14.12.2008 | 16:33
Hvað sagði Paul Hawken í gær?
Í gær sat ég skemmtilegan og uppörvandi fyrirlestur Paul Hawken í Þjóðmenningarhúsinu. Ég hef vitað af Paul síðustu 10 árin og bækurnar hans hafa legið á náttborðinu mínu. Ef maður ætti að telja upp 10 helstu umhverfisfrömuði í heiminum í dag, þá er mjög líklegt að nafnið hans væri á þeim lista. Eða eins og Björk Guðmundsdóttir sagði svo skemmtilega þegar hún kynnti hann í upphafi fyrirlestrarins: Hann er svona heimsmeistari í grænku.
Salurinn í Þjóðmenningarhúsinu var þéttskipaður í gær, en það sem Paul sagði á erindi við marga fleiri en þá sem þar voru. Þess vegna ætla ég að taka mér það bessaleyfi að birta nokkra punkta sem ég hripaði niður meðan ég hlustaði. Sé einhvers staðar rangt haft eftir er það algjörlega á mína ábyrgð. Vona að mér fyrirgefist framhleypnin. Set þetta í punktaform til að skera niður allan óþarfa:
- Paul hefur dvalist hérlendis síðustu daga. Hann segist aldrei hafa séð nokkurt land sem hefur eins góða möguleika og Ísland til að takast á við áskoranir 21. aldarinnar.
- Honum finnst rétt að líta á yfirstandandi fjármálakreppu eins og sjávarskafl (Tsunami) sem hvolfist yfir fólk í veislu. Núna erum við stödd ráðvillt í útfallinu, (Hva? Var ekki partí?), að leita að einhverju, og áttum okkur kannski ekki á því að auðvitað kemur sjórinn til baka. Þá er betra að vera ofar í fjöruborðinu. Allt sem við gerum til að draga úr útfallinu er dæmt til að mistakast.
- Maður þarf ekki að vera umhverfissinni til að setja spurningamerki við ofuráherslu Íslendinga á áliðnaðinn. Það er nóg að horfa á þetta út frá hagfræðilegu sjónarmiði.
- Enginn á ódýrari græna orku en Íslendingar!
- Olíuframleiðsla í heiminum náði hámarki fyrir 4-5 árum ("Peak Oil"). Verðið á síðasta ári var það hæsta í sögunni, en samt gátu stóru olíufélögin ekki aukið framleiðsluna. Það segir sína sögu um framboð á hráolíu!
- Á síðustu 8 árum (á valdatíma Bushstjórnarinnar) notuðu jarðarbúar 20% af allri þeirri olíu sem notuð hefur verið frá upphafi! Þetta magn var jafnframt 20% af öllum þekktum olíuauðlindum.
- Árið 1900 þurfti 1 tonn af olíu fyrir hver 100 tonn sem unnin voru úr jörðu. Árið 1970 var þetta hlutfall komið niður í 30:1. Núna er hlutfallið 3:1. Það verður sífellt erfiðara að ná olíunni. Þegar hlutfallið er komið niður í 1:1 er olíuvinnsla augljóslega orðin tilgangslaus.
- Olíuverð er núna um 40 dollarar á tunnu og hefur lækkað úr 140 dollurum. Núverandi verð er langt undir raunkostnaði. Það á bara eftir að hækka, ekki bara aftur í 140 dollara, heldur í 200 dollara, eða jafnvel 250 dollara. Þá verður olían orðin jafndýr og Coca Cola.
- Minnkandi eftirspurn eftir olíu í OECD-ríkjunum (vegna kreppunnar) skiptir nær engu máli, því að eftirspurnin eykst svo hratt í fjölmennustu ríkjum heims!
- Við erum að nálgast það sem kallað hefur verið "Red Queen Dilemma", sbr. söguna um Lísu í Undralandi. Því hraðar sem maður fer, því hraðar kemst maður ekki neitt.
- Helmingur af allri raforku í Kaliforníu fer í að dæla vatni. Eftir því sem vatnsskortur eykst þarf að bora dýpri brunna, sem þýðir að þá þarf enn meiri orku til að dæla vatninu.
- Framleiðsla á kolum mun ná hámarki á næstu 7-8 árum að mati Alþjóðaorkumálastofnunarinnar í París (IEA). IEA eru engin umhverfisverndarsamtök. Þetta eru alþjóðasamtök orkugeirans!
- Þegar tekið er tillit til alls þessa er augljóst hvílík blessun hvílir á Íslendingum. ("You are blessed, totally blessed")! Spurningin er bara hvernig við ætlum að ákveða hvað við ætlum að gera. Paul hvetur okkur til að láta ekki duga að halda fram skoðunum, heldur leggja fram beinharðar tölur, t.d. frá IEA. Hann orðaði stöðu okkar einhvern veginn svona: Þið hafið bestu möguleika sem nokkur þjóð í öllum heiminum hefur.
- Spurningin er hvernig við viljum flytja orkuna okkar út. Það er ekki góður kostur að flytja hana út í formi óunnins áls. Hlutfallslega mest af öllu áli heimsins fer í að framleiða bjórdósir. Helmingi þeirra er hent þegar búið er að drekka úr þeim. Álpappír er í 2. sæti, flutningatæki (bílar og flugvélar) bara í því þriðja!
- Það á að hugsa um það til hvers orkan er notuð, hvernig hún skapar mest verðmæti, hvernig hún gerir mest gagn! Viljum við heiðra minningu forfeðranna með því að láta orkuna okkar í að framleiða bjórdósir, sem síðan er hent?
- Sem dæmi um aðrar framleiðsluvörur sem skapa meiri virðisauka og gera meira gagn má nefna koltrefjar og gler, ekki samt venjulegt rúðugler, heldur hátæknirúðugler sem er sólfangari um leið, gler með þunna sólarfilmu á milli laga.
- Það er jafn auðvelt að búa til hagkerfi sem býr í haginn fyrir framtíðina og hagkerfi sem stelur frá framtíðinni, ("an economy that heals the future as one that steals from the future").
- Framleiðsla okkar á áli er dæmi um heimsins mesta sóunarferli.
- Hvar viljum við vera eftir 30 ár eða 50 ár? Þetta er ekki bara opin spurning. Þetta eru margar spurningar, spurningar á borð við: Viljum við hreinna loft eða mengaðra loft? Svörum þessum spurningum fyrst og vinnum okkur svo til baka. Hvað þarf sem sagt til að ná þessum árangri?
- Breytum áherslunum í fyrirsögnunum og hjá þjóðinni. Gefum út yfirlýsingu til umheimsins um það sem íslenska þjóðin vill! Vinnum þetta neðan frá og upp - úr grasrótinni. Við getum ekki breytt öðru fólki, en við getum breytt okkur sjálfum!
- Það er gríðarlegur vöxtur í sólarorkuiðnaðinum, eitthvað um 30% á ári. Ísland ætti að vera að framleiða eitthvað af þessum vörum. En við verðum að vita hvað við viljum! Heimurinn er að þróast í átt að grænni orku. Það er bara spurning hver ætlar að taka þátt í því.
- Það er orðið of seint að treysta á hetjur. Nú þurfum við manneskjur! Við þurfum forystu sem þjappar okkur saman, án þess að gera okkur öll eins. Hættum að einblína á sérstöðu okkar hvers og eins, leyfum okkur að vinna saman, ekki á morgun, heldur strax í dag! Við höfum ekki tíma til að dreifa kröftum okkar.
- Því ekki að gera eitthvað sem getur orðið öðrum til eftirbreytni!?
Hvet ykkur til að skoða heimasíðu Paul Hawken, http://www.paulhawken.com/. Þið getið líka prófað að gúgla manninn ef þið viljið átta ykkur betur á því hver hann er. Svo var hann líka í Silfri Egils í dag, sjá http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4440910 (aftast í þættinum).
Takk Björk og nattura.info fyrir að bjóða Paul Hawken til landsins! Gærdagurinn var virkilega uppörvandi.
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt
Athugasemdir
"Helmingur af allri raforku í Kaliforníu fer í að dæla vatni."
Var hann líka eitthvað í því að geta heimilda? Það væri fróðlegt að vita hvort þetta er rétt...
Hugi (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 17:55
Ég man ekki til þess að hann nefndi heimildir fyrir þessu. (Hins vegar gerði hann það varðandi ýmislegt annað). Og svo get ég líka hafa punktað þetta vitlaust hjá mér. Reyndar ætti að vera hægt að grafa þetta upp á netinu.
Stefán Gíslason, 14.12.2008 kl. 17:58
Hehe, ok... Lyktar af Michael Moore "hugmyndafræði" ;-)
Hugi (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 18:12
Þetta hefur trúlega verið misheyrn eða misskilningur hjá mér. Í skýrslu frá West Coast Diesel Emissions Reduction Collaborative, sem ég rakst á á netinu og virðist áreiðanleg, kemur fram að um 10% af heildarraforkunotkuninni í Kaliforníu fari í að dæla vatni og meðhöndla það. Ég sé ekkert ártal á skýrslunni, en hún er þó greinilega skrifuð eftir 2004.
Stefán Gíslason, 14.12.2008 kl. 18:53
Takk fyrir punktana Stefán, þeir eru fínir fyrir okkur sem komumst ekki á fundinn í gær. Mig langar að spyrja hvort brennisteins-vetnis mengunin frá jarðvarmavirkjununum hafi borist í tal á fundinum?
Kolbrún Halldórsdóttir (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 23:52
Vá, þetta hefur verið flottur fyrirlestur. Ég staldraði við punktinn um að olían gæti orðið jafndýr og Coca Cola. Þetta er nefninlega svo ofboðslega athyglisverð staðreynd. Ég sá einhvern þátt í sjónvarpinu í vetur um svartagullið þar sem þessi staðreynd var einmitt tíunduð, að olían yrði og ætti að vera þúsund sinnum dýrari en hún er í dag. Hvaða annan orkugjafa hefur þú sem getur fært bíl, sem er með alla fjölskylduna innanborðs og mikið af hennar hafurtaski 100 metra (eða eitthvað) á einum bolla, en olíu? Þetta var svona wakeup call fyrir mig!
Ingibjörg Hinriksdóttir, 15.12.2008 kl. 00:01
Já þetta var mjög áhrifaríkur fyrirlestur, varðandi orkuhlutanum.
Varðandi lausnir sem hann talaði um í fyrirlestrinum, var ég ekki jafn hrífinn. Takk til Maríu Maack og fleiri sem komu með athugasemdir varðandi tillögur hans um annars konar stóriðju. Hans tillaga var að nýta þessa ódýra og græna orka til að framleiða sólarrafhlöður og sólarfílmur fyrir heiminn eða svipuð vara, í stað þess að bara framleiða ál. En fólk í salnum bentu á að Island sé nú þegar að nýta mjög stóran hluta orkunnar í stóriðju. Og að verðmæti séu skemmd þegar orkan er virkjuð. Það má vel vera að hann hafi rétt fyrir sér varðandi stærstu tækifæri Íslands til að "bjarga heiminum" ef einblínt er á gróðurhúsaáhrifunum, en þetta er samt ekki svona einfalt. Það þarf að minnstu kosti að verðleggja það sem tapast.
Morten Lange, 15.12.2008 kl. 16:04
Kolbrún : Nei brennisteins-vetnis mengunin frá jarðvarmavirkjununum kom ekki til tals.
( Leiðréttið mig þið sem voruð ef ég hafi misst af þessu, en mér finnst það frekar ósennilegt )
Morten Lange, 15.12.2008 kl. 16:06
Ingibjörg :
Ef verkefnið er að færa fjölskylduna 100 metrar með hafurtaski, þá getur þú fræðilega séð gert það mun ódýrari hvað orku gildir, með reiðhjólum og kerrur aftan í þeim. Það væri líka innlendur og endurnýtanlegur orkugjafi sem mundi nýtast, alla vega í meira mæli en tilfellið er varðandi olíunni. Og ef við framleiddum meira mat mætti auka hlutfallið.
En dags daglega eru flest okkar ekki að fara með svona mikið af hafurtaski, og vegalengdir eru ekki ógnvægilegir. Hægt er að samnýta reiðhjól, ganga og almenningssamgöngur. Og 30 mínútna meðalerfið líkamsrækt á dag eru lægri mörkin samkvæmt WHO (Alþjóða heilbrigðismálastofnun [ AHS ?] ). Orkueyðslan mætti þannig skrifa á að stórum hluta á fyrirbyggjandi heilsurækt frekar en samgöngur.
Við þessu bætist jákvæð áhrif á umhverfi og heilsu miðað við aðra þætti en eldsneyti, en sem einkabílastefnan hafi í för með sér.
Á þessum umrótartímum getur verið gott að hugsa út fyrir kassann, bregða út af vanahugsuninni.
Morten Lange, 15.12.2008 kl. 16:25
Takk fyrir allar umræðurnar. Ég hef átt frekar annríkt þessa dagana og því ekki staðið mig í því að svara. Vona að mér fyrirgefist það. En hér kemur það......:
Dvergur nr. 3 (JJ): Já, þetta var fróðlegt. Svo er líka svo uppörvandi að hlusta á fólk sem sér ekki bara vandamál, heldur líka tækifæri.
Kolbrún: Nei, ég held að hann hafi ekkert minnst á brennisteinsvetni frá jarðvarmavirkjununum, enda er það frekar sértækt eða sér-íslenskt vandamál. Hins vegar er þetta eflaust vaxandi vandamál, ekki bara hér, heldur hvar sem menn virkja háhitasvæði nálægt byggð í einhverjum mæli. Þess vegna felur vandamálið líka í sér tækifæri fyrir íslenskt hugvit. Um leið og við flytum út þekkingu á nýtingu jarðvarma, eigum við að vera í stakk búin til að láta fylgja með þekkingu á því hvernig best sé að bregðast við vandamálum sem upp koma.
Ingibjörg: Morten er náttúrulega búinn að svara þér allítarlega. Ég get bara sagt, að hvað sem við gerum, þurfum við að verða óháð innfluttu eldsneyti. Þar liggja líklega stærstu tækifærin okkar. Við getum sjálf framleitt það sem er í bollanum.
Morten: Umræðan má aldrei verða svarthvít. Við sem sinnum umhverfismálunum þurfum að tala mál sem „hinir“ skilja líka. Verðlagning náttúrunnar er að mínu mati lykilatriði hvað það varðar. Iðnaðarframleiðsla verður stunduð meðan mannkynið skrimtir. Boðskapur Pauls var að mínu mati ekki að við ÆTTUM að fara út í einhverja tiltekna iðnframleiðslu, heldur miklu fremur að hvað sem við gerum, þá þurfum við að horfa heildstætt á málið. Ef menn ákveða að fórna einhverju tilteknu náttúrufyrirbæri fyrir orku, þá skiptir auðvitað miklu máli til hvers orkan er notuð. Þar er stór munur á því að búa til hráefni í bjórdósir, sem síðan er hent, eða vöru á borð við sólfangara, sem gerir fólki kleift að nýta auðlindir mun betur en ella. Öll mál þarf að vega og meta. Kannski er t.d. í lagi að virkja Gullfoss ef það er öruggt að hver einasta kílówattstund leysi innflutt og mengandi eldsneyti af hólmi.
Stefán Gíslason, 16.12.2008 kl. 16:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.