Leita í fréttum mbl.is

LSD

Til eru tvær tegundir af LSD.

  • Önnur tegundin er ofskynjunarlyfið lýsergíðsýrudíetýlamíð (Lysergic acid diethylamide).
  • Hin tegundin er draumur sem verður svo stór að hann verður „LangStærsti Draumurinn“.

Þessar tvær tegundir af LSD eiga það sameiginlegt að þeim geta fylgt ofskynjanir, sem skapa mikla gleði og hættu í senn, og geta reyndar gert það að verkum að neytandinn verður ekki samur eftir að hann vaknar úr vímunni, ef hann þá vaknar.

Hér verður ekki rætt frekar um skaðsemi fyrri tegundarinnar, enda hafa henni oft verið gerð ítarleg skil á öðrum vettvangi. Sú tegund kom fyrst fram á sjónarsviðið 1938 og náði líklega einhvers konar hápunkti í lok 7. áratugs síðustu aldar. Síðarnefnda tegundin af LSD verður hins vegar gerð að umfjöllunarefni hér á eftir.

Almennt er talið hollt og nauðsynlegt að eiga sér drauma, hvort sem dagur er á eða nótt. Það er ekki fyrr en einhver draumur verður svo stór að hann ýtir öðrum draumum til hliðar, sem hættuástand skapast. Þá er draumurinn einmitt kominn á það stig að geta kallast LSD.

Tæplega er hægt að nefna neina eina ástæðu þess að draumur verður að LSD. Mikilvægur þáttur í því er þó þrá dreymandans eftir einhverju stærra, einhverju sem slær á grámósku hversdagsins og gefur fyrirheit um nýja tíma. Að því leyti er þessi gerð af LSD mjög svipuð hinni. Báðar snúast þær um leit að nýrri skynjun, sem er meiri og öðruvísi en sú sem skilningarvit neytandans eða dreymandans upplifa með venjulegum hætti.

Draumur sem er orðinn að LSD heltekur svo vitund þess sem dreymir, að honum fer að finnast allt annað léttvægt. Með öðrum orðum skapast ákveðið þráhyggjuástand. Aðrir draumar skjóta upp kollinum, en þeim er hafnað jafnóðum á þeim forsendum að þeir geti aldrei fært dreymandanum eins mikla sælu og LSD. Þetta getur komið sér mjög illa fyrir dreymandann, því að í þessum litlu draumum leynast oft farsælar lausnir á ýmsum þeim vandamálum sem að dreymandanum steðja. Í versta falli útrýmir LSD öllum þessum draumum og dreymandinn kemst í einhvers konar glýjukennt ástand þar sem aðeins eitt skiptir máli, fegurð hins smáa hverfur og fjölbreytileiki verður að blótsyrði.

Draumar vara ekki að eilífu. Að endingu rennur óhjákvæmilega upp sú stund að dreymandinn vaknar, þ.e.a.s. ef hann hefur ekki dáið í svefni. Þá er um tvo möguleika að ræða, hvort sem um venjulega draum er að ræða eða LSD. Annað hvort rætist draumurinn eða hann rætist ekki.

Venjulegur draumur sem rætist er dreymandanum yfirleitt til hagsbóta, bætir sem sagt stöðu hans eða líðan með einum eða öðrum hætti án aukaverkana. Venjulegur draumur sem rætist ekki er yfirleitt úr sögunni án þess að skaða dreymandann svo orð sé á gerandi. Venjulegur draumur er enda yfirleitt aðeins einn af mörgum slíkum og áhættan því ekki mikil þótt lítið verði úr. Dreymandinn er auk heldur opinn fyrir nýjum draumum þegar einum sleppir.

LSD sem rætist er dreymandanum líka til einhverra hagsbóta, en hefur undantekningarlaust verulegar aukaverkanir. Annars væri hann ekki LSD. Aukaverkanirnar geta tekið á sig ýmsar myndir og þær ganga undir ýmsum nöfnum. Meðal annars eru þær stundum kallaðar ruðningsáhrif, vegna þess að uppfylling LSD ryður úr vegi uppfyllingu smærri drauma, jafnvel frá öðrum dreymendum. Svo rammt getur kveðið að þessu, að uppfylling LSD ryðji úr vegi veruleika sem löngu er sprottinn upp úr gömlum draumum. Aukaverkanir geta líka birst í mjög lækkaðri Hackman vísitölu fyrir það svæði þar sem LSD var uppfylltur, en lág Hackman vísitala er vísbending um að atvinnulíf á svæðinu sé einhæfara en á einhverju stærra samanburðarsvæði, t.d. í landinu öllu.

LSD sem rætist ekki er afar skaðlegur fyrir dreymandann og þá sem gerðir dreymandans hafa helst áhrif á. Sem fyrr segir er LSD nefnilega þeirrar náttúru að hann útrýmir öðrum draumum, sem ella hefði sumir ræst. Þegar dreymandinn vaknar af LSD og áttar sig á að hann rætist ekki, er hann því í mun verri aðstöðu en þegar draumurinn hófst. Honum finnst hann hafa tapað nær öllu því sem máli skiptir og hefur hvorki burði né viljastyrk til að snúa sér að öðru fyrst um sinn. Hann hefur með öðrum orðum vaknað upp af vondum draumi og stendur eftir draumlaus, bæði búinn að tapa hluta af þeim veruleika sem hann lifði áður í og þeim smærri draumum sem áður vöktu honum von í brjósti.

Mörkin milli venjulegra drauma og LSD eru ekki alltaf skýr. Þess vegna er afar mikilvægt að átta sig tímanlega á því að tiltekinn draumur sé að nálgast það að verða LSD. Engin ein aðferð er örugg í því sambandi. Því er farsælast að beita ávallt varúðarreglunni, þ.e.a.s. að grípa strax til varnaraðgerða ef grunur vaknar um að draumurinn sé að nálgast þetta stig, jafnvel þótt ekki sé sannað að svo sé. Þau einkenni LSD sem lýst er hér að framan ættu að nýtast að einhverju marki sem aðvörunarljós hvað þetta varðar.
 
Rétt er að viðurkenna og undirstrika að vitanlega er ekki auðvelt að halda vöku sinni á meðan á draumum stendur. Því er enn brýnna en ella að fara með gát. Ef draumur nær að verða að LSD er ekki víst að neytandinn, eða í þessu tilfelli dreymandinn, verði nokkurn tímann samur.

Aths.: Rétt er að taka fram, að undirritaður er ekki upphafsmaður hugmyndarinnar um „LangStærsta Drauminn“. Þessi tegund af LSD hefur verið til umræðu a.m.k. frá því veturinn 1974-1975. Einnig er rétt að taka fram, að í þessum pistli er ekki vísað til einstakra drauma, heldur er einungis um almenn varnarorð að ræða. Hver sá, sem telur sig sjá hér líkindi við eigin draum á það við sjálfan sig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband