Leita í fréttum mbl.is

Að loknu hlaup(a)ári

Nú er árið 2008 að baki. Þetta var ágætis hlaupaár og prýðilegt hlaupár líka, hvað sem hver segir. Þegar ég hugsa um eigin hlaup á þessu nýliðna ári, þá stendur líklega Rómarmaraþonið upp úr, ekki þó eitt og sér, heldur með öllum þeim undirbúningi sem fylgdi. Þessi undirbúningur lagði grunninn að farsælu hlaupaári, auk þess sem hann víkkaði ýmis takmörk sem ég taldi mér áður vera sett. Til dæmis hafði mér aldrei áður dottið í hug að hlaupa 40 hringi á íþróttavellinum, eða 28 km á bretti, eða 25 km í 17 stiga frosti. Allt þetta varð maður að láta sig hafa á fyrstu vikum ársins til að vera kominn í sæmilegt stand um miðjan mars.

Nokkur af fjallvegahlaupum ársins eru jafnvel enn eftirminnilegri en Rómarmaraþonið, en ferðin til Rómar ruddi samt brautina. Fjallvegahlaupin urðu sjö eins og allir vita Smile, sjá nánar á www.fjallvegahlaup.is. Þau eru reyndar öll ógleymanleg, því að hvert hlaup er algjörlega ný upplifun. Oftast koma þó í hugann hlaupin yfir Rauðskörð í júní og Gaflfellsheiði í september, þ.e.a.s. fyrsta og síðasta hlaup sumarsins. Þetta voru nefnilega langharðsóttustu hlaupin. Ég var einn á ferð í Rauðskörðum, villtist á leiðinni upp í skarðið og lenti í klettum og torkleifum skriðum. Vil ekki gera mikið úr hættunni, en langar samt ekki að lenda í sams konar brölti aftur.  Gaflfellsheiðina hljóp ég með fríðu föruneyti, en það er ekki endilega góð hugmynd að hlaupa 38 km í óbyggðum í svarta þoku í hvössum mótvindi og kaldri súld. En gleðin að hlaupi loknu er oftast í réttu hlutfalli við erfiðið! Laxárdalsheiðin milli Reykhólasveitar og Steingrímsfjarðar var líka erfið í slyddu og mótvindi. Eskifjarðarheiðin var aftur á móti einhver auðveldasta leiðin í albesta veðrinu. Nú get ég varla beðið eftir því að takast á við þessa 40 fjallvegi sem ég á eftir í fjallvegahlaupaverkefninu mínu.

Akureyrarhlaupið í júní er líka eftirminnilegt, aðallega vegna þess að þar þreytti ég kappi við barnið mitt og tapaði. Þetta var 7. hálfmaraþonið mitt og tíminn miklu betri en í því fyrsta, sem ég hljóp einmitt árið sem þetta sama barn fæddist fyrir rúmum 23 árum. Reyndar hefði þetta orðið besti hálfmaraþontíminn minn frá upphafi, ef hlaupið hefði ekki óvart verið hálfum kílómetra of langt. En það er bara fínt, ég hef þá eitthvað til að stefna að. Smile

Ég er líka ágætlega sáttur við að ná því takmarki mínu að hlaupa 10 km undir 43:27 mín, þótt í annarri tilraun væri. Það er alltaf svo gaman að setja sér markmið og ná þeim.

Hlaupaárið 2008 var það langlengsta hingað til. Samtals lagði ég að baki 1.952 km á árinu, en áður hafði ég mest hlaupið 1.200 km á einu ári. Það var árið 2007. Þar áður var metið 917 km frá árinu 1996. Mánaðarleg vegalengd var líka meiri en nokkru sinni fyrr í 9 mánuðum af 12. Lengsti mánuðurinn var febrúar með 249 km.

Ég get ekki sagt skilið við hlaupaárið 2008 án þess að þakka þeim sem gerðu mér hvað ljúfast að stunda þetta tímafreka áhugamál. Þar ber hæst eiginkonuna Björk, sem aðstoðaði mig á alla lund í fjallvegahlaupunum - og hlaupafélagann Ingimund, sem teymdi mig áfram í öllum erfiðustu og köldustu æfingahlaupunum yfir vetrarmánuðina, allt upp í 33 km í hvert sinn, laugardag eftir laugardag. Auk þess fylgdu þau mér bæði til Rómar. Svo mætti líka nefna alla aðra sem fylgdu mér í fjallvegahlaupunum. Þar komu 6 hlauparar við sögu. Enn mætti bæta mörgum fleirum við, sem glæddu hlaupaárið lífi og næringu, jafnt fjölskyldumeðlimum sem öðrum. Þetta var gaman! Takk!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fríða

:) Takk sömuleiðis

Fríða, 6.1.2009 kl. 02:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband