Fjallvegahlaup á Vestfjörðum

Í næstu viku ætla ég að skokka yfir nokkra fjallvegi vestur á fjörðum. Dagskrá vikunnar lítur svona út:

  • Sunnud. 19. júlí (kl. 11.30): Vesturgatan, úr Arnarfirði til Dýrafjarðar, 24 km (Almenningshlaup)
  • Þriðjud 21. júlí (kl. 14.00): Þingmannaheiði, milli Skálmarfjarðar og Vatnsfjarðar, 23 km
  • Fimmtud. 23. júlí (kl. 14.00): Miðvörðuheiði, frá Haga á Barðaströnd til Tálknafjarðar, 20 km
  • Föstud. 24. júlí (kl. 10.00): Selárdalsheiði, frá Tálknafirði til Selárdals í Arnarfirði, a.m.k. 17 km

Þessi törn hefst sem sagt á Vesturgötunni á sunnudag, (sjá www.vesturgatan.net). Þar stefnir allt í mikla þátttöku, en síðast þegar ég vissi voru um 80 hlauparar búnir að forskrá sig til að hlaupa alla leiðina. Mánudagurinn verður hvíldardagur hjá mér, en svo er það Þingmannaheiðin á þriðjudag. Reikna með að leggja af stað af eiðinu milli Skálmarfjarðar og Kerlingarfjarðar kl. 14.00 þennan dag. Heiðin er líklega um 23 km, þannig að sjálfsagt gæti skokkið tekið allt að 3 klst. Endamarkið er í Vatnsfirði skammt sunnan við Flókalund.

Svo er stefnan sett á Miðvörðuheiði á fimmtudag. Þá verður lagt upp frá Haga á Barðaströnd kl. 14.00 og endað við Hjallatún í Tálknafirði, svo sem tveimur og hálfum tíma síðar. Þetta eru líklega um 20 km og hækkunin hátt í 500 m.

Loks er það Selárdalsheiði á föstudag. Reikna með að leggja upp frá Sellátrum í Tálknafirði kl. 10.00 og enda við kirkju Samúels Jónssonar í Brautarholti í Selárdal í Arnarfirði. 

Ég er búinn að setja dálitlar grunnupplýsingar um Þingmannaheiðina og Miðvörðuheiðina inn á fjallvegahlaupasíðuna, www.fjallvegahlaup.is. Sérstaklega hafði ég gaman af sögu af Miðvörðuheiðinni, sem Brynjólfur Gíslason, fyrrum sveitarstjóri á Tálknafirði, gaukaði að mér. Ég hef hins vegar ekki enn gefið mér tíma til að kynna mér Selárdalsheiðina að neinu marki. Er samt búinn að setja fyrstu drög að leiðarlýsingu inn á fjallvegahlaup.is.

Vonandi fæ ég góðan félagsskap á sem flestum þessara leiða. Nokkrir hafa lýst áhuga á einhverjum heiðanna, en ég er ekki búinn að taka saman neinn "þátttakendalista" enn sem komið er. Því fleiri sem koma, því skemmtilegra. Auðvitað getur hver sem er bara mætt á staðinn og verið með, en gaman væri samt að frétta af því fyrirfram, t.d. símleiðis (862 0538) eða í tölvupósti (stefan[hjá]umis.is). En hver sá sem lætur tilleiðast að taka þátt í svona hlaupi gerir það náttúrulega á eigin ábyrgð.

Sjáumst á Vestfjörðum.
Smile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góða ferð vestur Stefán. Þú færð fantaveður svo langt sem augað eygir.

Gunnlaugur (IP-tala skráð) 17.7.2009 kl. 11:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband