Leita í fréttum mbl.is

Ég versla mér ekki föt

Undanfarna daga hef ég heyrt útvarpsauglýsingar, þar sem lofað er einhverjum fríðindum þeim til handa sem versla tvö eða fleiri stykki af einhverju. Mig minnir að þessar auglýsingar séu frá einhverri lyfjabúðakeðju, en þori ekki að fullyrða um það - og er reyndar alveg sama. Það sem angrar mig er málfarið á auglýsingunni. Það er nefnilega ekki hægt að versla sér pilluglös, hvorki tvö né fleiri. Hins vegar er alveg hægt að kaupa þau, sérstaklega í lyfjabúðum, því að lyfjabúðir versla einmitt með svoleiðis glös.

Þarna er sem sagt verið að rugla saman sögnunum „að versla“ og „að kaupa“ - og ekki í fyrsta sinn. Það að versla felur eiginlega í sér bæði að kaupa og selja. Þeir sem versla eru sem sagt verslunarmenn sem kaupa einhverja vöru og selja hana svo aftur. Neytandinn sem bara kaupir vöruna er ekki að versla hana.

Ég er löngu búinn að gleyma flestu sem ég hef lært í málfræði. Þess vegna get ég ekki fært almennileg málfræðirök fyrir þessu hjali mínu. Samt grunar mig að sögnin „að kaupa“ sé áhrifssögn, og að sögnin „að versla“ sé það ekki. Sögnin „að kaupa“ stýrir sem sagt falli, og veldur því að fallorð sem hún stýrir standa í þolfalli. Sögnin „að versla“ gerir þetta ekki. Þannig er hægt að kaupa hlut en ekki versla hann.

Ég versla mér aldrei föt. Hins vegar versla margir með föt og hafa af því atvinnu. Mér getur hins vegar dottið í hug að kaupa mér föt. Keypti mér t.d. eina hlaupasokka í dag hjá Daníeli Smára, aðal-Laugavegshlaupara í Afreksvörum.

Þetta var málfarsnöldur. Angry


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála þessu. Ég hef aldrei verslað, enda ekki stundað verslunarrekstur. Svolítið skylt þessu er mál sem ég hef stundum verið að velta fyrir mér að undanförnu, en það er merking orðsins fríkeypis, sem sést stundum í auglýsingum. Það hlýtur samkvæmt orðsins hljóðan að merkja að það sé eitthvað sem fólki er frjálst að kaupa án hafta, samanber fríverslun, sem tók við af einokunarverslun.

Halli Gísla (IP-tala skráð) 4.9.2008 kl. 17:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband