Leita í fréttum mbl.is

Ég keypti tyrkneskt vatn í gær

Flaskan góðaÉg mannaði mig upp í það í gær að kaupa eina flösku af þessu tyrkneska vatni sem ég minntist á í síðustu færslu. Þetta gerði ég með hálfum huga, því að ég vildi helst ekki auka eftirspurnina. En ég get sem sagt staðfest að í Krónunni í Mosfellsbæ fæst venjulegt lindarvatn í hálfslítersflöskum, innflutt frá Tyrklandi. Reyndar kemur þetta vatn við í Danmörku á leið sinni hingað, en á umbúðunum er sérstaklega tekið fram að vatnið sé sett á flöskur við sjálfa lindina. Tappinn var sem sagt settur á þessa flösku í Izmir í Tyrklandi 29. apríl 2008. Einhvern tímann eftir það var settur miði á flöskuna með merki fyrirtækisins Pinar Water í Danmörku. Þaðan hefur flaskan svo haldið áfram ferðalagi sínu alla leið í Mosfellsbæ - og þaðan í Borgarnes í gær. Núna er ferðalögum flöskunnar kannski að mestu lokið, því að hún er nefnilega að nálgast síðasta söludag, sem er nánar tiltekið nk. miðvikudag, 29. apríl 2009, á ársafmæli flöskunnar. Líklega hefur það verið þess vegna sem þetta vatn er nú boðið til sölu í Krónunni í Mosfellsbæ á aðeins 29 krónur hver flaska. Upphaflegt verð er 65 krónur, en síðan er veittur 55% afsláttur við kassa.

Ég er í stuttu máli sagt algjörlega forviða yfir því að Íslendingar skuli flyta inn vatn frá Tyrklandi! En ég ætla ekkert að orðlengja um það frekar. En kannski leyfi ég flöskunni að fara með mér á einhverja fyrirlestra næstu mánuði. Ég ætla alla vega aldrei að drekka þetta ársgamla tyrkneska vatn, jafnvel þó að það standi á flöskunni að þetta sé "Kilden til DIN sundhed...".

Læt myndirnar annars tala sínu máli.

Strimill og flaska
Strimillinn úr Krónunni frá því í gær

Miðinn á flöskunni
"Kilden til DIN sundhed". Innihaldslýsing og
upplýsingar um framleiðandann


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll takk fyrir að blogga um tyrkneskt vatn sem hægt er að kaupa á Íslandi. Hvað ætli það séu margir kílómetrar til Íslands frá Tyrklandi og hvað ætli þau farartæki sem fluttu vatnið til Íslands hafi eytt miklu eldsneyti og mengað mikið við flutning þessa vatns? Ég spái mikið í að borða það sem vex þér næst og hefur mengað sem minnst við að rækta það og koma því heim í hús. Kv Björk Bjarnadóttir

Björk Bjarnadóttir (IP-tala skráð) 26.4.2009 kl. 22:09

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Við ættum kannski að flytja út sand til Sahara? 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 26.4.2009 kl. 22:27

3 identicon

Og þetta getur gerst þrátt fyrir að við séum EKKI í ESB !

Synd og skömm, auðvelt hefði verið að kenna ESB um þetta ef við hefðum verið þar inni.

En, er þetta ekki frelsið í sinni ýktu mynd.

Neitendur eiga jú að hafna svona vitleysu.

Guðmundur Þór (IP-tala skráð) 26.4.2009 kl. 23:24

4 Smámynd: Guðmundur Björn

55% afslátturinn segir kannski allt um söluna á þessari vöru. 

Guðmundur Björn, 26.4.2009 kl. 23:29

5 identicon

Þú ert fínn penni, þetta er mjög svo skemmtileg færsla um "litlu flöskuna sem gat" og fór í þetta einkennilega árslanga ferðalag. Þó það tengist varla þá minnir þetta mig á þegar ég keypti vodkaflösku í lítilli búð í Kina. Allt annað í búðinni var svo rammkínverskt að ég gat vart borið á það kennsl svo ég keypti eina vökvann sem ég kannaðist við í fljótu bragði og gekk út með rússneska Moskovskaya flösku sem ég sá bókstaflega rykfallna aftast í einni hillunni. Þetta var sirka 2003. Þegar ég leit á flöskuna var hún stympluð "Export of Soviet Union" og miðinn var gulnaður. Greinilega ekki vinsælasta varan í búðinni, frekar en tyrkneska vatnið í krónunni :) 

Gunnar Hrafn (IP-tala skráð) 26.4.2009 kl. 23:43

6 identicon

Ja hvur strimillinn.

Þetta er hróplega fyndið. Hverjum dettur svona vitleysa í hug. Segir kannski nokkuð um íslenska neytendur að varan var að renna út á síðasta söludagstimpli. Þeir semsagt láta ekki glepjast fyrr en varan er sett á tilboðsverð.

En frábær færsla hjá þér.

Baldvin Baldvinsson (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 00:23

7 identicon

Já, talandi um að sækja vatnið yfir lækinn! Er þetta ekki ein af ástæðunum fyrir því hversu menguð jörðin okkar er? Sorglegt að sjá svona vinnubrögð...

Helga S (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 09:35

8 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Þetta er með ólíkindum, það er líka hægt að fá innfluttan fisk í Krónunni, Pangafisk frá Asíu ef ég man rétt, sem Snæfiskur flytur inn.

Við erum snillingar í meðferð gjaldeyris og eða atvinnumálum okkar, svo yptum við öxlum og höldum því fram að Evran reddi þessu öllu saman.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 27.4.2009 kl. 09:55

9 identicon

„hálfslítersflöskum“

Réttara væri að segja „hálfs-lítra flöskum“

En færslan er þarft innlegg og vonandi að þessi innflutningur sé leifar 2007 geðveikinnar.

kv. Nonni

Nonni (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 13:03

10 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Ég veit ekki betur en hinir og þessir ætli sér að verða ríkir á vatnsútflutningi frá Íslandi jafnvel til Mið-austurlanda. Ég sit hér á tyrknesku hóteli og drekk tyrkneskt vatn að vild minni og get fullyrt að það sé ekki síðra en íslenska lindarvatnið.

Ísland er ekki eina landið í heiminum með gott vatn. Tyrkneskt vatn er víða þekkt sem eitt hið besta í heimi. Úrkoma vetrarins fellur á hásléttuna þar sem vatnið síast gegn um berg- og sandlög og sprettur síðan 100 árum síðar sem uppsprettulind við Svartahafið.

Í heimi sem stöðugt skreppur saman er þetta í sjálfu sér ekki óeðlilegt. Mér kæmi ekki á óvart þótt finna mætti íslenskt vatn í stórverslunum Tyrklands þó ég hafi ekki rekið augun í það.

Sveinn Ingi Lýðsson, 27.4.2009 kl. 15:36

11 Smámynd: Páll A. Þorgeirsson

Ég er að hugsa um að flytja inn "sjó frá Kína", hann þykir víst betri en sá íslenski fyrir "þorskeldið" okkar. 

Páll A. Þorgeirsson, 27.4.2009 kl. 16:14

12 Smámynd: abg

Þetta er náttúrlega með ólíkindum! Kolefnisfótspor/sótspor þessa blessaða vatns er orðið alveg með eindæmum, að ég tali nú ekki um "efnahagssporið" á þessum 29 krónum sem það kostar!!!

Bið að heilsa

Aðalbjörg Birna 

abg, 27.4.2009 kl. 16:25

13 Smámynd: Róbert Arnar Stefánsson

Tek undir með fyrri ræðumönnum - ótrúlegt og í raun skandall!

Róbert Arnar Stefánsson, 28.4.2009 kl. 00:38

14 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Þú ert snillingur Stefán, ekkert annað!

En í framhaldi af því sem Gunnar Hrafn benti á þá verð ég að segja frá því að ég keypti mér kristalsglös í Tékklandi (en ekki hvar) en þegar ég kom heim og fór að dunda mér við að taka glösin góðu uppúr kassanum kom í ljós að þau voru þýsk. Ok, kannski ekki gríðarlega langt á milli Þýskalands og Tékklands, og þetta er bjánalegur samanburður við tyrkneska vatnið ...

æ, ég hætti þessu bara! Knús!

Ingibjörg Hinriksdóttir, 30.4.2009 kl. 18:28

15 identicon

Það er rétt að þetta er fáranlegt út frá umhverfissjónarmiðum.  Hinsvegar finnst mér þetta góð áminning fyrir okkur hvernigaðgengið er að hreina, kalda vatninu okkar.  Hef drukkið vatn lengi og þegar ég fer sjoppur og veitingastaði með fjölskyldunni þá hef ég fengið vatnið í rykföllnum gömlum plastglösum, ísboxum o.s.frv.

Lendingin er því að kaupa vatn á flöskum og fá það hreint og kalt.  Íslenskt er þó tekið framyfir ef það fæst.

Guðrún Anna Finnbogadottir (IP-tala skráð) 3.5.2009 kl. 08:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband