Leita í fréttum mbl.is

Út að hlaupa 2009 - fyrsti hluti

Hlaupaárið 2009 byrjar bara vel. Alla vega varð janúarmánuður sá lengsti sinnar tegundar, nánar tiltekið 140 km. Janúar í fyrra var bara 116 km, þrátt fyrir að Rómarmaraþonið væri yfirvofandi. Ef ég man rétt þorði ég ekki að hlaupa fyrri part janúar 2008 út af óþægindum í hné. Ákvað svo að hætta að hafa áhyggjur og gera styrktar- og teygjuæfingar í staðinn. Síðan hef ég ekki fundið til í hnjánum.

Fólk er annars alltaf að spyrja mig hvort ég verði ekki slæmur í hnjánum af öllum þessum hlaupum, maður kominn á þennan aldur. Hnén virðast nefnilega há tiltölulega mörgum. Og þá er fólk fljótt að trúa að það sé orðið of gamalt til að hlaupa, eða eitthvað álíka gáfulegt. Einhver sagði einhvern tímann, gott ef það var ekki Trausti Valdimarsson, læknir og ofurhlaupari, að algengustu mistök sem fólk gerði, væri að halda að það væri of eitthvað til einhvers.

Í stuttu máli, þá há hnén mér ekki neitt og hafa aldrei gert, nema þá skamman tíma í einu. Síðast var það sumarið 1995 ef ég man rétt. Í stuttu máli má skipta fólki í tvo hópa eftir hnjám. Í öðrum hópnum er fólk með sködduð hné af einum eða öðrum ástæðum - og í hinum hópnum fólk með ósködduð hné. Í þeim flokki eru miklu fleiri en í þeim fyrrnefnda. Séu hnén ósködduð ættu þau ekki að hindra fólk í því að hlaupa. Reynsla mín bendir til að eymsli í ósködduðum hnjám hlaupara eigi sér tvær mögulegar ástæður öðrum fremur. Annað hvort eru skórnir ekki nógu góðir eða vöðvarnir sem liggja að hnjánum ekki nógu sterkir. Séu hnén ósködduð er ástæðulaust að gefast upp. Styrktaræfingar og teygjur geta leyst býsna mörg vandmál! En ég ætlaði ekkert að skrifa um hné, heldur um hlaupaárið 2009. 

Ég sagði í upphafi að árið hefði byrjað bara vel. Reyndar byrjaði það alls ekki vel, heldur með mikilli sorg, þegar einn úr hlauparasamfélaginu, Guðjón Ægir Sigurgeirsson, varð fyrir bíl á morgunhlaupi við Selfoss. Hugsanir um þennan atburð sækja oft á mann á hlaupunum. Eitthvað er öðruvísi en áður - en það eina sem maður getur gert er að hlaupa áfram sína leið og senda kveðjur í huganum til fjölskyldu og vina Guðjóns. Svona er máttur manns lítill. Línan milli lífs og dauða er þynnri en tárum taki. Hverja stund ber að þakka, því að enginn veit hvar og hvort næsta stund rennur upp.

Ég var að hugsa um að skrifa heilmikið um hlaupaáformin mín 2009, en nú langar mig frekar til að gera það seinna. Ætla að snúa mér að einhverju öðru næstu klukkutíma og hlaupa svo hefðbundna 20 km vestur á Mýrar með Ingimundi í fyrramálið. Áformin birtast örugglega á næstu dögum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fríða

Þetta með hnén.. eða ökklana eða mjaðmirnar stundum, það held ég að sé vegna þess að fólk fer of geyst af stað, finnur þá til í hnjánum og ákveður að í stað þess að halda áfram að þjálfa sig hægt og bítandi upp, þá geti það ekki hlaupið út af hnjánum.  Það er svolítið athyglisvert að hlusta á einkaþjálfara tala um hversu erfitt er að fá fólk til að ganga.  Bara ganga.  Það er kannski ekki skrýtið að einhver vandamál sýni sig ef fólk vill sleppa þessum hluta þjálfunarinnar og hoppa beint inn í eitthvað sem er of erfitt... ennþá.  Það eru í rauninni ótrúlegustu hlutir sem fólk setur fyrir sig... eins og til dæmis að það verði svo mótt!  Við hverju er að búast?  Síðan hvenær getur kyrrsetumaður, sem ekki hefur hreyft sig í mörg ár nema gangandi á bílastæði, hlaupið án þess að verða móður eða verða illt einhverstaðar?

Fríða, 7.2.2009 kl. 08:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband