Leita í fréttum mbl.is

Lukkudagur Svantes

Í framhaldi af umræðu á Vinamóti (Snjáldru eða Fésbók) í morgun datt mér í hug að birta eftirfarandi þýðingu á Lukkudegi Svantes eftir Benny Andersen, en þessa þýðingu gerði ég einhvern tímann seint á síðustu öld:

Morgunstund mild og góð!
Mikið er sólin rjóð!
Nína – hún brá sér í bað.
Svo borðum við eftir það.
     Lífið er alls ekkert leiðindaspil,
     já og loks er kaffið til.

Blánar í berjamó,
bisar þar könguló.
Fuglarnir fljúga hátt
í flokkum um loftið blátt.
     Lukkan er alls ekkert leiðindaspil,
     já og loks er kaffið til.

Grasið er grænt og vott.
Geitungar lifa flott.
Lungun í loftið ná.
Liljurnar anga þá.
     Lífið er alls ekkert leiðindaspil,
     já og loks er kaffið til.

Í sturtunni syngur söng
síkát um dægrin löng.
Himinninn hóflega blár.
Og hugurinn skýr og klár.
     Lukkan er alls ekkert leiðindaspil,
     já og loks er kaffið til.

Nú  kemur Nína hér.
Nakin og vot hún er.
Kyssir mig fim og fer
fram til að greiða sér.
     Lífið er alls ekkert leiðindaspil,
     já og loks er kaffið til.

Sjálfur er ég býsna sáttur við þessa þýðingu, en þó varð ég að játa mig sigraðan þegar kom að „Fuglene flyver i flok, når de er mange nok“. Ég held að þetta hafi reyndar vafist fyrir fleirum sem hafa spreytt sig á því að þýða þennan skemmtilega texta, en það veit ég að ýmsir hafa gert. Veit að Jón heitinn Björnsson, fyrrum organisti og kórstjóri í Borgarnesi, komst býsna vel frá þessari tilteknu setningu í þýðingunni sinni.

Kvennakórinn Norðurljós á Hólmavík söng mína útgáfu af þýðingunni inn á geisladisk sl. haust í útsetningu Úlriks Ólasonar. Nú geta þeir blogglesendur sem vilja líka sungið þetta við öll hentug tækifæri! (Samt mæli ég nú eiginlega frekar með því að danski textinn sé sunginn, svona til að viðhalda tengslunum við frændþjóðina).
Smile

thumb.php?file=cd_nordurljos2008
Nánari upplýsingar um geisladisk
Kvennakórsins Norðurljósa


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvernig er þýðing Jóns Björnssonar á setningunni um fuglana?

IB (IP-tala skráð) 11.2.2009 kl. 13:22

2 identicon

Sæll Stefán.

Þetta er nokkuð góð þýðing hjá þér.  Ég sá einhvern tímann á síðasta ári ekki síður góða þýðingu á þessu yndislega ljóði.  Sú er gerð af Sigurði Heiðar,  fyrrum blaðamanni og enn áður Borgfirðingi. 

Guðmundur Logi Lárusson (IP-tala skráð) 11.2.2009 kl. 13:24

3 identicon

Ég verð að viðurkenna að ég fór rangt með nafn heiðursmannsins Sigurðar Hreiðars  hér á undan.      Þýðingu hans á umræddu ljóði er að finna á blogginu hans:  autoblog.is/blog/auto

Guðmundur Logi Lárusson (IP-tala skráð) 11.2.2009 kl. 13:30

4 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Þetta huggulega ljóð Bennys kemst e-n veginn undir skinnið á svo til öllu heilbrigt þenkjandi fólki. Gott að fá svona laglega og sönghæfa snörun.

Sigurbjörn Sveinsson, 11.2.2009 kl. 13:45

5 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Góð þýðing á góðum texta. Ég skil vel að þú hafir heykst á "fuglene flyver o.s.v....."

Veistu hvar ég get nálgast kórútsentinu Úlriks heitins?

Heimir Lárusson Fjeldsted, 11.2.2009 kl. 14:07

6 Smámynd: Addý og Ingi

Það var vel gert að snara þessu á íslensku. Hef oft hlustað á Povl Dissing syngja um lukkudag Svantes þegar Nína kemur nakin úr baðinu. Þér hefur teksi vel til.

Addý og Ingi, 11.2.2009 kl. 14:27

7 Smámynd: Stefán Gíslason

Takk öll, fyrir þessar jákvæðu athugasemdir.

Jón heitinn reddaði þessu með fuglana svona, ef mig misminnir ekki: „Fuglarnir svífa í sveim, sé bara nóg af þeim“. Þarna finnst mér hann hafa náð að höndla þessa hárfínu dönsku kímni.

Varðandi kórútsetninguna, þá er ég nokkuð viss um að Sr. Sigríður, systir Úlriks heitins, á hana til, enda stjórnar hún Norðurljósakórnum. Það er örugglega óhætt að senda henni línu á solgull[hjá]islandia.is, eða slá á þráðinn til hennar, í 451 3117.

Stefán Gíslason, 11.2.2009 kl. 15:40

8 identicon

Þetta er gaman að lesa og varla síðra bókmenntaverk en frumtextinn.Þú harmar að geta ekki snarað „fuglene flyver i flok“ nógu vel. Þetta er samt notaleg og góð lausn á afslöppuðu mannamáli eins og frumtextinn. Sjálfur var ég einu sinni að reyna að aulast við þetta svona: Gæsirnar garga í kór/ ef grúppan er nógu stór. Ég gat þá heldur ekki stillt mig um að láta lokaerindið vera svona.Nú kemur Nína´og fer/nokkurn vegin allsberað kyssa á kollinn á mér/og kemba hárið á sér

Þá er því miður aulaáhersla á seinni atkvæðin í vegin og allsber, sem gerir svo sem ekkert til ef hugsað er um söngstíl Povl Dissings og maður raular þetta ekki fyrr en á þriðja bjór.

Hver er annars Jón Björnsson sem sagður er hafa snarað setningunni um fuglana?

Hvar er þýðing Sigurðar Heiðars aðgengileg og hvers á þýðing Einars Thor að gjalda að læknar nefni hana ekki?

Af Strandakonum hef ég aðeins góða reynslu, ekki síst í söng, - ég var í sveit á Skriðinsenni í Bitru og þar var ævinlega safnast saman við stofuorgelið á sunnudögum og sungið af hjartans lyst upp úr Fjárlögunum, oft margraddað við organslátt Steinunnar Guðmundsdóttur, ljósmóður, móður Lóu ljósmóður og organista á Hólmavík og þeirra Ennissystra og húsfreyju á Enni í mannsaldur. Þau Jón bóndi hennar Lýðsson og allt það fólk er eitthvert besta fólk sem ég hef kynnst um ævina. Hann kenndi mér að radda í bassa og er það mér enn vegarnesti í Karlakórnum Heimi.

Gunnar M Sandholt (IP-tala skráð) 11.2.2009 kl. 15:57

9 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Veit einhver um útsetningu  á "Den lykkelige dag" fyrir blandaðan kór?

Heimir Lárusson Fjeldsted, 11.2.2009 kl. 16:50

10 Smámynd: Stefán Gíslason

Takk fyrir skemmtilegt innlegg Gunnar. Ég man reyndar örlítið eftir þér frá Enni, þó að nokkuð sé um liðið. Kom svo sem aldrei þangað sjálfur á þessum árum. Fólk hittist helst við messur á Óspakseyri.

Mér finnst gæsaútgáfan bráðskemmtileg. Get vel ímyndað mér að þetta sé einkar skemmtilegt til söngs á góðri stundu!!!

Jón Þórarinn Björnsson var aðstoðarskólastjóri, kórstjóri og organisti í Borgarnesi þar til fyrir fáum árum, fæddur 1936. Hann lést í júní í fyrra. Ég kann ekki að rekja ættartöluna. Kynntist Jóni aðeins lítillega, en þó nóg til þess að vita að hann var mesti öðlingur - og bæði hógvær og hagmæltur. Árið 2003 kom út eftir hann ljóðabókin Hugleiðir.

Vonandi getur einhver vísað á útsetningu fyrir blandaðan kór.

Stefán Gíslason, 11.2.2009 kl. 20:41

11 identicon

Skemmtilegt, bestu þakkir.

Sigrún Helgadóttir (IP-tala skráð) 11.2.2009 kl. 23:30

12 identicon

Þetta er ljómandi lesning. Takk fyrir.

Ekki laust við að frostið minnki.

oliagustar (IP-tala skráð) 12.2.2009 kl. 08:56

13 identicon

Flott hjá þér! Þetta er svo notalegt lag og svo er ekki verra að hann er að syngja um "mig"! Hvers vegna skyldu annars vera til svona mörg lög um Nínu?

Jónína Óskarsdóttir (IP-tala skráð) 12.2.2009 kl. 12:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband