Leita í fréttum mbl.is

Út að hlaupa um þessar mundir

Apríl varð svolítið skrykkjótur hlaupamánuður. Missti eiginlega viku úr fyrir klaufaskap, og reyndi að bæta það upp með lengri hlaupum. Það hefur bæði kosti og galla. Það er auðvelt að ofgera sér ef maður hlustar ekki á líkamann. En þetta slapp nú allt saman og mér tókst að ná 200 kílómetra mánuði, sem er reyndar sjaldgæft í hlaupasögu minni. Ég er nefnilega ekki einn af þeim sem hlaupa hvað mest. Í afar samviskusamlegu hlaupabókhaldi mínu síðustu 24 ár er bara að finna 4 mánuði lengri en nýliðinn aprílmánuð. Lengst fór ég í febrúar 2008, 249 km, en næstlengst í júlí 1996, 238 km.

Þetta með hlaupavegalengdir er mjög afstætt. Eftir því sem næst verður komist lagði a.m.k. 101 Íslendingur meira en 200 km að baki á hlaupum í apríl. Fyrir marga þeirra er þetta helst til lítill mánaðarskammtur, en fyrir flesta aðra líklega nánast óhugsandi. Þetta er einmitt einn af stóru kostunum við hlaupin. Þar geta hér um bil allir verið með - á eigin forsendum. Þetta snýst allt um að setja sér markmið, og ná því, til að geta sett sér nýtt markmið. Næsta markmið getur verið að hlaupa í eina mínútu án hvíldar, eða hlaupa 50 maraþon á 50 dögum, eða eitthvað þar á milli. Glíma við hófleg markmið við eigin hæfi er ekki bara holl, heldur lykillinn að framförum, ekki bara á hlaupum, heldur líka í öðrum hlutum lífsins. Og alls staðar gildir, að verðlaunin fyrir að ná markmiðinu felast í að hafa náð því. Það gefur gleði, sem maður á ekki aðgang að í sama mæli láti maður bara reka án þess að ætla sér eitthvað sérstakt.

Nú styttist í fjallvegahlaupavertíðina, bara tæpar 3 vikur í fyrsta hlaup, Svínaskarð milli Mosfellsdals og Kjósar. Til þess að mér líði þokkalega vel á þeirri leið þarf ég að þétta æfingarnar dálítið næstu vikur. Hef yfirleitt hlaupið þrisvar í viku síðan í vetrarbyrjun, en nú eru 4 æfingar algjört lágmark. Þetta á nefnilega að vera gaman, en það er það ekki nema líkaminn sé í því standi sem hugurinn ætlar honum.

Ég hef aðeins verið að gæla við þá hugmynd að fara í Mývatnsmaraþonið 30. maí. Finnst ég þurfa að hlaupa maraþon annað slagið til að fá staðfestingu á ástandinu. Þetta snýst líka um félagslega þætti, að hitta aðra sem eru að fást við eitthvað svipað, að upplifa stemmingu og gefa og þiggja dálitla aukaskammta af gleði, þó að gleðin leynist nú svo sem við hvert fótmál hversdagsins.

Sjáum til með Mývatn. Fyrst er að styrkja sig aðeins betur - og svo er það Svínaskarð. Veit um a.m.k. tvo sem ætla með. Vonast eftir fleirum. Skrifa meira um þetta fljótlega........


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fríða

Mikið ætlar þú að vera fljótur yfir Svínskarð ef þú ert ekki kominn í form fyrir það nú þegar.  18 km og 400 m hækkun er nú ekki mikið.

Fríða, 3.5.2009 kl. 09:35

2 identicon

Leyfi mér, enda þótt það komi eins og út úr kú (svína-skarð kemur að vísu við sögu í færslunni hér fyrir ofan) að þakka fyrir það sem ég rændi óbeint úr skrifum Stefáns Gíslasonar fyrir skemmstu og nota á mínu bloggi ...

Hlynur Þór Magnússon (IP-tala skráð) 3.5.2009 kl. 18:02

3 Smámynd: Stefán Gíslason

Fljótur yfir Svínaskarð? Nei, ég ætla ekkert að flýta mér, þetta snýst bara um að vera í sem bestu standi til að sælan verði sem mest.  Og Hlynur, mín er ánægjan og heiðurinn, að þú fáir lánað hjá mér til afnota á blogginu þínu. Allrabesta mál. Takk fyrir tilskrifin!

Stefán Gíslason, 3.5.2009 kl. 22:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband