Leita í fréttum mbl.is

Kæruleysislegir úlfar

Ég hef oft grunað Vegagerðina um að gera stórmál úr lítilli ófærð, eða með öðrum orðum að reka það sem kalla mætti „úlfur-úlfur stefnu“, til að fæla fólk frá því að vera að flækjast eitthvað út í óvissuna, eða út í vitleysuna, á illa búnum bílum. Reyndar hef ég verið býsna sáttur við þetta, enda aðhyllist ég varúðarregluna og finnst varfærni góð. En í kvöld þykir mér Vegagerðin hafa sofið á „úlfavaktinni“.

Ég skellti mér sem sagt til Akureyrar undir kvöldið á drossíunni. Sem betur fer hafði ég látið ógert að rífa undan henni loftbóludekkin sem ég nota á veturna, og gefa bestu nagladekkjum lítið sem ekkert eftir að mínu mati. Og sem betur fer hafði löggan líka að nokkru leyti vit fyrir þeim sem höfðu treyst á „úlfavakt“ Vegagerðarinnar.

Eins og sæmilega fullorðnum sveitamanni sæmir, athugaði ég veður og færð samviskusamlega á netinu áður en ég lagði upp frá Borgarnesi um 6-leytið. Sá að það var býsna hvasst á Holtavörðuheiðinni, hálka og skafrenningur. Allir aðrir hlutar leiðarinnar frá Borgarnesi til Akureyrar voru hins vegar grænir á kortinu, þ.e.a.s. greiðfærir. Ég taldi því litlar líkur á að ég myndi lenda í vandræðum, þótt sjálfsagt þyrfti að fara að öllu með gát á heiðinni. Svo lagði ég af stað og afþakkaði boð betri helmingsins um að fá lánaðan hinn bílinn á heimilinu, sem er líka enn á loftbóludekkjum og með drifi á öllum hjólum í þokkabót.

Löggan stoppaði mig og alla aðra upp við Dalsmynni, sagði að búið væri að loka heiðinni og því væri þjóðráð að fara Bröttubrekku og Laxárdalsheiði. Ég var afar sáttur við það, enda finnst mér leiðinlegt að lenda í byl, ófærð og veseni. Löggan sagðist hafa þær upplýsingar frá Vegagerðinni að Laxárdalsheiðin væri greiðfær. Það var hún svo sem líka, en efst á henni var nú samt töluverður snjór og krapi á veginum. Látum það nú vera. En á leiðinni frá Hvammstanga og um það bil austur að Gljúfurá var leiðindaveður, töluverður krapi á veginum og bara mjög viðsjárvert færi. Þar höfðu bílar enda farið út af og velt. Að mínu mati var þessi kafli hreinlega hættulegur bílum á sumardekkjum. Ég fór því að hafa áhyggjur af Vatnsskarðinu og Öxnadalsheiðinni. Hringdi í upplýsingasíma Vegagerðarinnar, 1777, og viti menn: Þar var sagt að það væri hálka og skafrenningur á Holtavörðuheiði, (sem var þó hreinlega lokuð þegar þetta var), og svo átti líka að vera éljagangur á Öxnadalsheiði og norðan við Akureyri. Að öðru leyti væri leiðin greiðfær. Þetta hljómaði náttúrulega bara sem bull þegar maður var nýbúinn að læðast í gegnum Vestur-Húnavatnssýsluna.

Ferðin gekk annars svo sem ágætlega það sem eftir var. Að vísu var dálítil hálka á Vatnsskarði og sömuleiðis smávegis sitt hvorum megin í Öxnadalsheiðinni.

Mér leiðist að vera neikvæður, en ef þeir eru enn til sem fara inn á netið eða hringja í upplýsingasíma Vegagerðarinnar áður en þeir rjúka af stað, þá fengu þeir verulega villandi upplýsingar þarna í kvöld. Ég hef áhyggjur af því, ég verð að segja það, sérstaklega þegar þessi tími er kominn - og Yarisfólkið jafnvel farið að streyma norður í land á bílaleigubílunum. Ég er hræddur um að einhver þeirra hafi átt erfið augnablik á þessum greiðfæru vegum dagsins.

Líkur hér Vegagerðarnöldri að sinni.

ZBT90 004acweb
Það var ekki sérlega sumarlegt á Akureyri í kvöld þegar drossían var komin
á leiðarenda eftir mjúkan akstur á grænum vegum.


mbl.is Búið að opna Holtavörðuheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Jamm. Svona er þetta. Ísland í dag.

Haraldur Bjarnason, 9.5.2009 kl. 14:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband