8.10.2008 | 23:24
Út að hlaupa - frá vandanum
Ég finn ekki hjá mér neina hvöt til að blogga um lausafjárskort og bankavandræði. Sýnist að ég muni litlu breyta í þeim efnum, jafnvel þótt ég taki mig til og kaupi íslenskar krónur fyrir allt danska klinkið sem ég á í filmuboxi í ónefndri skúffu. Vissulega myndi þetta auka erlendan gjaldeyri í umferð og styrkja þannig krónuna, en ég er bara ekki viss um að þessi gjaldeyrisforði sé nógu stór til að slá virkilega í gegn á markaðnum. Þess vegna er niðurstaðan sem sagt sú að ég geti litlu breytt, nema þá ef ég myndi skipta færeyska 50-kallinum sem ég geymi í veskinu mínu. Og því tími ég ekki. Þess vegna ætla ég bara að bíða rólegur þess sem verða vill og láta öðrum eftir að vera sérfræðingar í því hvað hefði átt eða ekki átt að gera. Þegar allt kemur til alls sýnist mér best að nota þessa rólegu bið til að fara út að hlaupa - og til að blogga um hlaup. Hér fara því á eftir ýmsar tölfræðilegar upplýsingar um hlaup dagsins og ársins. Sumum kunna að finnast þessar upplýsingar léttvægar, en ég get samt fullvissað þjóðina um að þær eru a.m.k. jafn gagnlegar og jafnlangt blogg um lausafjárskort.
Ég fór sem sagt út að hlaupa í kvöld - burt frá öllum vanda. Upp á síðkastið hefur sólargangurinn skerst eins og fleira, og því er ég orðinn háður götuljósum á kvöldhlaupum. Hlaup kvöldsins fór því fram á götum Borgarness - og líka að hluta til á íþróttavellinum. Þetta voru 12,55 km, sem ég lagði að baki á 1:03:31 klst. Meðalhraðinn var því 5:04 mín/km, eða 11,86 km/klst. Með þessu hlaupi eru samanlögð hlaup ársins komin í 1.499 km, sem er það langmesta sem ég hef hlaupið á einu ári til þessa. Í næsta hlaupi verður 1.500 km múrinn rofinn. Þá verður nú aldeilis tilefni til að skrifa laaaaangt blogg! Þess má líka geta að það sem af er árinu hef ég hlaupið eitthvað 111 daga, en alla hina dagana hef ég ekki hlaupið neitt. Samtals hafa þessi hlaup tekið tæpa 6 sólarhringa, sem er nú ekki svo ýkja mikið; nánar tiltekið 141:15:42 klst.
Ég tel brýnt að fram komi að í kvöld hljóp ég á Asics Kayano skóm, sem ég keypti á útsölu í Flexor í lok febrúar 2008. Samtals er ég búinn að hlaupa 619,92 km í þessum skóm, sem er ekki sérlega mikið. Þeir eru enda alveg óslitnir að neðan, en farnir að láta mikið á sjá að ofan.
Ég geri ráð fyrir að flestum þyki þessar upplýsingar ónákvæmar og ófullnægjandi. Hægt er að fá gleggri mynd af ástandinu á http://www.hlaup.com, þar sem ég skrái hlaupaæfingar mínar af töluverðri samviskusemi, ásamt með 652 öðrum íslenskum hlaupurum. Það er skemmtilegt samfélag!
Þessa dagana hef ég reyndar ekki að neinu að stefna í hlaupunum, öðru en því að hlaupa frá vandamálum og halda mér í sæmilegu líkamlegu og andlegu formi. Til þess tel ég mig þurfa að hlaupa þrisvar í viku, samtals að lágmarki 40 km, t.d. 12+8+20, t.d. á þriðjudags- og fimmtudagskvöldum og laugardagsmorgnum. Það er ekki nóg með að "heimsins grjót" sé mér fjarri á meðan, heldur næ ég stundum að velta við öðrum steinum og komast að fjársjóðunum sem undir liggja. Héld að fleiri ættu að prófa þetta!
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt
Athugasemdir
1875,005 það sem af er árinu hjá mér. Spurning hvað maður stefnir á fyrir áramót? Verður maður ekki alltaf að hafa einhver háleit markmið? Svona fyrir utan Laugaveginn og Berlín á næsta ári. Því ég fer sko aftur til Berlínar, mæli eindregið með því hlaupi.
Fríða, 9.10.2008 kl. 08:32
Hmmm, væri ekki 2.400 á árinu ágætis markmið? Reyndar er 2.500 skammt undan - og það er náttúrulega enn betri tala. Um að gera að hafa markmið! Ég stefni líka á Laugaveginn og var líka að hugsa um Berlín næsta haust. Er samt búinn að fresta því um 1-2 ár - held ég.....
Stefán Gíslason, 9.10.2008 kl. 09:02
624,995 kílómetrar á... hmm... 12 vikum. 52,082916666666666666667 km á viku. Jú, maður ætti að ráða við það Það eru bara 7,440416666...667 kílómetrar á dag. Segiði svo að hlaup séu ekki holl og góð, maður fer að hugsa svo skynsamlega (jii hvað þessir broskallar eru kjánalegir!)
Fríða, 9.10.2008 kl. 14:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.