Leita í fréttum mbl.is

Stuðningur Powells skiptir máli

Mér þykja það góð tíðindi að Colin Powell hafi lýst opinberlega yfir stuðningi við Barack Obama. Powell er maður sem margir taka mark á, virkilegur þungavigtarmaður sem sagt. Ég held að stuðningur hans skipti miklu máli á lokasprettinum, en síðustu daga virðist John McCain hafa verið að saxa jafnt og þétt á forskot Obama.

Það skiptir mig afar miklu máli að Barack Obama fari með sigur af hólmi í forsetakosningunum vestra. Líklega hafa engar kosningar, hvorki nær né fjær, skipt mig eins miklu máli og þessar, síðan Lyndon B. Johnson gjörsigraði Barry Goldwater 1964. Og ég er víst ekki einn um að vonast eftir sigri Obama, alla vega ef marka má niðurstöður netkönnunar sem allir netverjar heimsins geta tekið þátt í á http://www.iftheworldcouldvote.com. Þar er staðan núna 87-13 fyrir Obama. Í þeirri kosningu hefur Obama meirihluta í öllum löndum nema Makedóníu og Búrkína Fasó, en í því síðarnefnda hafa reyndar bara tveir netverjar tekið þátt í könnuninni.

Úrslitin í forsetakosningunum í Bandaríkjunum ráðast ekki á netinu, heldur í þarlendum kjörklefum. Niðurstöðurnar munu hins vegar hafa mikið að segja um það hvernig heimsmálin þróast á næstu mánuðum og árum. Ég er sammála þeim sem telja bjartara framundan með Barack Obama í Hvíta húsinu, en ef John McCain fær að setjast þar að. Reyndar held ég að McCain sé út af fyrir sig mjög frambærilegur frambjóðandi, svo langt sem það nær, en maður má ekki gleyma hvaða hópar myndu meðal annarra stuðla að kjöri hans og telja sig eiga hönk upp í bakið á honum. Forseti Bandaríkjanna er ekki einráður.


mbl.is Powell styður Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Björn

Hvað umhverfisstjórnunarfræðingur? 

Af hverju skiptir það miklu máli að Óbsama vinni?  Af því að þú heldur að hann eigi eftir að styðjast við Kíótó-bókunina sem virðist nú ætla að vera enn eitt marklausa plaggið sem þjóðir heims skrifa undir?

Guðmundur Björn, 19.10.2008 kl. 23:22

2 Smámynd: Stefán Gíslason

Það eru margar ástæður fyrir því að ég tel það skipta svona miklu máli að Obama vinni, ekki bara umhverfislegar heldur einnig efnahagslegar og félagslegar. Ef ég man rétt hafa bæði Obama og McCain lýst yfir stuðningi við Kyotobókunina, en hún er jú bara einn þáttur af fjölmörgum í þessu máli. Og þó að hún hafi kannski ekki skilað miklu, þá er hún samt fjarri því að vera marklaus. Menn verða líka að átta sig á þeim takmörkunum sem allar alþjóðasamþykktir eru háðar. Á þeim vettvangi ræður ekki meirihlutinn, heldur þurfa fulltrúar allra hlutaðeigandi þjóða að ná saman um hinn endanlega texta. Þess vegna eru öll svona plögg útvötnuð málamyndaplögg, ef maður vill orða það svo. Engu að síður eru þau mikilvæg, hvert fyrir sig, lítil skref á langri leið, sem vissulega þyrfti að ganga miklu hraðar. En svona eru leikreglurnar, hvort sem manni líkar betur eða verr.

Það er ekki rétt að enginn taki mark á Colin Powell í Bandaríkjunum. Í því sambandi skiptir engu máli hvað mér eða Óskari finnst um manninn!

Stefán Gíslason, 20.10.2008 kl. 08:12

3 Smámynd: Jónas Egilsson

Sæll Stefán.

Vissulega er það fréttnæmt að Powell styðji Obama. Einhver atkvæði skipta hér máli líka. Gallinn er sá að bandarísk stjórnmál eru gífurlega "pólarissjéruð" þ.e. að menn skiptast mikð í skoðanahópa. Við þeim er ekki mikið hróflað, heldur er það spurning hvort þú fáir þennan eða hinn hópinn til að mæta á kjörstað.

Nú er það spurning hverjir það eru sem Powell nær til, en Obama ekki? Powell var Bush mikilvægari en hann er Obama, þar sem sú yfirlýsing Bush fyrir kosningarnar 2008, að Powell yrði utanríkisráðherra sinn, má segja hafi skipt sköpum í kosningunum. Powell, eins og svo margir aðrir hafa orðið fyrir gífurlegum vonbrigðum með Bush sem forseta - jafnvel meðal manna og kvenna úr innsta kjarnanum í Hvíta húsinu.

Það sem er mikilvægast við þessar kosningar er að það verði stefnubreyting í hjá Bandaríkjastjórn. Meiri áhersla verði lögð á diplómatíuna, fjárhagslegan styrkleika Bandaríkjanna, styrk menntakerfisins og hina lýðræðislegu hefð, en herinn í alþjóða samskiptum. Síðan, eins og þú bendir réttilega á Stefán, eru umhhverfismálin mál framtíðarinnar og trúverðugleiki Obama er einfaldlega meiri á því sviði en hjá gamla manninum.

Jónas Egilsson, 20.10.2008 kl. 08:54

4 Smámynd: Stefán Gíslason

Takk fyrir þetta innlegg Jónas!

Stefán Gíslason, 20.10.2008 kl. 10:10

5 identicon

Var ekki Johnson einn versti forseti Bandaríkjanna?

  • Það var hann sem byrjaði að senda fjölda bandarískra hermanna til Víetnam og stigmagnaði þar með stríðið þar. 
  • Árið 1967 voru 500 þús. bandarískir hermenn í Víetnam
  • Johnson stóð fyrir eiturefnahernaði í Víetnam sem hét Agent Orange.
  • Fjöldamorð bandarískra hermann í Mi Lai voru í stjórnartíð Johnson
  • Miklar kynþáttaóeirðir áttu sér stað í Bandaríkjunum í stjórnartíð hans.
  • Mio. manna í Bandaríkjunum mótmæltu stríðinu í Víetnam í stjórnartíð hans.
  • Johnson heimilaði stórkostlegar loftárásir í Víetnam í stjórnartíð sinni.
  • Mengun jókst gífurlega í Bandaríkjunum í stjórnartíð Johnsons.

Hver var svo að segja að Bush sé slæmur?  Var bara ekki Johnson miklu verri en hann?

Málið er það að Demókratar hafa alltaf verið vonlausir í utanríkismálum og Bandaríkin hafa því alltaf verið á miklu undanhaldi á alþjóðavettvangi vegna klaufsku Demókrata í utanríkismálum.

Hver man ekki eftri hálfvitanum honum Carter sem lét Írani rassskella Bandaríkin á alþjóðavettvangi? og sem lét Sovétmenn vaða yfir hvert ríkið á fætur öðru í Afríku og S-Ameríku.  Demókratinn Carter er einn mesti auli sem Bandaríkin hafa haft sem forseta.

Sigfinnur Ólafsson (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 12:11

6 Smámynd: Stefán Gíslason

Þetta þykja mér heldur gáleysislegar söguskýringar og ráð fyrir þann sem þær skrifar að kynna sér frammistöðu Bandaríkjanna í utanríkismálum síðustu 50 ár. Þar kennir margra grasa, sem eflaust eru ekki öll í flokkslitum. Almennt hygg ég að Bandaríkjamenn hafi í raun misst það forystuhlutverk sem þeir höfðu á alþjóðlegum vettvangi, a.m.k. á sviði umhverfismála, um það leyti sem Ronald Reagan tók við völdum í ársbyrjun 1981. Ég vil líka vekja sérstaka athygli á því að frammistaða Johnsons sem forseta segir ekkert um það hvernig Barry Goldwater myndi hafa staðið sig! Og fyrst spurt er hver hafi verið að segja að Bush sé slæmur, þá man ég ekki til þess að ég hafi gefið neinar opinberar yfirlýsingar um það. En það hafa ótrúlega margir aðrir gert. Óvinsældir hans, bæði heima fyrir og erlendis, tala sínu máli.

Stefán Gíslason, 21.10.2008 kl. 15:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband