Leita í fréttum mbl.is

Það borgar sig að slökkva!

grænperaÍ umræðu um umhverfismál eru margar lífseigar sögusagnir („mýtur“) á kreiki. Ein þeirra er sú, að það borgi sig engan veginn að slökkva ljósin þó að maður bregði sér frá í klukkutíma eða svo, vegna þess að það þurfi svo mikið rafmagn til að kveikja þau aftur og vegna þess að ending ljósanna minnki svo mikið ef oft er kveikt á þeim. Sérstaklega er þetta sagt eiga við um sparperur af ýmsu tagi.

Þetta er sem sagt sögusögn, sem stenst ekki nánari skoðun. Það er hins vegar eflaust rétt að það borgar sig ekki að slökkva ljós sem þarf hvort sem er að kveikja aftur eftir nokkrar sekúndur eða kannski nokkrar mínútur. Spurningin er bara hversu langur tími megi líða til að það borgi sig ekki að slökkva á meðan. Ég og samstarfsfólk mitt er oft spurt um þetta, og í fyrra lögðumst við í dálitla rannsókn. Ræddum m.a. við aðila sem selur ljósabúnað í skóla og stærri byggingar. Hann taldi að ef herbergi væri yfirgefið í lengri tíma en 15 mínútur, þá borgaði sig líklega að slökkva. Og ef tíminn væri lengri en 30-60 mínútur, þá væri þetta alveg öruggt. En í svona útreikningum þarf auðvitað að taka tillit til tegund pera, tegund startara í ljósum, orkuverðs o.s.frv.

Það er erfitt að kveða niður sögusagnir. Þær komast nefnilega á kreik án þess að fyrir þeim þurfi að vera nein rök. Hins vegar þýðir ekkert að reyna að kveða þær niður án þess að vera með rökin alveg á hreinu. Þetta er sem sagt ekki alveg jafn leikur, ef svo má segja. Sögusagnir eru líka oft vinsælli en leiðréttingar.

Robin Green, eigandi vefsíðunnar Green-Energy-Efficient-Homes.com, nálgast sögusögnina um ljósin sem ekki borgar sig að slökkva með býsna skýrum og skemmtilegum hætti. Röksemdafærslu hans um þetta má lesa á slóðinni http://www.green-energy-efficient-homes.com/turn-off-lights.html. Þar tekur hann m.a. fyrir þá staðhæfingu að pera eyði jafnmikilli orku á þeirri sekúndu sem kveikt er á henni og á venjulegum 5 mínútum sem hún logar. Í lauslegri þýðingu og endursögn er röksemdafærsla Robins nokkurn veginn þessi: 

Hugsum okkur 100 watta (W) peru. Hún tekur náttúrurlega 100 W stöðugt á meðan kveikt er á henni. Það eru 0,45 amper (A) miðað við 220 volta (V) spennu. Hugsum okkur að peran klári 5 mínútna skammt af rafmagni á 1 sek. þegar kveikt er á henni. Hún þyrfti með öðrum orðum 100 W sinnum 5 mínútur sinnum 60 sekúndur, þ.e.a.s. 5x60x100 = 30.000 W þessa tilteknu sekúndu. Þetta eru 5x60x0,45 = 135 A. Þar sem öryggi í húsum eru yfirleitt ekki stærri en 10 A, þýðir þetta að þau myndu slá út í hvert sinn sem kveikt væri á þessari peru! Það stenst sem sagt engan veginn að peran eyði svona miklu rafmagni fyrstu sekúnduna.

Hvað varðar endingu ljósanna, þá er augljóst að perur sem alltaf er verið að kveikja og slökkva á endast að meðaltali skemur en aðrar perur. Hins vegar bendir Robin á, að sá fjárhagslegi sparnaður sem felst í lengri endingartíma sem næst með því að slökkva sem sjaldnast, sé aðeins brot af þeim sparnaði sem felst í minni orkunotkun þar sem ljós loga aldrei að óþörfu.

Fyrir þá sem hafa gaman af að leika sér með tölur má nefna, að á venjulegu íslensku heimili í þéttbýli kostar hvert watt af ljósarafmagni sem er í notkun allt árið eitthvað um 100 kr með fastagjaldi, dreifingu, virðisaukaskatti og öllu saman. Þannig er það alla vega heima hjá mér. Það kostar með öðrum orðum, ótrúlegt en satt, um 10.000 krónur að láta 100 W peru loga dag og nótt allt árið. En þá er ég reyndar búinn að smyrja fastagjaldinu jafnt á allar kílówattstundirnar. Í reynd lækkar gjaldið fyrir hverja kílówattstund eftir því sem notkunin eykst.

Hvað sem öðru líður er hægt að spara þónokkra peninga með því að slökkva ljós sem ekki eru í notkun. Og svo eru líka til einfaldar leiðir til að lækka rafmagnsreikninginn enn meira, líklega um svo sem 10% til viðbótar. Kannski skrifa ég eitthvað um það seinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Ég þarf persónulega litlar áhyggjur að hafa af þessu. Það kviknar örsjaldan á perunni hjá mér.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 28.11.2008 kl. 14:06

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Aðalatriðið í þessu, sem mér finnst ekki koma alveg nógu skýrt fram hjá þér, er hverskonar perur er um að ræða.

Ef það eru venjulegar glóþráðarperur þá er það algjörlega ókeypis að kveikja og slökkva á þeim og orkunotkunin ræðst eingöngu af því hveru lengi samtals er logandi ljós á þeim. Því borgar sig oftast að slökkva á glóðarperum á meðan þeirra er ekki þörf, og geta t.d. hreyfiskynjarar, ljósnemar og önnur sjálfvirkni hjálpað til að ná því markmiði. Þó að það stytti e.t.v. líftimann þá eru ljósaperur af þessari gerð yfirleitt frekar ódýrar.

Þetta er reyndar ekki algilt, fer m.a. eftir gæðum og öðrum eiginleikum rafkerfisins, spennuhnykkir geta t.d. auðveldlega sprengt perurnar þegar kveikt er á þeim. Svo væri reyndar ekkert því til fyrirstöðu að framleiða perur með endingarbetri glóðarþráðum, en er ekki gert því það væri síður ábatasamt fyrir framleiðandann sem græðir meira á því að selja þér sem flestar perur. Þess vegna eru t.d. svokallaðar sparperur gjarnan hafðar talsvert dýrari, vegna þess að þær eru yfirleitt líka endingarbetri.

Í flúrljósum er það hinsvegar startarinn sem tekur til sín talsvert mikla orku, en eftir að ljós er komið á þær þarf afar lítið rafmagn til að halda þeim logandi í alllangan tíma. Því borgar sig oftast frekar að láta þau loga, jafnvel allan daginn, þó svo maður þurfi öðru hverju að bregða sér frá í millitíðinni. Auk þess dregur það úr álagi á startarana og eykur þannig líftíma þeirra sem geta verið dýrir og jafnvel erfitt að komast að til að skipta um þá.

Að lokum skal bent á að þetta eru ónákvæm fræði vegna þess hve kringumstæður geta verið misjafnar. Því skal taka öllum svona fullyrðingum með nokkrum fyrirvara, sérstaklega ef þær koma frá framleiðanda perunnar. Mannleg hegðun er sjaldnast algerlega fyrirsjáanleg til lengri tíma og niðurstöður af tilraunastofum eiga ekki alltaf við í daglegu lífi fólks. "Your milage may vary!"

Svipað á við um margt annað, t.d. ökutæki, en það fer talsvert eldsneyti bara í að gangsetja venjulegan brunahreyfil. Því borgar sig yfirleitt ekki að drepa á honum ef aðeins þarf að stoppa í örstutta stund. Ein mínúta og styttra er líklega ágæt þumalputtaregla, en á móti þá borgar sig langoftast að drepa á bílnum ef maður þarf á annað borð að fara út úr honum og skilja hann eftir í einhverja stund. Nema e.t.v. þegar er verið að hita bílinn í frosthörkum eins og þeim sem í dag ganga yfir landið, en þá erum við líka að tala um kyndingu sem er ekki það sama og akstur.(Það dregur einnig úr líkum á þjófnaði þegar lyklarnir eru teknir úr svissinum! ;)

Bestu kveðjur, og takk fyrir áhugaverðan pistil.

P.S. Góður þessi, Benedikt!

Guðmundur Ásgeirsson, 28.11.2008 kl. 14:24

3 Smámynd: Einar Steinsson

Það er algjörlega fráleitt að það borgi sig að láta gasljós loga allan daginn frekar en að slökkva á þeim. Startarinn notar háa spennu í einhver sekúndubrot til að koma ljósinu í gang en há spenna er ekki það sama og meiri orka. Aukaorkan sem fer í þetta er smávægileg og þetta er einmitt ein af þessum mýtum sem Stefán er að skrifa um.

Hvað varðar bílana þá er sáralítið aukaeldsneyti sem fer í að gangsetja heitan bíl, eftir hálfa mínútu eru menn nokkuð örugglega komnir í gróða. Það næsta sem er að koma í þróun á bílvélum eru vélar sem drepa sjálfvirkt á sér þegar bíllin stöðvast og fari síðan sjálfvirkt í gang aftur þegar lagt er af stað. Það er talað um að með þessu geti verði hægt að spara 15-20% eldsneyti í borgarumferð þannig að menn geta rétt ímyndað sér hve lítið aukaeldsneyti þarf í startið.

Einar Steinsson, 28.11.2008 kl. 17:48

4 Smámynd: Walter Ehrat

Það eru nú þegar komnir í framleiðslu og notkun bílar sem slökkva og starta mótor þegar þarf og kallast tvinnbílar (Hybrid).

Mér finnst það samt reyndar merkilegt að þó hugmyndin sé góð og bíllin ætti að vera mjög sparneytinn þá virðist þetta ekki muna neinu í smábíl eins og t.d. Toyota Prius Hybrid sem eyðir 6-7 ltr í innabæjarakstri í bílaprófunum (ekki uppgefnum tölum framleiðanda sem virðast ekki vera réttar í eðlilegri notkun). Sú eyðsla er jöfn eða jafnvel meiri en á öðrum bensín smábílum.

Þar sem Hybrid tæknin virðist helst spara eitthvað að gagni er á stórum bílum og hentar fólki sem þarf á stærri bílum að halda. T.d. eyðir Chevrolet Tahoe Hybrid um 5 ltr minna pr 100km en venjulegur Tahoe. Þar munar töluverðu. Sama á við um Dodge Durango Hybrid þó muni ekki alveg eins miklu.

En takk fyrir áhugavert blogg þó ég hafi reyndar farið aðeins útfyrir uprunalegt umræðuefni enda hef ég lítið vit á ljósaperum.

Walter Ehrat, 28.11.2008 kl. 23:03

5 Smámynd: Einar Steinsson

Ég er ekki að tala um tvinnbíla þegar ég tala um bíla sem drepa á sér þegar þeir stoppa heldur venjulega bensín og dieselbíla.

Bílar eins og Toyota Prius eru meingallaðir að því leiti að það er ekki hægt að hlaða þá nema með mótornum í bílnum og þau lögmál hvað þarf mikið af bensíni til að hreyfa ákveðna þyngd beitast ekki. Nýtingin verður því einungis örlítið betri en ekki mikið. Næsta kynslóð af tvinnbílum mun hins vegar hafa þann möguleika að hlaða geymana þegar bíllinn stendur með hagkvæmari orkugjöfum.

Einar Steinsson, 29.11.2008 kl. 01:11

6 Smámynd: H G

Þakka fræðsluna um peru-'mýturnar',Stefán og  Einar! Einnig var innlegg Bofs gott þar sem hann gerði grein fyrir sögusögninni um flúor/gas-peruna sem við vorum flest farin að trúa - en er sem betur fer rækilega ýkt.  Ég hef gengið um slökkvandi á heimili mínu (og jafnvel vina+ættingja!) í áratugi, eða eftir að vandist þeim sið á hinum Norðurlöndunum.    Hef vel ljóst til starfa, maður þarf þess með aldrinum, - kveiki á notalegum lömpum og ekki síður kertum þar sem dvalið er hverju sinni. Annarstaðar slökkt og engin rafljós í dagsbirtu. Fyrir 'lyseslukke'-ferðirnar fær maður oft háð og spé - ellegar ergelsi heimilismanna, sem margir hverjir hafa aldrei greitt rafmagnsreikning.   Mér er það meginregla að eyða ekki í óþarfa nema stöku sinnum til skemmtunar!! - sem er þá ekki óþarfi, eða hvað? 

Kveðja, með von um að Benedikt fái nýja, sterka peru sem ekki slekkur á sér þó hann stoppi smástund, en það ku 'Chevrolet Tahoe Hybrid' gera 

H G, 29.11.2008 kl. 05:21

7 identicon

Sælt veri fólkið.

Það sem mitt glögga gestsauga hefur tekið eftir þegar ég kem til Íslands er að það virðist vera landlægur siður að menn láta bílinn standa í hægagangi tímunum saman. Ef maður ekki vissi betur mætti halda að eldsneytið væri nánast ókeypis.

Ekki virðist það vera spurningin um að hita upp því að þetta er jafn áberandi á sumrum sem vetrum. Algengt að menn sitji í bílum fyrir utan búðir og stofnanir  og bíða eftir betri helmingnum eða að menn skilja hreinlega bílinn eftir í gangi meðan þeir sinna erindum. Þetta er ekki hvað síst áberandi í ónefndu þorpi við Húnaflóa.

Þarna er þörf á hugarfarsbreytingu finnst mér.

Jón Bragi (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 06:22

8 Smámynd: Stefán Gíslason

Takk fyrir þessa ágætu umræðu! Það er eins með þetta og flest annað, að maður getur naumast fundið eitt alrétt svar sem gildir alltaf. En að meðaltali er óhætt að fullyrða að það borgi sig alltaf að slökkva á perum sem ekki er verið að nota, jafnvel þótt ekki standi til að hvíla perurnar meira en í nokkrar mínútur.

Ég hef kynnst þeirri ágætu tækni í bílum, að þeir slökkvi á sér á ljósum og fari svo hljóðlega í gang aftur þegar ekið er af stað. Ég hef nefnilega ekið um á Toyota Prius í rúm 4 ár. Þessi tækni mun breiðast út til fleiri bíla en tvinnbíla, en sjálfsagt er auðveldara að útfæra hana í tvinnbílunum, þar sem þeir hafa stóra rafmótora sem jafnframt þjóna hlutverki startara.

Það kom mér skemmtilega á óvart þegar ég settist að í Svíþjóð sumarið 1997 að sjá skiltin við innkeyrsluna í Lund, þar sem stóð "Tomgångskörning max. 30 sek" (ef ég man rétt). Þetta var dálítil uppgötvun fyrir sveitamanninn. Og þar sem ég veit að Svíar eru lítið fyrir órökstuddar fullyrðingar, þá býst ég við að þessi 30 sekúndna regla byggi á traustum rökum, þ.e. að þeir hafi komist að því að ef biðin er lengri en 30 sek, þá borgi sig að drepa á bílnum. Ég vandist því hins vegar í sveitinni, að bílar, sérstaklega Landrover díseljeppar, væru látnir vera í gangi heilu og hálfu dagana. Kannski voru startararnir í þeim alltaf bilaðir, eða olían svo ódýr að það var nauðsynlegt að brenna henni sem hraðast. Hvorugt á þó líklega við í stórjeppum samtímans sem malla tímunum saman mannlausir utan við verslanir og stofnanir við Húnaflóa - og jafnvel Faxaflóa.

Hvað eyðslu Priusbílanna varðar, þá tek ég undir það að hún er umfram væntingar. Samkvæmt upplýsingum framleiðandans (gerðarviðurkenningu) á hún að vera 4,3 l/100km, ef ég man rétt, í stöðluðum blönduðum akstri, en reynsla mín er að hún liggi nálægt 6 l/100km í hinum óstaðlaða blandaða akstri mínum allan ársins hring. Á hlýjum sumardögum er hún nálægt 5 lítrum, en hrekkur vel yfir 6 þegar kaldast er. Reyndar fer því fjarri að þar muni engu um tvinntæknina. Líklega er munurinn að minnsta kosti 2 lítrar á hundraðið, því að Priusinn er vel að merkja enginn smábíll, heldur rúmgóður 5 manna bíll með 145 hestafla vélarafl. Plássið fyrir þrjá aftursætisfarþega er jafnvel meira en í meðal jepplingi, en ég hef einmitt aðgang að einum svoleiðis líka. Priusinn hefur algjöra yfirburði hvað eyðslu varðar miðað við hefðbundna bensínbíla í sama stærðarflokki. En mikið hlakka ég til þess að næsta kynslóð komi á markað, því að þá verður tengiltvinntæknin væntanlega komin í gagnið. Þetta á að gerast fyrir árslok 2010.

En takk aftur fyrir þessa góðu umræðu!!!

Stefán Gíslason, 4.12.2008 kl. 15:15

9 identicon

Varðandi skrif Einars um tvinnbíla;  Fullyrðing hans um að nútíma tvinnbílar séu meingallaðir byggir á misskilningi.  Það er ekki sprengihreyfillinn í bílnum sem hleður rafgeymana heldur er sú orka sem myndast þegar hægt er á bílnum notuð til að hlaða geymana. 

Þetta sést vel í mælaborði annars bíls.  Sá heitir Honda Civic Hybrid og í mælaborði hans sést, ökumanni til glöggvunar (og sjálfsagt til að stela örlítilli athygli af akstrinum), meðal annars hvenær bíllinn hleður rafgeymana og hvenær hann notar uppsafnaða orku þeirra.  Með öðrum orðum, í hvert sinn sem slegið er af hleður bíllinn rafgeymana.  Í hvert sinn sem hemlað er aukast afköst rafalsins til muna.  Rafallinn virkar því ekki ólíkt gamaldags dýnamó sem sumir okkar kannast við af traustum eldri fararskjótum, DéBéEss.  Tvinnbílar sem hægt er að stinga í samband við "húsarafmagn" næturlangt er því ekki sú bylting sem sumir vilja meina, nútíma tvinnbílar framleiða nægt rafmagn til eigin nota.

Það sem hins vegar háir flestu þessum bílum er hversu litlar vélarnar eru.  Til að hreyfa bíl úr stað sem vegur, segjum 1500kg, þarf hefðbundinn 1300cc sprengihreyfill að erfiða meira en 1800cc hreyfill.  Meira erfiði kallar á meiri orku og því er lítill sem enginn munur á eyðslu tvinnbíls og hefðbundins bensínbíls.  Framtíðin gæti hins vegar falist í tvinnbíl með dieselmótor þar sem þeir eru orkumeiri (mælt í Nm) og sparneytnari en bensínvélar.

Birkir Örn (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 04:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband