12.5.2008 | 23:08
Að breyta bæjarnöfnum
Hafið þið velt fyrir ykkur þeim krafti sem felst í prentvillum og öðrum rangfærslum? Kannski sleppur eitthvert orð eða einhver fullyrðing fram hjá vökulum augum prófarkalesara, og fyrr en varir eru aðrir farnir að vísa í vitleysuna í ræðu og riti sem góða og gilda heimild, með þeim afleiðingum að orðið eða fullyrðingin berst út eins og farsótt, en hið upphaflegra og réttara verður undir og gleymist. Bæjarnöfn og önnur örnefni geta sem best hlotið þessi örlög ef aðgát er ekki höfð.
Í Bitrufirði á Ströndum er líklega að finna fleiri einkennileg bæjarnöfn en í nokkurri annarri sveit. Nægir þar að nefna Þambárvelli, Snartartungu, Einfætingsgil, Hvítarhlíð, Bræðrabrekku og Skriðinsenni. Bæjarnöfnin bera í sér sögur, sem gera tilveruna örlítið ríkari en hún annars væri, jafnvel þó að sögurnar séu teknar að fyrnast. Þess vegna felast menningarleg verðmæti í bæjarnöfnunum.
Afi minn og amma bjuggu í Hvítarhlíð síðustu æviárin. Þar hófu líka pabbi og mamma búskap sinn, og þar fæddust systkini mín. Í túninu í Hvítarhlíð er aflöng þúfa, sem heitir Hvítarleiði. Ekki veit ég hver hún var þessi Hvít - og held að ekki séu til skriflegar sagnir af henni. Heyrði sagt þegar ég var lítill (minni) að hún hefði verið tröllkona. Alla vega er leiðið hennar stórt og bærinn við hana kenndur. Leiðið er tvískipt og er lægð á milli höfuðsins og búksins. Hallgrímur bróðir minn hefur sagt frá því, að þegar hann átti heima í Hvítarhlíð hefðu þau krakkarnir mátt leika sér á leiðinu ef þau pössuðu að hafa ekki hátt. Honum þótti gaman að sitja í lægðinni eða á hálsinum, en hefur reyndar líka stungið upp á því að lægðin hafi kannski ekki verið milli búks og höfuðs, heldur á milli Hvítar sjálfrar og peningakistilsins sem þar átti að vera til fóta. En hvers vegna máttu þau ekki hafa hátt? Jú, Hvítarleiði er nefnilega álagablettur. Leiðinu þurfti að sýna tilhlýðilega virðingu og það mátti aldrei slá, því að þá gat illa farið.
Fyrir rúmum tveimur árum tók hreppsnefnd Broddaneshrepps sig til og endurnýjaði skilti við heimreiðir í sveitinni. Þá var gamla skiltinu við heimreiðina að Hvítarhlíð hrundið um koll og sett upp annað sem á stendur Hvítahlíð. Sjálfsagt hefur einhverjum þótt það betra eða rökréttara heiti, en um leið lagt sitt af mörkum, með ókunnugleika og skammsýni, til að afmá söguna sem fylgir bæjarnafninu. Víst er hlíðin oft hvít á vetrum, en hvaða hlíð er það ekki í þessum landshluta.
Hvað á maður svo að gera í málinu? Á að leyfa sögunni um Hvít að týnast með skiltinu, eða á að láta leiðrétta mistökin og setja upp nýtt skilti þar sem Hvítar er getið á ný? Hver á þá að hafa frumkvæði að því? Hvar liggur sönnunarbyrðin? Kannski er líka nafnið Hvítahlíð komið inn í öll opinber gögn, t.d. í þjóðskrána, fasteignamatið og kort Vegagerðarinnar - og þar með orðið næstum því opinbert og rétt. Er einhver leið til baka?
Myndirnar hér að neðan, sem ég tók í Bitrunni í dag, segja sína sögu um það hvernig hið gamla hverfur undurfljótt í sinuflóka gleymskunnar - og um leið um það hvernig við rækjum skyldur okkar gagnvart þeim kynslóðum sem á eftir koma. Við eigum nefnilega ekki bara að skila þeim náttúrulegum auðlindum í nothæfu standi, heldur líka menningarlegum auðlindum.
Bendi að lokum á áhugaverða umræðu á Strandir.is um þetta sama mál. Þar kemur líka bæjarnafnið Skriðinsenni við sögu af sömu ástæðu. Þar datt sem sagt einhverjum (les: Þáverandi hreppsnefnd) í hug að skella upp skilti sem stendur á Skriðnesenni.
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Myndaalbúm
Af mbl.is
Erlent
- Úkraína geti tapað stríðinu með skyndilausnum
- Trump og Pútín vilja tala saman
- Barnungur Rússi í fimm ára fangelsi
- Biden heitir friðsamlegum valdaskiptum
- Staðan: Trump 295 Harris 226
- Selenskí: N-Kórea heyir stríð í Evrópu
- Tveir nemendur stungnir með hnífi og skólanum lokað
- Fundu lík reynds fjallgöngumanns
- Vonast til að glíma við Rússa og N-Kóreu með Trump
- Gerðu umfangsmikla drónaárás á Kænugarð
Athugasemdir
Alltaf er miður þegar gömlum örnefnum er breytt oftast fyrir misganing. Þó eru dæmi um að gömlum örnefnum hafi verið breytt. Í tíð Björns Bjarnarsonar (1856-1951) hreppsstjóra Mosfellinga þá breytti hann nokkrum gömlum bæjarnöfnum: Reykjakoti þar sem hann bjó frá 1887 og fram yfir aldamótin nefndi hann Reykjahvol og þar með týndist gamla örnefnið. Bærinn Suður-Gröf þangað sem hann flutti 1907 minnir mig nefndi hann Grafarholt sem nú er allreisulegt hús þétt við Vesturlandsveg á móts við Keldur. Fyrir neðan veg var Grafarkot en þar á gamla bæjarstæðinu er heimagrafreitur þeirra Grafarhyltinga. Sennilega eini heimagrafreiturinn sem enn er til ásamt þeim sem finna má þar sem áður hét Lögberg í brekkunni skammt austan við Gunnarshólma. Grafreiturinn er uppi á holtinu sunnan við Suðurlandsveg.
Þá er einna rótækasta breytingin hjá Birni í Grafarholti: Bærinn Kálfakot stóð lengi vel við norðanverða Úlfarsá skammt norðan við Reynisvatns og norðaustan Grafarholtshverfis. Þennan bæ nefndi Björn Úlfarsá.
Til smáfróðleiks er þar skammt frá töluvert skógræktarsvæði sem Sigurður Thoroddsen verkfræðingur (1902-1983) átti og nefndi Ljótaland. Þegar hann keypti landið voru þarna melar og vindasamt mjög. Gróðurfarið var eftir því. En með ótrúlegrei þrautseigju tókst Siguðrði og fjöldkyldu hans að breyta þessum vindasömu melum í fagra gróðurvin. Eigi er líklegt að Björn í Grafarholti hafi átt þátt í þessu örnefni enda til þess efnt nokkru eftir hans tíð.
Bestu kveðjur og óskum að varðveita sem best örnefni á Ströndum.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 13.5.2008 kl. 13:42
Örlítil viðbót:
Varðandi heimagrafreitina þá er átt við þá sem eru innan núverandi lögsagnarumdæmis Reykjavíkur. Heimagrafreitir eru auðvitað víða um land einkum á þeim bæjum þaðan sem kirkjusókn var erfið á vetrum.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 13.5.2008 kl. 13:44
Kærar þakkir fyrir þetta fróðlega innlegg Guðjón. Og takk líka fyrir ábendinguna um daginn varðandi Skorradalshringinn. Ég á eftir að velta því máli vel fyrir mér á allra næstu vikum!
Stefán Gíslason, 13.5.2008 kl. 14:11
Sælir Stefán
Þetta er skemmtilegt að lesa. Við sem ólumst upp eða eigum heima í Kollafirði megum öfunda ykkur Bitrunga af þessum fróðlegu bæjarnöfnum. Í Kollafirðinum eru all flest bæjarnöfn augljós og auðskilin svo sem Stóra- og Litla-Fjarðarhorn og svo framvegis. Það eru helst Ljúfustaðirnir sem eru dularfullir. Þar vil ég minnast að þar hafi kona með nafninu Ljúfa komið við sögu. Ekki er ég svo fróður að vita hvort hún var af þessum heimi eða kannske tröllskessa.
Ég er farinn að aðhyllast kenningu þína um að Skriðinsenni beri nafn af skriðunum. Enginn kannast við að það sé kennt við mann sem hafi heitið Skriðinn og það heiti þess vegna Skriðnisenni. Annað hvort hefur mig dreymt það eða einhver logið því að mér sér til skemmtunar.
Hafið það gott
Jón Bragi (IP-tala skráð) 13.5.2008 kl. 20:04
Takk fyrir skrifin Jón Bragi, bæði hér og á Strandir.is. Góð innlegg! Bestu kveðjur till Sverige. Ræði kannski bílamál við þig einhvern tímann á næstu vikum og mánuðum....
Stefán Gíslason, 13.5.2008 kl. 22:11
Skemmtileg umræða - og þörf!
Dofri Hermannsson, 22.5.2008 kl. 14:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.