Leita í fréttum mbl.is

Á hlaupum í Héðinsfirði

Í gær hljóp ég sem sagt frá Ólafsfirði til Siglufjarðar um Héðinsfjörð. Reyndar var meðalhraðinn líkari því sem gerist á göngu en á hlaupum, sem sagt 5-6 km/klst. En ég kalla þetta samt hlaup, því að ég hljóp alls staðar þar sem ég hafði þrek til - og svo var þetta líka hluti af Fjallvegahlaupaverkefninu mínu, nánar tiltekið fjallvegahlaup nr. 4 og 5.

Júní 010web
Skóþvengir bundnir á Ólafsfirði að morgni þriðjudags. Innihald Héðinsfjarðargangnanna í baksýn.

Ég lagði upp úr miðbæ Ólafsfjarðar kl. 10.06 í gærmorgun, hljóp út að Syðri-Á og beygði þar inn í Árdal. Eftir að hafa hlaupið samtals um 7 km, vaðið tvær ár og hækkað mig um 300 metra, var ég staddur beint fyrir neðan Rauðskörð. Var reyndar í vafa um það hvaða skarð væri rétta skarðið, en þeim vafa tókst að eyða með hjálp GPS-tækninnar. Hins vegar dugði sú tækni ekki til að rata rétta leið upp í skarðið. Samt hafði ég fengið ýmis góð ráð í því sambandi og verið varaður við ýmsum hættum. Lenti samt í þessum sömu hættum og var lengi að losa mig úr þeim aftur. Þegar ég loksins stóð sigri hrósandi í skarðinu í 590 m hæð með 7,7 km að baki, var liðin 1 klst. og 48 mínútur frá því ég lagði af stað. Og ég sem hélt að sá tími dygði mér alla leið að Vík í Héðinsfirði. Blush

Júní 025strikweb
Horft upp í Rauðskörð. Rauða línan sýnir væntanlega nokkurn veginn rétta leið upp í skarðið. Ef maður beygir of snemma til hægri lendir maður í ógöngum, ef marka má nýlega rannsókn.

Úr Rauðskörðum hallar vel undan fæti til Héðinsfjarðar. Efst undir skarðinu var mikið fannfergi, þar sem gaman var að hlaupa niður. Kl. 12.28 var ég kominn að Vík í Héðinsfirði og þar með var fjallvegahlaup nr. 4 að baki, upp á samtals 12,08 km og 2:21:52 klst. Upphaflega hafði ég ætlað að taka mér góða hvíld í Vík, en þegar þar var komið sögu var ég farinn að hafa verulegar áhyggjur af því að verða ekki kominn til byggða í Siglufirði í tæka tíð. Ég hafði nefnilega lýst því yfir að ef ég yrði ekki kominn þangað kl. 3, hlyti eitthvað að hafa farið úrskeiðis. Hvíldin í Vík var því skorin niður í 12 mínútur, sem dugðu til að skrifa í gestabók, endurraða farangri, borða hálfa rúgbrauðssamloku með sméri og kæfu og drekka hálfa fernu af kókómjólk, (sem ég drekk annars aldrei). Svo var lagt upp í fjallvegahlaup nr. 5, nefnilega inn Héðinsfjörð og yfir Hólsskarð til Siglufjarðar.

Júní 034web
Horft inn Héðinsfjörð. Eyðibýlið Vík er fremst á myndinni, en beint upp af því sést í Hestskarð hinum megin við fjörðinn. Innarlega handan fjarðar sést í mynni Ámárdals og þar fyrir innan er Ámárhyrna.

Leiðin inn eyðibyggðina í Héðinsfirði sóttist sæmilega, en þarna er náttúrulega enginn vegur og undirlagið misjafnt. Svo var ekki laust við að ég finndi fyrir þreytu eftir Rauðskörðin. Framan af hitti ég engan nema tvo kjóa sem veittust að mér og virtust ekki sammála mér um val á hlaupaleið. Innundir Grundarkoti var hins vegar meira um að vera, því að þar voru stórvirkar vinnuvélar að búa til gat á fjallið yfir til Ólafsfjarðar. Frá Grundarkoti lá leiðin yfir Héðinsfjarðará, sem ég óð óvart í klof, og síðan á ská upp í mynni Ámárdals, sem er þverdalur vestur úr Héðinsfirði, já eða næstum bara skál í fjöllin. Þarna fór ég reyndar ekki troðnar slóðir, heldur reyndi að stytta mér aðeins leið til að spara tíma.

Leiðin upp Ámárdal er öll á fótinn og sóttist frekar seint. Enginn vandi var að rata upp í Hólsskarð og þangað náði ég að lokum, 9,6 km að baki og hæðarmælirinn í 646 m. Ferðin frá Vík hafði tekið klukkutíma og 54 mínútur, sem þýddi að klukkan var orðin 14.34 og bara 26 mínútur þangað til "eitthvað-hefði-farið-úrskeiðis-viðbúnarstigið" myndi bresta á. Ég hraðaði mér því niður úr skarðinu, enda fljótfarið á fönnunum sem þar lágu. Það vildi mér svo til happs, að skömmu síðar brast á með ágætis farsímasambandi, þannig að ég gat látið vita af mér. Þar með var öll pressa úr sögunni og hægt að hlaupa áfram niður í Hólsdal sæll og glaður. Björk beið svo eftir mér niðri í dalnum þar sem vegurinn endar, og þaðan var náttúrulega bara hægt að hlaupa veginn í rólegheitum.

Júní 072web
Bjargvætturinn Björk í móttökunefndinni við Fjarðará inn af Siglufirði.

Júní 073web
Búinn að vaða Fjarðará.

Við vegamótin við Siglufjarðarskarðsveg lét ég staðar numið, 15,54 km og 2:34:36 klst. að baki. Klukkan var orðin 15.15 og samtals liðnar 5:09 klst. frá því að ég lagði upp frá Ólafsfirði um morguninn. Ferðalagið allt mældist vera um 27,6 km. (Ath.: Þessar tölulegu upplýsingar eru algjörlega ómissandi). Smile

Það er ekki hægt að ljúka þessari ferðasögu án þess að minnast á tvennt. Annars vegar var veðrið í gær eins gott og veður getur nokkurn tímann verið, nefnilega norðan gola, glaða sólskin og 10-15 stiga hiti. Og hins vegar er ómetanlegt að eiga góða að þegar fjallvegahlaup eru helsta áhugamálið. Þar er Björk náttúrulega efst á blaði, enda búin að hjálpa mér endalaust með alla þætti málsins. Svo hjálpaði Valur Þór Hilmarsson líka mikið til í þessari ferð, með því að bæta upp skort minn á staðþekkingu.

Helstu niðurstöður og ályktanir:

  • Það eru forréttindi að vera einn með náttúrunni.
  • Rauðskörð eru naumast fyrir ókunnuga.
  • Það er gott að mæta ekki ísbirni þegar maður er einn á ferð í óbyggðum.
  • Nú á ég bara 45 fjallvegahlaup eftir af 50.
  • Líklega eru erfiðustu leiðirnar að baki.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fríða

ja.. sko, mér finnst tölulegu upplýsingarnar mjög áhugaverðar.  Og já, það er gott líf að geta þetta.  Svolítið skemmtilegt að hugsa til þess að það skuli vera hægt að fara þetta á tveimur jafnfljótum á svona stuttum tíma.  Hvað er fólk eiginlega að þvælast um á fjórhjólum, éppum, torfæruhjólum, ja, eða bara á gönguskóm með risabakpoka?  Nú fer ég alvarlega að spá í að slást í hópinn.  Þegar ég er hætt að stressa mig yfir Laugaveginum.

Fríða, 25.6.2008 kl. 21:00

2 Smámynd: Guðrún Helgadóttir

Varstu ekki með gott göngukort?

Guðrún Helgadóttir, 26.6.2008 kl. 15:55

3 Smámynd: Stefán Gíslason

Takk báðar tvær. Fríða, þú ert alltaf velkomin með í fjallvegahlaupin, þegar Laugavegurinn er að baki.  Og Guðrún, jú ég var með besta fáanlega göngukortið, en lýsingin á leiðinni upp í skarðið dugði mér samt ekki alveg.

Stefán Gíslason, 27.6.2008 kl. 15:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband