Leita í fréttum mbl.is

Engin hlaup á næstunni :-(

Ég var á aldeilis frábæru niðjamóti um síðustu helgi á Hafursá á Héraði. Notaði tækifærið og hljóp yfir tvo fjallvegi dagana á undan, eins og áður hefur komið fram. Það gekk vel. Allt annað í sambandi við þessa Austurlandsferð gekk líka vel, nema að laga kaffi fyrir ættingjana. Í stað þess að hella sjóðheitu vatni í kaffikönnuna, hellti ég því nefnilega á löppina á mér. Árangurinn lét ekki á sér standa: Skinnið datt af og eftir sit ég með stóreflis brunasár í viðeigandi umbúðum. Crying

Ein afleiðing þessa augnabliks andvaraleysis er sú að ég get ómögulega hlaupið. Eða - reyndar get ég það auðveldlega, en þá fær sárið engan frið til að gróa, og ég nenni ekki að vera lengi með svona sár. Enn er of snemmt að segja til um hversu langt hlaupafríið verður, en það er alla vega óhætt að afskrifa það sem eftir lifir júlímánaðar. Vonast til að komast af stað aftur þegar kemur fram í ágúst. Þetta þýðir m.a. að ég hleyp ekkert maraþonhlaup í Reykjavík í ágúst, því að undirbúningur verður af of skornum skammti. En við skulum ekki útiloka þátttöku í styttra hlaupi í Reykjavíkurmaraþoninu, t.d. 10 km. Yfirlýst fjallvegahlaupaáætlun raskast hugsanlega ekki neitt, því að þar er ekkert á blaði fyrr en Gaflfellsheiðin 11. september - og enn langt þangað til. Reyndar hef ég verið að svipast um eftir heppilegum tíma til að hlaupa norður Krossárdal, sem sagt þvert yfir Ísland frá Gilsfirði til Bitrufjarðar. Þessar óvæntu aðstæður þrengja að því skipulagi, en hver veit nema færi og heilsa gefist um miðjan ágúst. Held áfram að vinna í því.

Brunasár af þessari stærð koma ekki í veg fyrir að maður hugsi. Ég er því kominn vel af stað í að skipuleggja hlaupadagskrána fyrir árin 2009 og 2010, bæði innanlands og utan. Fyrstu áformin á þeim langa lista verða hugsanlega gerð opinber á næstunni. Missið ekki af því!

Hafursa 002web


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fríða

ÞAÐ var ekki gott.  En ertu ekki bara með of háan standard svona hvað tíma í maraþonum varðar ef þú vilt ekki hlaupa heilt maraþon í Reykjavík?  Ja... ég ætla nú að láta mig hafa það að fara lengstu vegalengdina í Jökulsárhlaupinu á morgun þótt ég hafi ekki hlaupið nema fimm kílómetra í júlí... og þeir fimm kílómetrar hafi verið hlaupnir í morgun.  Markmiðið er að komast á leiðarenda og taka þátt í grillveislu :)

Ég vona að þetta leiðinda brunasár batni hratt og vel.   :)Spennandi að sjá hlaupadagskrána þarna fyrir framtíðina

Fríða, 25.7.2008 kl. 17:30

2 Smámynd: Stefán Gíslason

Nei, ég held að standardinn sé ekkert of hár. Ég vil fyrst og fremst vera viss um að mér geti liðið vel alla leiðina. "Fíla mig fit", eins og það heitir á góðri íslensku.  Annars hefði ég nú alveg verið til í að vera með í Jökulsárhlaupinu í dag - í þessu líka veðri! Það stóð nú samt ekki til, burtséð frá öllum brunasárum. Þetta er bara svo frábært svæði! Var í Vesturdal um daginn, nýbrenndur. Og var líka með í fyrsta Jökulsárhlaupinu 2004. Jæja, best að gá hvernig hlaupið gekk....

Stefán Gíslason, 26.7.2008 kl. 23:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband