Leita í fréttum mbl.is

Hvað er borgaraleg óhlýðni?

Civil olydnadAf gefnu tilefni hafa allmargir Íslendingar gerst óhlýðnir borgarar á síðustu vikum, en slík hegðun hefur annars verið fátíð hérlendis. Á dögunum rakst ég á ítarlega umfjöllun Skessuhorns Skánverja (öðru nafni Sydsvenskan) um borgaralega óhlýðni. Datt í hug að benda ykkur á þá ágætu lesningu.

Í umfjöllun Sydsvenskan kemur m.a. fram að sænsk stjórnvöld hafi látið gera sérstaka úttekt á því hvað borgaraleg óhlýðni sé í raun og veru. (Þetta kemur mér nú ekkert sérstaklega á óvart. Þegar úttektir eru annars vegar eru Svíar á heimavelli). Smile

Til að átta sig betur á fyrirbærinu borgaralegri óhlýðni, leitaði Sydsvenskan til þriggja valinkunnra einstaklinga. Fyrst spurðu þau dómsmálaráðherrann Beatrice Ask. Hún sagði einfaldlega: „Lögin gilda. Með lögum skal land byggja“. Þá vísaði hún á bug staðhæfingum um að óhlýðni geti stundum verið góð fyrir samfélagið og kvað allt slíkt vera vinstrivillu.

Magnus Wennerhag, doktor i félagsfræði við Háskólann í Lundi, sagði í samtali við Sydsvenskan, að til þess að einhver tiltekin aðgerð geti kallast borgaraleg óhlýðni verði hún að hafa pólitískan undirtón, beinast gegn hinu opinbera og hafa þann tilgang að vekja athygli á tilteknum málstað.

Sydsvenskan bað síðan þennan sama Magnus og Per Herngren, kunnan rithöfund og „aktívista“, að svara því hvort nokkrar tilteknar aðgerðir gætu talist vera borgaraleg óhlýðni. Ég ætla ekkert að fara að rekja öll svörin, enda góð æfing í sænsku að lesa þau á síðunni sem ég vísaði til hér að framan. Eitt verð ég þó að nefna, sem mér fannst standa upp úr:

Borgaraleg óhlýðni byggir ekki á ofbeldi. Ofbeldi er aðferð drottnaranna“.

Svona að lokum má geta þess, að að margra mati var Jesús Kristur frumkvöðull á sviði borgaralegrar óhlýðni, þó að hann hafi ekki notað það hugtak sjálfur í umræðunni.

(Myndin með þessari færslu er úr grein Sydsvenskan, sjá http://sydsvenskan.se/sverige/article403407/Olydiga-medborgare.html)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Hallsson

Takk fyrir þennan tímabæra og fróðlega pistil Stefán. Ég bendi hér á hóp á Facebook um Borgaralega óhlýðni. Bestu (friðsamlegar) baráttukveðjur,

Hlynur Hallsson, 9.1.2009 kl. 13:26

2 Smámynd: Haraldur Davíðsson

Heyr heyr, feitletraða tilvitnunin er góð!

Hitti mann um daginn sem sagði við mig setnigu sem varð mér umhugsunarefni, um leið og hann lýsti því yfir að íslendingar séu kúguð þjóð, sagðist hann jafnframt tilbúinn að fara á hendur samborgurum sínum með ofbeldi og sagði " ..ofbeldi er kúgunartæki fátæka mannsins "

En ofbeldi kallar bara á meira ofbeldi, blóð kallast á við meira blóð.

Takk fyrir góðan pistil.

Haraldur Davíðsson, 9.1.2009 kl. 13:46

3 Smámynd: Vefritid

http://plato.stanford.edu/entries/civil-disobedience/

Þessi er nokkuð góð.

Kv. Þórir hrafn

Vefritid, 9.1.2009 kl. 15:29

4 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Hvað meinar þú með því að feitletra þetta með ofbeldið?

Vilt þú meina það að mótmælendur hér á landi hafi yfir höfuð verið að beita einhverju ofbeldi?

Mér dettur í hug að benda þér á að það hvernig lögreglan hefur oft komið fram telst ofbeldi og þeir beita því oft áður en nokkru ofbeldi hefur verið beitt af hinum hópnum. Myndu þeir þá ekki teljast drottnarar stjórnvalda - þeas. þeir vinna skv. tilskipunum sinna yfirboðara sem eru tilbúnir til að beita þjóð sína ofbeldi. Það finnst mér mjög miður að sjá hversu fljótir þeir eru að beita ofbeldisfullum aðferðum við mótmælendur sem þó ekki hafa farið fram með ofbeldisfullum hætti á nokkurn hátt. Þessum sömu aðferðum er einnig beitt mjög víða erlendis þar sem mótmælt er, þeas. lögreglan er fyrri til að beita ofbeldi og er það mjög í anda Bush "pre-emtive strike" eða það sem þeir eru svo firrtir að kalla "fyrirbyggjandi aðgerðir" ... beitum lýðinn hörkulegu ofbeldi áður en lýðurinn æsist of mikið upp og beitir okkur ofbeldi.

Andrea J. Ólafsdóttir, 10.1.2009 kl. 10:49

5 Smámynd: Stefán Gíslason

Með því að feitletra ofbeldið vildi ég vekja athygli á því hversu mikilvægt það er að óhlýðnin - eða mótmælin - séu ofbeldislaus. Sem betur fer hafa mótmælendur hérlendis náð að halda stillingu sinni nær undantekningalaust, en eftir því sem tíminn líður eykst hættan á því að menn grípi til skemmdarverka eða annars ofbeldis til að leggja áherslu á málstað sinn. Um leið og það gerist byrjar maður að tapa. Þá er maður eiginlega genginn í lið með hinum. Lögreglan er í eðli sínu útsendari drottnaranna, ef maður vill orða það þannig. Við getum alltaf búast við ofbeldi úr þeirri átt, en mótmælendurnir mega aldrei falla í þá gryfju að beita svipuðum aðferðum.

Þetta voru sem sagt feitletruð varnaðarorð. Við getum þetta í sameiningu, svo lengi sem við tökum Gandhi okkur til fyrirmyndar. Það þurfa bara fleiri að láta í sér heyra, friðsamlega.

Stefán Gíslason, 10.1.2009 kl. 15:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband