Leita í fréttum mbl.is

Ekki einn af smörtustu gæjunum í rúminu

Ég er þakklátur fyrir að vera ekki einn af "The Smartest Guys in the Room". Slíkra gæja bíða nefnilega erfiðir tímar þegar tjöldin falla að liðnum dögum víns og rósa. Ég var með öðrum orðum að horfa á Enron-myndina í sjónvarpinu, alla vega bróðurpartinn af henni. Þetta var sláandi saga, ekki þó vegna þess að svona stórt fyrirtæki skyldi geta farið á hausinn, eins og gerðist vestanhafs haustið 2001, heldur vegna þess að mér sýnist þessi saga hafa endurtekið sig lítið breytt á litla Íslandi 7 árum síðar - og líka vegna hins að á bak við hverja slíka sögu er harmsaga fjölskyldna, sem aldrei verða samar.

Það er sorglegt að menn skuli ekki geta lært af mistökum annarra, heldur aðeins af sínum eigin. Þegar dagar Enron voru taldir héldu athafnamenn í öðrum löndum, þ.á.m. Íslandi, áfram að leika sér í talnaleikfimi, þar sem góðar hugmyndir og viðskiptavild voru færðar að vild sem eignir í efnahagsreikningi til þess að blása upp verðmæti fyrirtækja og skapa arð sem ekki var til, eða í besta falli tekinn að láni frá ófæddum, allt undir því yfirskini að verið væri að gæta hagsmuna hluthafa. Víst forðast brennt barn eldinn, en bara þann eld sem það hefur sjálft brennt sig á.

En það finnast líka bjartar hliðar: Þegar gerð verður heimildarmynd um bankahrunið á Íslandi þarf ekki að frumvinna allt, heldur dugar að staðfæra handrit Enron-myndarinnar og byrja svo að setja inn íslenskara myndefni. Þetta hlýtur að spara slatta af peningum.

Ég sagðist vera þakklátur fyrir að vera ekki einn af "The Smartest Guys in the Room". En kannski er ég bara hræsnari sem er þakklátur fyrir að vera ekki eins og Farísearnir. Hver veit hvernig maður myndi bregðast við ef maður væri sjálfur í þessari aðstöðu? Og ekki ætla ég heldur að lýsa yfir sakleysi mínu vegna hrunsins hér. Við tókum öll þátt - með einum eða öðrum hætti, þó að við viljum helst ekki hugsa eða tala mikið um það.

Verum samt bjartsýn - og þakklát því fólki sem þrátt fyrir allt þorir að segja til um klæðleysi keisara!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef þér fannst myndin góð þá ættir þú að lesa bókina,  Smartest guys in the room.  Myndin skilar nokkuð hverning hugsun var í fyrirtækinu en bókin mun betur enda ítarlegri.

Guðsteinn Einarsson (IP-tala skráð) 2.3.2009 kl. 09:01

2 identicon

Horfði líka á þessa mynd í gærkvöldið. Þetta var óþægilega kunnulegt...

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 2.3.2009 kl. 09:32

3 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Á íslensku mun myndin heita Klárustu gaurarnir á svæðinu.

Flosi Kristjánsson, 2.3.2009 kl. 10:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband