20.4.2009 | 12:37
Kjarnorka er ekki málið
Í gærkvöldi sýndi RÚV áhugaverðan fréttaauka um auknar vinsældir kjarnorku meðal leiðtoga sumra nágrannalandanna. Það er sem sagt greinilegt að stjórnvöld í nokkrum Evrópulöndum, svo sem Svíþjóð, Bretlandi, Frakklandi og Ítalíu, eru farin að líta á kjarnorku sem hentugan orkugjafa í framtíðinni, og tala jafnvel um sjálfbæra þróun í því sambandi. Þarna held ég að menn séu á alvarlegum villigötum. Ég hef ekki möguleika á að sökkva mér djúpt í röksemdafærslur hvað þetta varðar, en langar þó að minnast lauslega á nokkur atriði:
1. Áhætta
Í þættinum í gærkvöldi kom m.a. fram að árlega dæju fjölmargir kolanámumenn í námuslysum. Þetta er hárrétt og ömurleg staðreynd. Augljóslega deyja miklu fleiri með þessum hætti en í kjarnorkuslysum. Hins vegar er nær útilokað að bera þetta tvennt saman, þar sem áhættan er í eðli sínu svo gríðarlega ólík. Í kolanámum er slysatíðnin (líkindin) há og afleiðingarnar miklar. Í kjarnorkuverum er slysatíðnin margfalt minni, en afleiðingar margfalt meiri. Í raun er áhættan af kjarnorkunni ólík öllu öðru sem við þekkjum, þar sem eitt óhapp, sem verður kannski ekki nema á 1.000 ára fresti, getur eyðilagt afkomumöguleika tugmilljóna á einu bretti til langrar framtíðar, auk hugsanlegs mannfalls þegar slysið á sér stað. Í þessu sambandi er athyglisvert að tryggingafélög hafa, eftir því sem ég best veit, ekki treyst sér til að selja rekstraraðilum kjarnorkuvera tryggingar.
2. Loftslagsmál
Helsta ástæða þess að kjarnorkunni er að vaxa fiskur um hrygg, er væntanlega sú að menn telja að með því að nota kjarnorku í stað orku úr jarðefnaeldsneyti sé hægt að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda, sem er jú að flestra mati stærsta umhverfisvandamál samtímans. Þetta er þó ekki einhlítt. Í skýrslu sem unnin var fyrir ríkisstjórn Þýskalands á síðasta ári kemur t.d. fram að ný jarðgasorkuver losi minna af gróðurhúsalofttegundum en kjarnorkuver sem veita sömu þjónustu! Í skýrslunni er borin saman losun frá mismunandi orkuverum í öllu orkuvinnsluferlinu og litið á venjuleg heimili sem grunneiningu. Þá er búið að taka tillit til losunar vegna vinnslu úrans og losunar sem leiðir óbeint af takmörkuðum nýtingarmöguleikum á heitu vatni frá kjarnorkuverunum (vegna staðsetningar þeirra). Hægt er að lesa meira um þetta í bloggfærslu sem ég skrifaði 1. júlí 2008. Þar eru líka tenglar á frekari upplýsingar.
3. Fjármögnun og rekstur
Svo virðist sem stofnkostnaður við kjarnorkuver sé gríðarlega hár í samanburði við önnur orkuver. Í þokkabót virðist mönnum hafa gengið afar illa að gera trúverðugar kostnaðaráætlanir, hverju sem þar er um að kenna. Þannig skilst mér að bygging á nýju kjarnorkuveri á eyjunni Olkiluoto við vesturströnd Finnlands hafi átt að kosta 3 milljarða evra, en stefni nú í 6 milljarða. Í þokkabót átti raforkuframleiðsla í verinu að hefjast árið 2008, en nú er víst búið að seinka því til ársins 2012. Þetta er auðvitað bara eitt dæmi, en sama mun vera uppi á teningnum í Bandaríkjunum, þar sem orkufyrirtæki veigra sér við að ráðast í byggingu kjarnorkuvera vegna þess hversu erfitt er að áætla kostnaðinn. Í tölum frá Alþjóðaorkumálastofnuninni (International Energy Agency (IEA)) kemur líka fram að stofnkostnaður fyrir hverja kílówattstund sem framleidd er í kjarnorkuverum stefni í að verða sá hæsti sem um getur í samanburði við aðra þekkta orkukosti. Þannig er það ekki í dag, en kostnaður við kjarnorkuver er ekki sagður geta lækkað neitt að ráði frá því sem nú er ("Low Learning Rate") á meðan nýting t.d. vindorku og sólarorku verður fljótt hagkvæmari með aukinni framleiðslu. Hvað reksturinn varðar nægir að vísa til þess sem fyrr var sagt um tryggingamál kjarnorkuvera. Í því felst í raun að ekki er hægt að reka verin á viðskiptalegum grunni, heldur verða ríki að veita þeim ábyrgð.
4. Sjálfbærni
Í raun snýst þetta allt um þá spurningu hversu sjálfbær nýting kjarnorku geti verið í samanburði við aðra orkukosti. Þar greinir menn á. Á heimasíðu Alþjóðakjarnorkusambandsins má lesa ítarlega röksemdafærslu fyrir sjálfbærninni, en Landsnefnd Bretlands um sjálfbæra þróun hefur komist að alveg gagnstæðri niðurstöðu. Spurningin um sjálfbærni er auðvitað nátengd spurningunni um öryggi.
Hér hef ég bara stiklað á stóru. Hef ekki tíma í bili til að vinna þetta betur og bið lesendur velvirðingar á því. En ef ég á að rýna í framtíðina, þá tel ég augljóst að frekari þróun kjarnorku (alla vega kjarnaklofnunar) til orkuvinnslu muni stöðvast mjög skyndilega innan fárra ára, nefnilega við næsta stóra kjarnorkuslys. Slík slys verða nefnilega fyrr eða síðar. Sú þróun sem nú er í gangi er að mínu mati einfaldlega afleiðing af því að tíminn sem liðinn er frá slysinu í Chernobyl 1986 er orðinn nógu langur til að óttinn sé farinn að gufa upp úr minninu. Næsta slys mun endurræsa þennan ótta. Þannig virkar það bara með mannshugann og slys af þessari stærðargráðu. Það er bara alls ekkert auðvelt að fást við áhættur af þessu tagi, þar sem líkurnar eru svona litlar en áhrifin svona mikil.
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt
Athugasemdir
Takk fyrir þetta Stefán. Ég sá ekki umfjöllunina í gær í sjónvarpinu en óar við henni samt. Kjarnorkumálin voru tekin dálítið fyrir á námskeiði um umhverfismál á Indlandi sem ég var á 2007 og samkvæmt bókum vísindamannanna þar er nánast allt sem mælir á móti kjarnorkuverum til orkuöflunar. Við rökin þín hér að framan vil ég bæta vandamálum við losun úrgangs frá verunum, sem eru fáránlega erfið. Mér skilst að Svíar séu komnir lengst en þeir séu samt í vandræðum. Vitum við nokkuð hvað við erum að gera framtíðarkynslóðum með því að grafa úrganginn?
Svo er annað, þó „ríku“ löndin geti haldið að einhverju leiti utanum sín öryggis og úrgangsmál er annað uppi á teningnum víðast hvar í heiminum. Ef Vesturlönd færu að veðja á kjarnorku á næstu árum væri varla hægt að meina öðrum það. Ég heimsótti nokkrum sinnum kjarnorkubæ í Tamil Nadu á suður Indlandi og þar er mikið um vinnuslys og ákveðnar tegundir veikinda meðal þorpsbúa.
Þóra Bryndís Þórisdóttir (IP-tala skráð) 20.4.2009 kl. 15:38
Hefur þú kynnt þér uppfærðar rannsóknir á því hversu mikil eða lítil áhrif slysið við Chernobyl hafði ?
Það kom öllum á óvart að dýralíf og plöntur dafna á svæðinu og jafnvel þó bæði séu lítillega geislavirk þá virðist þetta ekki hafa nein neikvæð áhrif. Jafnvel talað um að við nægileg smáan skammt getur það haft jákvæð áhrif (!).
Það kollvarpar þeirri hugmynd að öll geislavirkni sé hættuleg sama í hversu miklu mæli því svo virðist sem að lítið magn sé ekki skaðlegt.
Þetta er því meira spurning um að vísindin eru orðin betri varðandi raunverulegar afleiðingar Chernobyl frekar en að þetta sé gleymast. Mikill hræðsluáróður á þessum tíma virtist gefa til kynna að fleiri þúsundir hafi látist en raunveruleikinn er annar . Minnir að talan hafi farið úr 9-14.000 niður í rétt svo 150 manns og þar af voru flestir í því að hreinsa upp sjálfan geislavirka úrganginn.
Áróðurinn gaf hins vegar til kynna að geislavirkninn hafi ferðast alla leið til Bretlands en það eru engar sannanir fyrir því að það hafi haft slæmar afleiðingar í för með sér þar.
Stundum er sannleikurinn pínu sjokkerandi en hann er betri en hræðsluáróður sem á sér ekki stoðir í raunveruleikanum.
Örn Ingvar (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 09:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.